Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 512/1986
Gjaldár 1985
Lög nr. 75/1981 — 100. gr. 1. mgr.
Kærufrestur — Síðbúin kæra — Póstlagningardagur kæruúrskurðar — Móttökudagur kæruúrskurðar — Póstþjónusta — Sönnun — Sönnunargögn
Málavextir eru þeir, að kærandi taldi eigi fram til skatts á tilskildum tíma og sætti því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum. Með bréfi, dags. 22. ágúst 1985, var álagningin kærð og boðað, að skattframtal yrði sent svo fljótt, sem unnt væri.
Skattframtal kæranda 1985 barst skattstjóra síðan þann 8. október 1985 samkvæmt áritun hans á framtalið. Með úrskurði uppkveðnum 13. desember 1985 féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar áður, en beitti 25% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. ákvæði 106. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 20. febrúar 1986, en mótteknu hjá ríkisskattanefnd þann 25. febrúar 1986. Segir þar m.a.: „Forsendur kæru eru þær, að á þeim tíma er framtalsfrestur rann út þá lá ekki ljóst fyrir hver væri formlegur eigandi m.b. K. og ársreikningur m.b. K. lá þar af leiðandi ekki fyrir.
Framtal fyrir F. h/f var því ekki unnt að senda inn fyrr en niðurstöður áðurnefnds ársreiknings lágu fyrir. Áðurnefnt bréf var sent að H-götu.
Á þeim stað er enginn viðtakandi fyrir hönd F. h/f, þar sem engin starfsemi er rekin þar á vegum fyrirtækisins. Bréfið barst síðan ekki í hendur réttra aðila fyrr en í lok janúar árið 1986.
Með hliðsjón af ofanrituðu, fer ég fram á, fyrir hönd F. h/f, að 25% álag á skattstofna verði fellt niður.“
Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 5. maí 1986, lögð fram svohljóðandi kröfugerð í málinu:
„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin. Úrskurður skattstjóra er póstlagður 13. des. 1985. Skv. upplýsingum og meðfylgjandi gögnum sem ríkisskattstjóri hefur aflað, var úrskurðurinn afhentur starfsmanni F. hinn 16. des. 1985.
Kæra, dags. 20. febrúar 1986, er því of seint fram komin og er gerð krafa um frávísun málsins frá ríkisskattanefnd.“
Samkvæmt þeim upplýsingum frá Pósti og síma sem ríkisskattstjóri hefur aflað og byggir kröfu sína á, móttók Á. þann 16. desember 1985 hinn kærða úrskurð úr hendi póstþjónustunnar. Með vísan til þess þykir verða að vísa kærunni frá sem of seint framkominni.