Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 451/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. og 3. tl. og B-liður — 30. gr. 3. mgr.  

Beinn kostnaður — Ritlaun — Þýðing — Upplestur — Sjálfstæð starfsemi — Höfundarlaun — Frádráttarbær kostnaður — Launatekjur

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1985. Er kæruefnið synjun skattstjóra á frádrætti kostnaðar á móti greiðslu fyrir dagskrárefni frá Ríkisútvarpinu. Var um að ræða þýðingu og upplestur útvarpsefnis. Gerir kærandi þá kröfu að kostnaður að fjárhæð 15.000 kr. verði heimilaður til frádráttar á móti tekjum að fjárhæð 71.687 kr. Er gerð skilmerkileg grein fyrir kostnaðinum.

Með bréfi dags. 9. júní 1986 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Kærandi fer fram á frádrátt vegna kostnaðar við öflun tekna frá Ríkisútvarpinu en skv. framtalsgögnum hefur það greitt honum kr. 71.687 sem laun. Sá frádráttur sem farið er fram á eru kr. 15.000 sem kærandi sundurliðar sem kr. 11.826 í dagpeninga og er upphæðin miðuð við skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1984, lið 3.2.7., kr. 2.340 sem er rútufargjald milli heimilis kæranda og Reykjavíkur og kr. 834 sem pappír, ritföng, símakostnað og orkukostnað.

Þar sem um tekjur er að ræða skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 75/1981 er að ræða fer um frádrátt skv. 30. gr. laga nr. 75/1981. Skv. 30. gr. laga nr. 75/1981 er heimild til frádráttar skv. matsreglum ríkisskattstjóra sem gefnar hafa verið út skv. 116. gr. laga nr. 75/1981. Ekki er að sjá af gögnum málsins að kærandi hafi uppfyllt skilyrði til frádráttarins skv. skattmati né ákvæðum laga nr. 75/1981 og er því gerð krafa um að álagning opinberra gjalda kæranda standi óbreytt.

Eigi ber að líta á tekjur þær sem um ræðir í máli þessu sem launatekjur í skilningi 1. tl. A-liðs né B-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er kæranda því heimill frádráttur sá sem um ræðir í 3. mgr. 30. gr. sömu laga. Með því að kostnaður sá sem kærandi krefst til frádráttar er innan hóflegra marka og að virtum skýringum hans er fallist á kröfu hans í málinu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja