Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 429/1986

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981 — 9. gr. 1. mgr. — 97. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 5. mgr.  

Endurákvörðun — Tímamörk endurákvörðunar — Arður — Skattskyldur arður — Arðsígildi — Úthlutun arðs — Hlutafélag — Hluthafalán — Hluthafi — Frávísun vegna vanreifunar — Félagsslit — Rekstrarlok — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Sönnun

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 17. ágúst 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að taka áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1980 til endurákvörðunar og „jafna skuld yðar við S. h.f. kr. 63.096.- til arðsúthlutunar í skilningi 1. ml. 1. mgr. 9. gr. ofannefndra laga og færa þessa upphæð til tekna í reit 75 á framtali yðar, eins og í bréfinu segir. Í bréfinu tekur skattstjóri fram, að hluthöfum í S. h.f. hafi verið veitt „lán árið 1979 vaxta- og afborgunarlaust. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár sé þess ekki getið, að tilgangur og markmið hlutafélags þessa sé lánastarfsemi. Af ársreikningi ársins 1979 verði og ekki ráðið, hver grundvöllur sé fyrir „óumsömdum viðskiptareikningum, þ.e.a.s. engin sala á vöru og/eða þjónustu ætti sér stað eftir sölu veitingarekstursins á árinu 1978. Þessum „lánum og lánskjörum til hluthafa sem og aðstæðum öllum þyki því mega jafna til arðsúthlutunar í skilningi 1. ml. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Gefinn var 10 daga frestur til athugasemda og andsvara. Svar barst ekki og með bréfi, dags. 13. september 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinnar boðuðu breytingar og þá hækkun skattstofna, sem af henni leiddi. Með skattbreytingarseðlum, dags. sama dag, var tilkynnt um þá breytingu á áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárið 1980, sem af ákvörðun skattstjóra leiddi.

Með kæru, dags. 11. október 1983, krafðist umboðsmaður kæranda niðurfellingar á þeim hækkun, sem tilkynnt hafði verið í bréfi skattstjóra, dags. 13. september 1983, og kvað nánari rökstuðning verða sendan síðar. Með úrskurði, dags. 13. apríl 1984, vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem rökstuðningur væri ekki tilgreindur, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. apríl 1984. Er þess krafist, að breyting skattstjóra á skattframtali 1980 verði felld niður. Krafan er í fyrsta lagi byggð á þeirri málsástæðu, að breytingin hafi verið óheimil vegna ákvæða 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem umræddrar skuldar hafi ávallt verið getið í skattframtali kæranda og ársreikningi S. h.f. og geti skattstjóri því ekki breytt framtali 1980 með úrskurði, dags. 13. september 1983 eins og hann hafi gert. Í öðru lagi sé útilokað að skattleggja tilgreint lán sem arð á árinu 1979, þar sem lánið hefði verið veitt 1978. Í þriðja lagi byggir umboðsmaðurinn á þeirri málsástæðu, að slit félagsins hefðu ekki leitt til skattskyldrar arðsúthlutunar á árinu 1979 og sé því ekki hægt að telja lánið samsvara slíkri úthlutun eins og skattstjóri telji. Gerð er grein fyrir því, að lánið hafi verið veitt í framhaldi af sölu á veitingarekstrareignum N. h.f., sem hafi verið eldra heiti á S. h.f. Eftir sölu á eignum þessum hafi aðalstarfsemi félagsins fallið niður og þar sem hluthafar hafi ekki tekið ákvarðanir um annað hafi ekki orðið um neinn rekstur að ræða upp frá því og hefði því verið eðlilegast að slíta félaginu. Það hefði hins vegar dregist og er á það bent, að hlutabréf félagsins í F. h.f. hafi reynst illseljanleg. Ljóst sé, að slit á félaginu á árinu 1979, þegar hin kærða tekjuviðbót hefði verið úrskurðuð, hefðu ekki haft í för með sér skattskyldar tekjur, þar sem reglur skattalaga um jöfnunarhlutabréfaútgáfu hefðu ekki leitt til skattlagningar.

Með bréfi, dags. 31. október 1984, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans sem og þess er fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra vegna kæru S. h.f.

Hinn kærði úrskurður skattstjóra, dags. 13. september 1984, lýtur að frávísun kæru til hans sökum vanreifunar vegna vantandi rökstuðnings. Kæran til ríkisskattanefndar hefur að geyma rökstuddar kröfur. Þykir því kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu ekki eiga við rök að styðjast. Eigi þykir 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hafa girt fyrir breytingu skattstjóra þannig að fella beri hana úr gildi þegar af þeim ástæðum eins og haldið er fram af hálfu kæranda. Þá móttekur kærandi hina umdeildu fjárhæð þann 15. ágúst 1979 samkvæmt kvittun þar um þannig að eigi verður talið, að skattstjóri hafi tekjufært fjárhæðina á skökku ári. Hins vegar þykir skattstjóri eigi hafa sýnt fram á, að um skattskylda arðsúthlutun hafi verið að ræða samkvæmt upphafsákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er krafa kæranda þar af leiðandi tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja