Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 408/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. D-liður 1. tl. — 31. gr. 1. tl.  

Lyfsali — Félagsgjald — Stéttarfélagsgjald — Rekstrarkostnaður — Félagslög — Félag sjálfstætt starfandi manna — Atvinnugreinafélag — Sjálfstæð starfsemi — Sératkvæði

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 9. júlí 1985, fór umboðsmaður kæranda fram á við skattstjóra, að 24.946 kr. af stéttarfélagsgjaldi að fjárhæð 29.352 kr. til Apótekarafélags Íslands, er fært hafði verið í reit 56 á skattframtali, yrðu viðurkenndar sem rekstrarkostnaður við rekstur apóteks kæranda og reiknuð laun hans lækkuð að sama skapi. Vísað var til bréfs, dags. 11. júní 1985 frá nefndu félagi. Þar segir m.a.: „Samkvæmt beiðni yðar skal það tekið fram, að það sem heitir „félagsgjöld í Apótekarafélagi Íslands, er með réttu þátttaka í rekstrarkostnaði skrifstofu félagsins. Skattstjóri tók bréfið sem kæru.

Með úrskurði, dags. 24. september 1985, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeirri forsendu að í 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt væri ekki að finna ákvæði er heimiluðu þennan frádrátt.

Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dags. 22. október 1985. Þar segir hann m.a.: „Við gerð skattframtals voru greiðslur til Apótekarafélags Íslands að upphæð kr. 29.352.- færðar að fullu til frádráttar á einkaframtali K. sem stéttarfélagsgjöld. Við athugun kom svo í ljós að málið var ekki svona einfalt því að þarna var umfram venjuleg félagsgjöld að ræða hlutdeild í rekstrarkostnaði skrifstofu félagsins (Apótekarafélags Íslands). Skrifstofa þessi innir af hendi margvísleg störf í þágu félagsmanna, sem þeir yrðu ella að sinna hver í sínu horni og flestir mundu kaupa út á bókhalds- og endurskoðunarskrifstofum eða annars staðar. Samkvæmt framangreindu og með vísun til vottorðs frá starfsmanni félagsins er þarna um að ræða kostnað, sem í eðli sínu eru annað en félagsgjöld almennt séð. Úrskurði skattstjóra er mótmælt þar sem þarna er einmitt um að ræða dæmigerðan rekstrarkostnað, sem ekki er hægt að vera án við slíkan rekstur sbr. 2. tl. 31. gr. skattalaga. Að þessi vinna er unnin af starfsmanni félagsins fyrir alla félagsmenn í einu er hreint hagræðingaratriði. Krafa K. er að framangreindur kostnaður verði talinn til rekstrargjalda apóteksins eins og fram kemur í kæru til skattstjóra 9. júlí s.l.

Með bréfi, dags. 10. mars 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Ríkisskattstjóri lítur svo á að kærandi þyki ekki hafa sýnt fram á að um sé að ræða rekstrarkostnað skv. 31. gr. laga nr. 75/1981 og er því ekki fallist á kröfu hans. Atkvæði meirihluta:

Að beiðni ríkisskattanefndar hafa af hálfu kæranda verið lögð fram lög Apótekarafélags Íslands, sem samþykkt voru á framhaldsaðalfundi þess 7. júní 1978 og ársreikningur félagsins fyrir árið 1985. Að virtum gögnum máls þessa er fallist á að hin umdeildu félagsgjöld séu rekstrarkostnaður í skilningi 1. tl. 31. gr. laga um tekju- og eignarskatt.

Atkvæði minnihluta:

Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á, að félagsgjald það, sem í málinu ræðir, sé rekstrarútgjöld í skilningi 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Er því kröfu hans hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja