Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 493/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 40. gr. — 74. gr. 4. tl.  

Vörubirgðir — Matsverð vörubirgða — Myndbönd — Myndbandaleiga — Lausafjárleiga — Sýningarréttur — Fyrning — Fyrningarhlutfall — Endingartími — Vörusala

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1985. Er kæruefnið svohljóðandi 1. töluliður í forsendum kæruúrskurðar skattstjóra, dags. 20. desember 1985:

„Gjaldaliðurinn keypt myndbönd lækkaður úr kr. 517.915,- í kr. 258.958-. Jafnframt hafa kr. 258.958,- verið færðar til eignar sem vörubirgðir. Í bréfi dags. 11. okt. var kærandi beðinn um að meta eignarverðmæti sýningarréttar og myndbanda ásamt kössum og færa til eignar sem vöru birgðir en einungis gjaldfæra seld eða ónýt myndbönd. Þar sem kærandi hefur ekki orðið við tilmælum skattstjóra er skipting þessi áætluð. Það er mat skattstjóra að líta beri á umræddan gjaldalið sem vörubirgðir skv. 4. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, sbr. einnig túlkun ríkisskattstjóra í bréfi til skattstjóra dags. 28. des. 1983. Bréf það sem skattstjóri vitnar til í úrskurði sínum er svar ríkisskattstjóra til hans í tilefni af fyrirspurn og þykir rétt að birta það hér:

„Sem svar við fyrirspurn í bréfi yðar, dags. 1. des. sl., um skattalega meðferð keyptra myndbanda hjá myndbandaleigum vill ríkisskattstjóri taka fram eftirfarandi:

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefur endingartími myndbands reynst vera sem svarar 50 — 100 útleigum og sá tími sem aðalútleiga fer fram á eru 12 — 18 fyrstu mánuðir eftir að myndband er sett á markað. Endingartími kassa utan um myndbönd er svipaður og myndbandanna. Fyrst og fremst eru myndbandaleigur að kaupa sýningarrétt en einnig bandið og kassann. Afritunarréttur masterbands hjá innflytjanda miðast almennt við tvö ár en þá er masterband innkallað af framleiðanda.

Með tilliti til framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að myndbandaleigur skuli meta eignarverðmæti sýningarréttar og myndbanda, ásamt kössum, í lok reikningsárs skv. ákvæðum4. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981.

Af hálfu kæranda er framangreindri breytingu skattstjóra mótmælt og þess krafist að hún verði felld úr gildi. Til stuðnings þeirri kröfu vísar umboðsmaður kæranda til svohljóðandi greinargerðar í bréfi til skattstjóra dags. 18. október 1985:

„Myndbandaleigur selja ekki myndbönd til viðskiptavina sinna heldur leigja þær

myndböndin. Starfsemi þeirra er því ekki fólgin í vörusölu, heldur er þar um að ræða lausafjárleigu. Myndbönd, sem slík fyrirtæki kunna að eiga í árslok falla því ekki undir 4. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, heldur undir 3. tl. Umbjóðandi okkar hefur nýtt sér ákv. 40. gr. laganna, þ.e. gjaldfært innkaup myndbandanna að fullu á kaupári, enda viðurkennt að venjulegur endingartími er fráleitt meira en 1 ár og í mörgum tilvikum mun skemmri tími.

Með bréfi dags. 8. apríl 1986 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin. Úrskurður skattstjóra er dagsettur 20. des. 1985 og rann kærufrestur því út 19. janúar 1986. Kæran er móttekin 21. janúar 1986 hjá ríkisskattanefnd og er því of seint fram komin.

Eftir atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar. Er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hafnað, en af hans hálfu hafa engar efniskröfur komið fram í málinu.

Samkvæmt því sem upplýst er í gögnum málsins um starfsemi kæranda og viðskipti hans með myndbönd þykir skattstjóri eigi hafa sýnt fram á að kærandi hafi ranglega gjaldfært í rekstrarreikningi sínum hinn umdeilda kostnað. Með þessum athugasemdum þykir bera að fallast á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja