Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 385/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. A-liður 8. tl., 69. gr.   Lög nr. 67/1971 — 14. gr.  

Sambúðarslit — Sambýlisfólk — Meðlag — Óvígð sambúð — Framfærandi — Barnabætur — Barnabætur, skipting — Útsvarslækkun v/fjölskyldu — Meðlagsfrádráttur — Tímamörk sambúðarslita — Sönnun — Skráning sambúðar — Forsjá barna — Staðfesting samkomulags um sambúðarslit

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í reit 47 í skattframtali sínu árið 1985 helming greiddra meðlaga með börnum sínum, S. og U., sbr. 8. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Nam fjárhæð þessa frádráttar 10.261 kr. Með bréfi, dags. 19. júlí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að þessi frádráttarliður hefði verið felldur niður og tekjur hækkaðar samsvarandi, þar sem kærandi teldist framfærandi barnanna vegna sambýlis með móður þeirra, sbr. 69. gr. og 8. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 og 14. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar.

Með kæru, dags. 21. ágúst 1985, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingu skattstjóra og krafðist þess, að fyrrgreindur liður yrði heimilaður til frádráttar, þar sem kærandi hefði ekki verið í sambýli við móður barnanna nema tvo mánuði ársins 1984 og gæti því ekki talist framfærandi mest allt árið 1984. Með kæruúrskurði, dags. 12. nóvember 1985, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með skírskotun til þess, að samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands væri kærandi skráður í sambúð með M. og hvorki hefði borist opinber tilkynning um sambúðarslit né kærandi sannað eða gert sennilegt tímamark sambúðarslita.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, ódagsettri en móttekinni 10. desember 1985, og þess krafist, að breytingu skattstjóra varðandi hinn umdeilda frádráttarlið verði hnekkt. Þá var boðuð framlagning sönnunargagns um tímamörk sambúðarslita. Með bréfi, dags. 17. desember 1985, sendi umboðsmaður kæranda staðfest endurrit Borgardómaraembættisins á samkomulagi kæranda og fyrrum sambýliskonu hans, dags. 1. október 1985, þar sem fram kemur, að konan fer með forsjá barnanna og kærandi greiðir framfærslueyri með þeim frá 1. ágúst 1984.

Með bréfi, dags. 9. júní 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Með hliðsjón af framlögðum gögnum er fallist á kröfu kæranda um frádrátt í reit 47 á framtali. Jafnframt er farið fram á leiðréttingu á barnabótum til samræmis við fyrirliggjandi gögn, þ.e. að kærandi fái barnabætur til 31. júlí 1984.

Kröfu kæranda um meðlagsfrádrátt, sem hann hefur stutt gögnum, þykir bera að taka til greina. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 var kæranda ákvarðaður helmingur barnabóta vegna fyrrnefndra barna 13.125 kr., sbr. 5. mgr. 69. gr. laga nr. 75/1981. Óyggjandi þykir vera, að kæranda verði eigi ákvarðaðar barnabætur vegna barnanna lengur en til 1. ágúst 1984, sbr. 4. mgr. 69. gr. nefndra laga. Verða barnabætur því 7.638 kr. Þá þykir bera að leiðrétta lækkun útsvars vegna barnanna úr 450 kr. í 262 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja