Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 44/1986

Gjaldár 1986

Reglugerð nr. 145/1982 — 10. gr.   Lög nr. 14/1965 — 2. gr. 2. og 3. mgr.  

Launaskattur — Launaskattsskylda — Launaskattsskyldur aðili — Vörubifreiðaakstur — Sjálfseignarvörubifreiðarstjóri — Afleysingar — Tvígreiðsla — Lögskýring

Kærð er álagning launaskatts gjaldárið 1984 vegna greiddra launa kæranda á árinu 1983. Er kæra umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar svohljóðandi:

„Þann 15. ágúst s.l. var álagning launaskatts, vegna launa bifreiðastjóra á vörubif¬reið G., kærð til skattstofu Reykjanesumdæmis. Þessari kæru var síðan synjað með úrskurði skattstjóra þann 6. desember s.l. í forsendum með úrskurði skattstjóra segir orðrétt: „Umrædd laun eru launaskattsskyld skv. 2. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965 um launaskatt, sbr. 4. gr. laga nr. 5/1982 um breytingu á þeim. Hvergi er í lögum um launaskatt né í öðrum lögum að finna ákvæði er undanþiggja laun þessi álagningu launaskatts og eigi verður hún felld niður á þeirri forsendu að greiðendur afnota vörubifreiðarinnar greiði launaskatt fyrir þau afnot.

Með þessum forsendum virðist okkur eins vel hægt að skylda G. til að greiða launaskatt af eigin launum, en það hefur ekki verið gert. Við óskum því eftir úrskurði Ríkisskattanefndar í máli þessu.

Forsendur kæru okkar eru eftirfarandi:
Í reglugerð um launaskatt kemur fram að launaskattur vegna launa sjálfseignarvörubifreiðastjóra skuli lagður á þá sem greiða fyrir afnot bifreiðarinnar. Þessu er síðan framfylgt með því að skylda greiðendur til að tilgreina greidd afnot í þar til gerðan reit á launamiðum og framtali. Það er varla ætlun löggjafans að greiðendur afnota greini á milli þess, hvort eigandi vörubifreiðar aki sjálfur bifreiðinni eða einhver afleysingamaður hans, enda væri slíkt ógjörningur.

Það er því nokkuð ljóst að greiðendur afnota greiða í raun allan launaskatt vörubifreiðastjóra.

Ef G. er gert að greiða launaskatt af launum afleysingamanns síns, eins og skattstjóri krefst, þá er umræddur launaskattur tvígreiddur þ.e. annars vegar af G. og hins vegar af þeim aðila sem kaupir þjónustu G.

Með bréfi dags. 20. nóvember 1985 krefst ríkisskattstjóri þess í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í tilviki kæranda þykir eðli málsins samkvæmt eiga að gilda sömu reglur um launaskattsskyldu eigin launa hans og launagreiðslna til afleysingamanns við aksturinn. Er því fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja