Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 487/1986
Gjaldár 1985
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður — 30. gr. 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 106. gr. 1. mgr. 2. ml.
Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Búrekstur — Tómstundagaman — Beinn kostnaður — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Síðbúin framtalsskil — Landbúnaðarskýrsla — Skattframtal tortryggilegt — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Áætlun
Málavextir eru þeir, að skattframtal kærenda 1985 barst ekki skattstjóra í framtalsfresti það ár. Sættu þau því áætlun á skattstofnum 1985. Skattframtalið barst skattstjóra 18. júlí 1985 sbr. áritun hans á það. Var framtalið tekið sem skattkæra sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri beitti 15% álagi á gjaldstofna með vísan til 106. gr. téðra laga. Ekki hefði verið sýnt fram á þær vitaleysisástæður er leiddu til þess að fella bæri álagið niður samkvæmt 3. mgr. 106. gr. fyrrgreindra laga. Jafnframt taldi skattstjóri að rekstraryfirlit landbúnaðarskýrslu væri í þeim mæli tortryggilegt að ekki væri unnt að fallast á það. Áætlaði skattstjóri tekjur af landbúnaði 1.500 kr. og felldi niður yfirfæranlegt tap til næsta árs að fjárhæð 195.851 kr.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar. 1. Gerð er krafa um að álag það er skattstjóri beitti verði fellt niður þar sem hann hafi ekki gætt þeirra formskilyrða sem honum bar, sbr. úrskurði ríkisskattanefndar nr. 167 og 168 1985. 2. Þess er krafist að niðurstöður landbúnaðarskýrslu standi óbreyttar og tekjur af landbúnaði 1.500 kr. falli niður. Umbjóðendur sínir eigi landskika og hafi stundað þar búskap í áraraðir. Skattstjóri hafi ekki sýnt fram á neina þá ágalla í landbúnaðarskýrslunni sem réttlættu þá ákvörðun hans að víkja henni til hliðar.
Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 1. ágúst 1986, er svohljóðandi:
„1 Álag.
Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra. Ekki hafa komið fram neinar þær vítaleysisástæður sem gefa tilefni til að falla frá beitingu álags á grundvelli 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Ekki á sú fullyrðing umboðsmanns kæranda að skattstjóri hafi ekki gætt réttra formskilyrða við rök að styðjast þar sem áætlun og álag var tilkynnt á álagningarseðli. ítrekuð er því krafan um að hið kærða álag standi óhaggað.
2. Ríkisskattstjóri fellst á niðurfellingu á tekjum af landbúnaði kr. 1.500 en að öðru leyti er gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.
Kostnaður við reksturinn, en kærandi átti í árslok 7 ær, 2 hrúta og 6 gemlinga, er í engu samræmi við umfang né þær tekjur sem kærandi hefur af honum."
Eftir atvikum og aðstæðum kærenda þykir að þessu sinni rétt að falla frá beitingu álags í tilviki þeirra. Þegar nefnd landbúnaðarskýrsla er virt verður eigi talið, að sú starfsemi, sem kærandi hefur með höndum, sé atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi. Fellur yfirfæranlegt tap því niður, en eigi þykja efni til þess að ákvarða kæranda hreinar tekjur af þessari starfsemi, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og fyrirliggjandi upplýsingar í téðri skýrslu.