Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 504/1986

Gjaldár 1985

Reglugerð nr. 145/1982 — 12. gr. 2. tl.   Lög nr. 14/1965 — 1. gr. — 2. gr. 3. mgr.  

Launaskattur — Launaskattsskylda — Sjómaður — Útgerð fiskiskipa — Fiskveiðar — Launaskattsundanþága — Trilluútgerð — Landvinna — Hjón

Málavextir eru þeir að kærandi, eiginmaður, á bátinn X. að hálfu á móti syni sínum og stunda þeir trilluútgerð í sameiningu. Reiknað endurgjald kærenda vegna útgerðarinnar nam 177.000 kr. Var því skipt milli kærenda á þann hátt, að 75% eða 132.750 kr. töldust reiknuð laun eiginmanns og 25% eða 44.250 kr. reiknuð laun eiginkonu. Með úrskurði uppkveðnum 22. október 1985 felldi skattstjóri niður launaskatt af reiknuðum launum eiginmanns. Eftir stóð launaskattur af reiknuðum launum eiginkonu 1.549 kr., þ.e. 3,5% af 44.250 kr. Að sögn var vinnuframlag eiginkonu í þágu útgerðarinnar fólgið í því „að útbúa kostinn og annast ýmsar útréttingar í landi varðandi útgerðina.“

Í kæru til ríkisskattanefndar er þess krafist að umræddur launaskattur verði felldur niður með vísan til 3. mgr. 2. gr. laga nr. 5/1982 um launaskatt. Þar komi fram að tekjur sjómanna á íslenskum fiskiskipum, þar með taldar tekjur hlutráðinna landmanna sem aflað sé í tengslum við úthald skipanna til fiskveiða, séu undanþegnar launaskatti sbr. og 2. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 145/1982. Líta beri á eiginkonu sem meðeiganda að útgerðinni. Störf hennar í þágu útgerðarinnar falli því undir framangreind laga- og reglugerðarákvæði.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 1. ágúst 1986, er svohljóðandi:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin. Úrskurður skattstjóra er dagsettur 25. nóvember 1985 með 30 daga kærufresti sem lauk 25. des. 1985. Kæran sem dagsett er 27. desember og móttekin sama dag hjá ríkisskattanefnd er því of seint fram komin.

Telji ríkisskattanefnd að taka eigi kæruna til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir ofangreindan formgalla, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Undanþáguákvæði í 3. mgr. 2. mgr. laga nr. 14/1965 og 2. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 145/1982 á ekki við í þessu tilfelli heldur er um skattskyldu að ræða skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965.

Eftir atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar.

Af hálfu kæranda þykir ekki hafa verið sýnt fram á að laun þau er um ræðir í máli þessu séu undanþegin launaskattsskyldu. Er því kröfu kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja