Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 501/1986

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl.  

Rekstrarkostnaður — Frádráttarbærni — Námssjóður — Námssjóðstillag — Læknir — Endurmenntun — Séreignasjóður

Skattstjóri gerði m.a. þá breytingu á skattframtali kæranda 1984 að fella niður af rekstrarreikningi gjaldaliðinn „Námssjóður lækna" 43.291 kr. Taldi skattstjóri, að tillagið væri ekki gjöld til öflunar tekna í atvinnurekstri samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981 og því ófrádráttarbært.

Í kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1984, var ofangreindri breytingu mótmælt, og segir þar m.a.:

„Tillag þetta tel ég vera gjöld til öflunar og viðhalds tekna í atvinnurekstri, sbr. 31. gr. skattalaga, vegna þess að skv. 6. grein læknalaga ber lækni að viðhalda þekkingu sinni sem best og skv. 19. gr. sömu laga getur misbrestur á því leitt til sviptingar lækningaleyfis. Þetta er í framkvæmd viðurkennt af ríkisvaldinu, því sérfræðingar sem starfa á sjúkrahúsum fá ár hvert 15 daga leyfi á launum til námsferða og greiddan ferða- og dvalarkostnað í námsferðum skv. reglum þeim sem gilda um greiðslu ferðakostnaðar fastráðinna ríkisstarfsmanna á hverjum tíma, þ.e.a.s. dagpeninga sem eru frádráttarbærir frá skatti, (sbr. 14. gr. kjarasamninga sjúkrahúslækna frá 1982). 15 daga ferð mundi í dag kosta í dagpeningum 70 SDR/dag x 31.7 (gengi) x 15 dagar = 33.285 kr. auk ferðakostnaðar og sést af þessu að tillag mitt í Námssjóð getur alls ekki talist óeðlilega hátt. Námssjóður lækna er sjóður sem hefur þann tilgang að styrkja lækna til endurmenntunar. Tryggingastofnun ríkisins eða einstök sjúkrasamlög taka af launum læknis 4.1 % og greiða í sjóðinn. Viðkomandi læknir fær fé þetta ekki í hendur. Hann getur hins vegar síðar sótt um styrk til ákveðinnar námsferðar og að ferð lokinni skal læknir skila sjóðnum skýrslu um ferðina. Styrkurinn getur hæstur orðið það sem læknir hefur greitt í sjóðinn.

Með úrskurði, uppkveðnum 6. maí 1985, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda og segir m.a. í forsendum úrskurðarins:

„Eins og áður segir er skv. 29. gr. og 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 (aðeins) heimilt að draga frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi „reksturskostnað, það er þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Þetta þýðir að útgjöldin verða að vera notuð á árinu til markmiða sem nást eða er ætlað að nást á því ári, þ.e. að kostnaður til öflunar tekna í framtíðinni er ekki frádráttarbær frá tekjum ársins. Sá kostnaður er til fjárfestingar. Kostnaður verður einnig að vera til þess að tryggja tekjurnar og halda þeim við, það er að halda rekstrinum óbreyttum en ekki útvíkka hann eða bæta á neinn hátt.

Námskostnaður (þ.m.t. tillag í námssjóð) vegna framhalds eða endurmenntunar fullnægir engu af þessum skilyrðum. Árangurinn nýtist á nokkrum komandi árum a.m.k. og hann bætir einnig stöðu læknisins og rekstur hans. Kostnaður af þessu tagi er því þegar af þeirri ástæðu ófrádráttarbær. Ef talið er að fjárfesting í þeirri þekkingu sem aflað er með náms eða þingferðum sé fyrnanleg eign sem annað hvort megi fyrna á einu ári eða fleirum eftir atvikum, ber að hafa í huga að sama myndi gilda um kostnað við öflun allrar þekkingar sem notast við reksturinn þar með talinn kostnaður við almennt (lækna-) nám. Slík fyrning er hins vegar ekki heimil, þar sem í þessum tilfellum er ekki um eign í rekstri að ræða. Þekkingin er læknisins, sem fyrir rekstrinum stendur og fylgir honum og verður ekki framseld öðrum á sama hátt og rekstrarfjármunir hætti hann rekstri. Þekkingin myndi einnig í mörgum tilfellum nýtast honum fyllilega í starfi hjá öðrum. Því verður að líta á öflun framhalds- og viðhaldsmenntunar læknis eins og öflun almennrar læknismenntunar að um sé að ræða að lagt sé í kostnað í faglegum tilgangi og persónulegum, en ekki til rekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi. Einnig af þeirri ástæðu er kostnaðurinn ófrádráttarbær. Skv. ofansögðu er kæruatriði hafnað.

Kærandi hefur skotið máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 31. maí 1985 og ítrekar kröfu um að úrskurði skattstjóra verði hnekkt, en til vara, að gjald í Námssjóð verði ekki taldar tekjur og tekjur lækkaðar um 43.291 kr. Þá segir m.a. í kærunni:

„Byggir skattstjóri úrskurð sinn á því að gjöld í námssjóð séu ekki gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna. Þessu mótmæli ég, því mér er ekki í sjálfsvald sett hvort ég greiði í þennan sjóð eða ekki heldur er þetta bundið samningi milli Tryggingastofnunar ríkisins annars vegar og læknafélaganna hins vegar. Fyrir unnið læknisverk er ákveðin heildargreiðsla sem að hluta er greidd viðkomandi lækni en 4.1% eru lögð í sameiginlegan sjóð, Námssjóð lækna. Ég get því ekki aflað neinna tekna sem sjálfstætt starfandi læknir nema jafnframt greiða í sjóðinn. Sömuleiðis mótmæli ég því að gjöld í Námssjóð til námsferða „bæti stöðu læknisins og rekstur hans og sé því ekki frádráttar (sic). í samningi TR við læknafélögin um sérfræðilæknisþjónustu er ekkert tillit tekið til starfsaldurs eða menntunar. Mun ég ekki fá hærri þóknun hversu mörg námskeið sem ég sæki, hins vegar eru framfarir í læknavísindum mjög hraðar (sagt er að helmingur þekkingarinnar úreldist á 5 árum) og má kallast gott að geta haldið í við þróunina. Tel ég því gjald í Námssjóð sé til að tryggja tekjurnar og viðhalda og halda rekstrinum óbreyttum.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 11. nóvember 1985, gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ekki verður séð að lagareglur heimili frádrátt þann sem krafist er. Er kröfu kæranda því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja