Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 392/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. D-liður 2. tl. — 31. gr. 1. tl.  

Löggiltur endurskoðandi — Félagsgjald — Stéttarfélagsgjald — Félag sjálfstætt starfandi manna — Rekstrarkostnaður — Sjálfstæð starfsemi

Málavextir eru þeir, að skattstjóri gerði þá breytingu á skattframtali kæranda 1985 að færa gjaldfært félagsgjald 9.000 kr. af rekstrarreikningi í reit 56 á framtalinu, þar eð skattstjóri taldi, að gjaldið væri eigi greitt til félags, sem starfaði eingöngu í þágu atvinnurekenda. í kæru til skattstjóra dags. 29. júlí 1985, segir m.a.:

„Með bréfi dags. 19. júlí 1985 tilkynnið þér, að gjaldfært félagsgjald skuli fært af rekstrarreikningi yfir á reit 56 á framtali. Undirritaður mótmælir þessari túlkun. Félag löggiltra endurskoðenda er fyrst og fremst fagfélag, það hefur starfsmann í sinni þjónustu og það heldur úti margs konar þjónustustarfsemi fyrir félagsmenn sína. Hið svokallaða félagsgjald er því í raun ekkert annað en greiðsla fyrir þá þjónustu, sem félagið veitir og því alfarið sambærilegt við önnur rekstrarútgjöld.

Með úrskurði, uppkveðnum 15. nóvember 1985, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, þar eð hann þætti eigi hafa sýnt fram á, að umrætt félagsgjald til Félags löggiltra endurskoðenda gæti talist frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981.

Kærandi hefur skotið máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 11. desember 1985, og segir þar m.a.:

„Vísað er til röksemda í bréfi undirritaðs frá 29. júlí sl. og þær ítrekaðar hér. Það er skoðun undirritaðs, að umrætt félagsgjald sé þannig hluti af rekstrarkostnaði sbr. 1. tl. 31. gr. laga um tekju- og eignarskatt. Félagsgjöld skv. 2. tl. D-liðar 30. gr. sömu laga eigi einungis við bein launþegafélög, svo sem V.R., Dagsbrún og félög með hliðstæð markmið.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 20. janúar 1986, krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.
Hið umdeilda félagsgjald telst vera frádráttarbært frá tekjum til skatts skv. 2. tl. D-liðs 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt en eigi sem rekstrarkostnaður í skilningi 1. tl. 31. gr. sömu laga. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja