Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 519/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 —16. gr. —106. gr. 1. mgr.  

Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Síðbúin framtalsskil — Rökstuðningur úrskurðar skattstjóra — Íbúðarhúsnæði — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Útreikningur söluhagnaðar — Fjármálaráðherra — Skylda til setningar reglugerðar — Stjórnsýsla

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1985. Er þess í fyrsta lagi krafist að álag það sem skattstjóri bætti við gjaldstofna vegna síðbúinna framtalsskila verði fellt niður. Er í kæru gerð ítarleg grein fyrir ástæðum hinna síðbúnu framtalsskila og krafan að öðru leyti rökstudd. í öðru lagi fer kærandi fram á að skattlagningu skattskylds hluta hagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis verði frestað um tvenn áramót samkvæmt heimild í 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi dags. 25. mars 1986 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur þar sem ekki hafa komið fram neinar þær vítaleysisástæður sem gefa tilefni til að falla frá beitingu álags á grundvelli 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/198

Gerð er krafa um skattlagningu söluhagnaðar að fjárhæð kr. 78.819 skv. 14. og 16. gr. laga nr. 75/1981 þar sem lagaheimild skortir til frestunar hans.“

Að virtum atvikum er hið kærða álag fellt niður. í hinum kærða úrskurði gerir skattstjóri ekki tölulega grein fyrir útreikningi sínum á skattskyldum hluta söluhagnaðar kæranda af sölu íbúðarhúsnæðis. Eigi tók hann heldur til umfjöllunar þá málsástæðu kæranda að sölu á íbúðarhluta í Reykjavík hafði verið rift. Þá er ennfremur til þess að líta að reglugerð sú sem um getur í 6. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er enn óútgefin. Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir skattstjóri eigi hafa stutt hina kærðu ákvörðun um fjárhæð söluhagnaðarins nægum rökum. Er hún því að svo vöxnu felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja