Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 538/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. D-liður 2. tl. — 31. gr. 1. tl.  

Félagsgjald — Stéttarfélagsgjald — Rekstrarkostnaður — Sjálfstæð starfsemi — Samtök atvinnurekenda — Verslunarráð Íslands

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 19. júlí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans 1985, að gjaldfært „félagsgjald" til Verslunarráðs Íslands á rekstrarreikningi 7.400 kr. hefði verið fært af rekstrarreikningnum í reit 56 á skattframtalinu, þar sem gjaldið hafi eigi verið greitt til félags, sem starfi eingöngu í þágu atvinnurekenda.

Í kæru til skattstjóra, dags. 14. ágúst 1985, var breytingu þessari mótmælt. Segir m.a. í kærunni, að hér sé um að ræða félagsgjald atvinnurekanda 6.500 kr. og 900 kr. sem fundakostnaður og verði að álíta að upphæðin sé frádráttarbær.

Með úrskurði, uppkveðnum 21. nóvember 1985, synjaði skattstjóri kærunni á þeim forsendum, að kærandi þætti eigi hafa fært nægileg rök fyrir því, að umræddur kostnaður gæti talist rekstrarútgjöld samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 4. desember 1985. Um rökstuðning er vísað til kæru til skattstjóra.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 3. febrúar 1986, gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að virtum gögnum máls þessa er fallist á að hin umdeildu félagsgjöld séu rekstrarkostnaður í skilningi 1. tl. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja