Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 505/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 60/1984 — VIII. Kafli   Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. og 2. tl.   Lög nr. 59/1973   Lög nr. 30/1970  

Íbúðarlán — Íbúðarhúsnæði — Vaxtagjöld — Húsbygging — Byggingarsamvinnufélag — Félagsmaður í byggingarsamvinnufélagi — Húsbyggjandi — Lántaki — Lögskýring — Framkvæmdalán — Gjafir til kirkjufélaga — Frádráttarregla

Málavextir eru þeir, að í kæru til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1985, út af álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985, var farið fram á það af hálfu kæranda, að vaxtagjöld til frádráttar í reit 87 í skattframtali árið 1985 yrðu hækkuð um 32.901 kr., er væru vaxtagjöld, er fallið hefðu á kæranda vegna byggingar íbúðar á vegum Byggingarsamvinnufélags Kópavogs. Fylgdi kærunni yfirlit frá byggingarsamvinnufélagi þessu, dags. 21. ágúst 1985, yfir vaxtagjöld og vaxtatekjur 11 — 1 byggingarflokks 1984.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 24. janúar 1986, og hafnaði kröfu kæranda einkum á þeirri forsendu, að ekki hefði verið sýnt fram á „að byggingarlán hafi verið fengin fyrir hönd hans.

Með kæru, dags. 19. febrúar 1986, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kröfu um, að fyrrgreind vaxtagjöld verði leyfð til frádráttar.

Með bréfi, dags. 25. mars 1986, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Hvorki er deilt um fjárhæð þeirra vaxtagjalda, sem í málinu greinir, né að kærandi hafi innt þau af hendi. Eftir því, sem upplýst er í málinu, voru umrædd vaxtagjöld af skuldum vegna kæranda sem félagsmanns í Byggingarsamvinnufélagi Kópavogs vegna byggingar íbúðar í Hafnarfirði. Að þessu virtu er fallist á vaxtagjöld þessi sem frádráttarbær vaxtagjöld í skilningi 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og ákvæði V. kafla laga nr. 30/1970, sbr. lög nr. 59/1973, og VIII. kafla laga nr. 60/1984. Eru kröfur kæranda í máli þessu því teknar til greina. Vegna niðurstöðu þessarar, skerðist frádráttarbærni tilfærðrar fjárhæðar vegna gjafar til kirkjufélags samkvæmt ákvæðum 2. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja