Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 495/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl.  

Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Launauppgjöf — Iðjuþjálfun — Vistmaður — Vinna vistmanns — Lækning — Sjúklingur — Sératkvæði

Málavextir eru þeir, að skattstjóri færði kæranda til tekna 11.088 kr. skv. launauppgjöf frá Reykjavíkurborg og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1985 í samræmi við það með bréfi, dags. 23. janúar 1986. Af hálfu kæranda kom fram, sbr. kæru hans til skattstjóra, dags. 21. febrúar 1986 og bréf, dags. 15. desember 1985, að „laun þessi væru fengin við sérstakar aðstæður, þ.e.a.s. fyrir „vinnu, sem teldist fremur læknismeðferð heldur en venjuleg vinna. Hann hefði verið sjúklingur á B. eða þeirri deild hans, sem rekin væri að X. Hefði hann dvalist þar frá 24. september 1984 — 12. desember 1984. Sjúklingar hefðu verið látnir vinna lítilsháttar og svo litið á, að það væri hluti af læknismeðferðinni. Fyrir þessa vinnu hefðu smávægileg laun verið greidd, enda seldi X. afrakstur hennar. Kærandi varpaði fram því sjónarmiði, hvort maður, sem væri sjúklingur á B., gæti jafnframt verið á launaskrá hjá Reykjavíkurborg og haft þar skattskyld laun.

Hinn 28. febrúar 1986 felldi skattstjóri kæruúrskurð í málinu. Ákvað hann, að færsla hinnar umdeildu fjárhæðar til tekna skyldi óbreytt standa. Skv. fyrirliggjandi gögnum hefði kærandi fengið greidd laun frá Reykjavíkurborg að fjárhæð 11.088 kr., sem hann viðurkenndi að hafa móttekið. Skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri endurgjald fyrir hvers konar vinnu, þjónustu eða starf skattskyldar tekjur. Yrði því ekki annað séð en greiðsla fyrir vinnu í X. væri að fullu skattskyld, enda þótt kærandi hefði verið sjúklingur á B.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. mars 1986. Ítrekar kærandi fyrri röksemdir sínar. Hann hafi talið sig vera þarna sem sjúkling, en ekki í vinnu hjá B. og á launaskrá hjá Reykjavíkurborg. Þetta hvorutveggja geti ekki farið saman. Teljist ekki hafa verið um iðjuþjálfun að ræða, séu sjúklingar hafðir þar við störf á röngum forsendum. Sé litið á störf þessi sem vinnu, þar sem sjúklingar skapi verðmæti fyrir B., sem hann seldi fullu verði en greiddi smánarlaun fyrir, væru hér um hreinar vinnubúðir að ræða. Spurningin væri því, hvort greiðslur fyrir störf í iðjuþjálfun eða vinnubúðum væru skattskyldar. Þá lýsir kærandi störfum þessum nokkuð. Kærandi viðurkennir að hafa fengið launauppgjör ásamt áföstum launamiða frá launadeild Reykjavíkurborgar. Ber hann og fyrir sig, að forstöðumaðurinn í X. hafi tjáð sér, að greiðslur fyrir þessi störf væru ekki skattskyldar.

Með bréfi, dags. 26. maí 1986, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Atkvæði meirihluta:

Enginn ágreiningur er um það, að kærandi hafi fengið 11.088 kr. greiðslu á árinu 1984 frá Reykjavíkurborg vegna vinnu í X. sbr. launauppgjöf greiðanda. Með þessari athugasemd þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra.

Atkvæði minnihluta:

Með því að greiðsla sú, sem mál þetta snýst um, telst eiga rætur sínar í lækningameðferð, er kærandi gekkst undir, þykir eigi öruggt að telja hana til skattstofns hjá honum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja