Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 431/1986

Gjaldár 1983

Lög nr. 73/1980 — 37. gr.  

Aðstöðugjaldsstofn — Vátryggingafélag — Vátryggingarstarfsemi — Umboðslaun — Afsláttur — Endurtryggingariðgjöld — Rekstrarkostnaður — Gengi — Tryggingaeftirlit ríkisins

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á aðstöðugjaldi álögðu á kæranda gjaldárið 1983. Hækkaði skattstjóri áður framtalinn aðstöðugjaldsstofn í fyrsta lagi „um lækkun á iðgjöldum erlendra skaðatrygginga vegna breytingar á gengi úr áramótagengi í meðalgengi ársins, í öðru lagi „um tjón á erlendum skaðatryggingum vegna breytingar á gengi úr áramótagengi í meðalgengi ársins og í þriðja lagi um fjárhæð „umboðslauna frá erlendum endurtryggjendum. Í kæru til ríkisskattanefndar er þess krafist að endurákvörðun skattstjóra verði felld niður. Er svofelld grein gerð fyrir þeirri kröfu:

„1. Hækkunin er á aðstöðugjaldi og kirkjugarðsgjaldi og er byggð á neitun þess, að á aðstöðugjaldsblaði sé leiðrétt færsla á erlendum endurtryggingum í ársreikningi, en þessi viðskipti þ.m.t. iðgjöld og tjón eru færð í erlendri mynt allt árið og í árslok eru þau umreiknuð á áramótagengi og þannig færð í ársreikninginn. Þetta hefur verið venja á liðnum árum og gert í samráði við og samkvæmt kröfu Tryggingaeftirlitsins.

2. Í bréfi Sk.R. frá 13.7 s.l. segir að aðstöðugjaldsstofn skuli vera sá sami og um ræðir í 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga um tekju- og eignarskatt og ályktað er að ársreikningurinn sé með sömu kostnaðarliðum og að gengi þeirra sé fært á greiðsludegi.

3. Í bréfi mínu dags. 12. júní s.l. er greint frá hvers vegna leiðrétting á aðstöðugjaldsblaði er gerð frá upphæðum í ársreikningi. Ef ekki er trúað fullyrðingu minni um að ársreikningurinn sýni umrædd iðgjöld og tjón bókfærð á of háu gengi til aðstöðugjaldsstofns, þá er í boði að sýna fulltrúa yðar þetta bókhald og/eða að koma með gögn því tilheyrandi til sýnis eftir ákvörðun yðar.

4. Einnig er gerð breyting á aðstöðugjaldsstofni hvað umboðslaun snertir kr. 10.684.767 í þá átt að þeim er bætt við aðstöðugjald.

5. Umrædd umboðslaun eru frá erlendum endurtryggjendum og hafa haft þá sérstöðu að vera sýnd í ársreikningum tryggingarfélaga, þó hér sé um að ræða í raun og veru afslátt af endurtryggingariðgjöldum. Þessi umboðslaun eru ekki sýnd með tekjum á fylgiskjali með framtali til aðstöðugjalds og er það byggt á gamalli hefð af framangreindri ástæðu. Ef rétt reynist vera að skoðun yðar sé sú sama og Sk.R., þá verður henni hlýtt og þá er væntanlega gætt samræmis hjá öllum tryggingarfélögum.

Með bréfi dags. 20. júní 1986 krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Á því þykir mega byggja í máli þessu að svonefnd umboðslaun frá erlendum endurtryggjendum séu eftir eðli þeirra lækkun á gjaldfærðum endurtryggjendaiðgjöldum. Er því krafa kæranda að því er varðar það kæruatriði tekin til greina. Að öðru leyti er kærunni vísað frá m.a. með skírskotun til forsendna kæruúrskurðar skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja