Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 517/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 30. gr. 1. mgr. C-liður 2. tl. og D-liður 1. tl. — 59. gr. 1. mgr. — 100. gr. 2.og 4. mgr.  

Reiknað endurgjald — Kæra ríkisskattstjóra — Ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi — Lífeyrissjóðsiðgjald — Fiskimannafrádráttur

Með bréfi, dags. 19. mars 1986, hefur ríkisskattstjóri sent ríkisskattanefnd svohljóðandi kæru:

„Með vísan til 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 kærir ríkisskattstjóri úrskurð skattstjórans í Suðurlandsumdæmi, dags. 20. des. 1985, er varðar H.

Ríkisskattstjóri gerir þær kröfur að reiknuð laun kæranda verði kr. 290.000 svo sem hann sjálfur ákvarðaði sér á skattframtali. Af þessu leiðir jafnframt að frádráttur skv. 2. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 verði kr. 42.445 og frádráttur skv. 1. tl. D-liðs 1. mgr. 30. gr. sömu laga verði kr. 38.908, sbr. og leiðbeiningar ríkisskattstjóra.

Sú breyting sem skattstjóri gerir á framtali gjaldanda, þ.e. lækkun reiknaðs endurgjalds, hefur að áliti ríkisskattstjóra ekki lagastoð. Skv. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 skal maður, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, telja sér til tekna sambærilegt endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Skv. 59. gr. sömu laga skal skattstjóri skriflega skora á gjaldanda að gefa skýringar ef hann telur of lágt eða of hátt reiknað endurgjald og í framhaldi af því getur skattstjóri ákveðið gjaldanda reiknað endurgjald, sbr. 1. mgr. 59. gr. i.f. laga nr. 75/1981. Þau laun sem kærandi ákvarðaði sér á framtali, kr. 290.000, verða að teljast frekar í lægri kantinum heldur en hitt.

Með vísan til ofanritaðs lítur ríkisskattstjóri svo á að lagastoð skorti fyrir greindri breytingu skattstjóra."

Með bréfi, dags. 7. apríl 1986, veitti ríkisskattanefnd gjaldanda færi á að koma fram með andsvör sín og gögn í tilefni af kæru ríkisskattstjóra, sbr. 4. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hafa engar athugasemdir borist frá honum.

Ákvæði 59. gr. laga nr. 75/1981 veita skattstjóra eigi heimild til breytinga þeirra er hann gerði á skattframtali kæranda árið 1985 og ríkisskattstjóri kærir út af. Eru þær því felldar úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja