Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 326/1986

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. og B-liður — 8. gr. — 31. gr. 3. tl.  

Útistandandi viðskiptaskuldir — Tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir — Reiknað endurgjald — Atvinnurekstrarlok — Vaxtatekjur — Atvinnurekstrareign — Skattmeðferð vaxtatekna — Sönnun

I.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri sendi kærendum fyrirspurnarbréf, dags. 5. febrúar 1985, varðandi skattframtal þeirra 1984. Því bréfi var svarað með bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 27. febrúar 1985. Með bréfi, dags. 13. mars 1985, boðaði skattstjóri nokkrar breytingar á nefndu skattframtali og í bréfi, dags. 29. s.m. tilkynnti hann kærendum um endurákvörðun álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1984.

Sú breyting skattstjóra skv. bréfi hans frá 13. mars 1985, sem sætt hefur kæru til ríkisskattanefndar, er niðurfelling frádráttar tapaðra skulda 17.465 kr. Var þessi fjárhæð gjaldfærð í rekstrarreikningi kærenda yfir rekstur H.

Endurákvörðun skattstjóra var til hans kærð með bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 28. apríl 1985. Var m.a. óskað eftir því að gerðar yrðu breytingar á skattframtali kærenda 1984 til viðbótar þeim breytingum er skattstjóri hafði gert. Með bréfinu fylgdi endurgerður rekstrarreikningur og efnahagsreikningur. Voru þessi reikningsskil miðuð við tímabilið 1. janúar — 31. maí 1983 hvað rekstrarreikninginn snerti og efnahagsreikninginn þann 31. maí 1983. Um þetta segir svo í kærubréfi umboðsmannsins:

„Lagðar eru fram eftirtaldar breytingar á skattframtali 1984:

1) Meðfylgjandi rekstrarreikningur og efnahagsreikningur pr. 31.5.83.

2) Hækkun reiknaðra launa úr kr. 100.000 í kr. 987.541,91 sem skiptist þannig að eigin laun hækka úr 75.000 í kr. 740.656 og reiknuð laun maka hækki úr kr. 25.000 í kr. 246.886. Fiskimannafrádráttur eigin verður kr. 117.828 og fiskimannafrádráttur maka verður kr. 24.689. Tekjuskattsstofn Ó.G. verður kr. 897.785 og tekjuskattsstofn maka verður kr. 211.570. Útsvarsstofn Ó.G. verður kr. 1.178.282 og útsvarsstofn maka verður kr. 262.510.

3) Í reit 01 færist kr. 16.703 (verbúð).

Í E6 kemur: víxlar kr. 375.000 og skuldabréf kr. 3.683.964,70 auk vaxta fkr. 537.224.86. Samtals í reit 13 kr. 4.596.189. Samtals í reit 16 kemur kr. 4.762.892, sem eignarskattsstofn.

Varðandi liðinn afskrifaðar tapaðar skuldir var í kærubréfi umboðsmannsins gefin sundurliðun á þeim lið. Um hefði verið að ræða inneign útgerðar hjá skipverjum, sem ekki hafi náðst að innheimta áður en þeir hættu hjá útgerðinni. Fjárhæðin hafi myndast á árunum 1982 og 1983. Hafi það verið mat eigenda að innheimtuaðgerðir svöruðu ekki kostnaði.

Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu þann 5. september 1985. Þeir liðir í úrskurðinum, sem sætt hafa kæru til ríkisskattanefndar, varða frádrátt vegna tapaðra skulda, og breytingar á reiknuðum launum o.fl. Um fyrri liðinn segir skattstjóri í tölulið 2 í úrskurðinum: „Þar sem engar innheimtuaðgerðir hafa farið fram, er ekki talið sannað að skuldirnar séu endanlega tapaðar. Ekki er því fallist á breytingu á þeim lið. Um kröfu kærenda varðandi hækkun reiknaðra launa þeirra og aðrar breytingar samkvæmt endurgerðum reikningsskilum þeirra segir í 4. tölulið í úrskurði skattstjóra: „Ekki er fallist á hækkun reiknaðra launa yðar og maka yðar. Ekkert hefur komið fram um vinnuframlag né á hvern hátt það er reiknað. Með vísan til 18. gr. bókhaldslaga skal miða ársreikninga við 12 mán. þ.e. rekstrar- og efnahagsreikn. 31/12 83. Innsendur reikn. dags. 31/5 83 er vísað frá kærustigi skattstjóra.

II.

Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kærenda skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 9. október 1985. Með bréfi, dags. 23. s.m., er gerð grein fyrir kærunni. Þar segir m.a. að kærandi, eiginmaður, hafi átt bát, H., og gert hann út frá H, enda verið búsettur þar. Hafi hann rekið útgerð um nokkurt árabil. Hann hafi ákveðið að selja bátinn og hafi kaupsamningur verið undirritaður við K. þann 24. maí 1983. Ásamt bátnum hafi verið selt það sem honum tilheyrði, svo sem veiðarfæri og annað þess háttar og hafi kærandi því hætt þar með allri útgerð. Aðrar eignir hafi verið bifreið, seld þann 7. júlí 1983, og sambyggt íbúðarhús og verbúð sem selt hafi verið 1984.

Skattframtal 1984 með framlögðum breytingum miðist við að rekstri hafi lokið 31. maí 1983 og hafi því rekstrarreikningi verið skilað fyrir tímabilið 1. janúar til 31. maí 1983 og efnahagsreikningi pr. 31. maí 1983. Frá þeim tíma sé litið á eignir og skuldir, sem áður tengdust rekstri sem persónulegar eignir og skuldir og ennfremur verðmæti svo sem víxlar og skuldabréf, sem kaupandi greiddi með. Um áramót hafi víxlaeign verið 75.000 kr. og skuldabréfaeign 3.683.965 kr. og skuldir, sem myndast hafi vegna útgerðar 1. janúar — 31. maí 283.567 kr.

Í kærunni til ríkisskattanefndar eru gerðar eftirtaldar kröfur:

a) að afskrifaðar skuldir 17.466 kr. í rekstrarreikningi standi óbreyttar.

b) að breytingar á skattframtali 1984 lagðar fram í bréfi dags. 28. apríl 1985 verði teknar til efnislegrar meðferðar og vaxtatekjur af skuldabréfaeign verði skattfrjálsar.

c) að reiknuð laun verði 987.542 kr. Til vara 288.269 kr.

Um kröfulið a, segir m.a. í kærunni til ríkisskattanefndar:

„Kærandi reyndi án árangurs að innheimta ofangreindar skuldir. Hins vegar var það mat hans að ekki svaraði kostnaði að reyna frekari innheimtuaðgerðir, sem yrðu þá með aðstoð lögfræðings. Slík aðstoð er bæði tímafrek og kostnaðarsöm, auk þess sem engin vissa er fyrir því að hún skili árangri.

Þess ber einnig að gæta að sú upphæð sem afskrifuð er er einungis um 0,5% af rekstrargjöldum og ennfremur að innheimtukostnaður er rekstrarkostnaður. Verður ekki séð að umrædd afskrift sé kæranda til hagsbóta, nema á þann veg að firra sig líkum á frekari útgjöldum. Fyrst og fremst er um viðurkenningu á staðreynd að ræða.

Varðandi kröfulið b bendir umboðsmaðurinn m.a. á eftirfarandi:

„Í lögum nr. 75/1981 kemur skýrt fram að skattaleg meðferð tekna og gjalda, eigna og skulda er mismunandi eftir því hvort um er að ræða atvinnurekstur eða ekki. Með hliðsjón af lögunum er nauðsynlegt að skattframtal sé skýrt hvað þetta varðar og nauðsynlegt að gera rekstur upp þegar honum lýkur. Rekstri lauk þegar H. var seld og fjármunir sem kaupandi notaði til þess að greiða seljanda, víxlar og skuldabréf, tengjast því ekki neinum rekstri og teljast persónuleg eign. Vaxtatekjur af skuldabréfunum eru því frádráttarbærar frá tekjum sbr. 1. tl. B kafla 30. gr. laga nr. 75/1981. Af hálfu kæranda er litið svo á að þessir vextir séu skattfrjálsir, en í úrskurði skattstjóra felst að þeir eru tekjufærðir í rekstrarreikningi og mynda stofn til álagningar tekjuskatts.

Um kröfulið c, reiknuð laun, segir í kærunni til nefndarinnar:

„Reiknað endurgjald eiganda og maka hans er í skattframtali 1984 með framlögðum breytingum reiknað sem mismunur tekna og gjalda, þegar tekið hefur verið tillit til tekjufærslu eða kr. 987.542.

Fallist ríkisskattanefnd ekki á ofangreind reiknuð laun er til vara fallist á að reiknuð laun Ó. verði laun vegna fiskveiða, eins og þau hefðu verið hjá óskyldum aðila 9.2. — 20.5. kr. 185.619 skv. meðf. launamiðum auk reiknaðra launa í janúar kr. 25.000 að viðbættum reiknuðum launum febr — maí kr. 5.000 pr. mánuð v/útgerðar eða samtals kr. 230.619. Reiknuð laun maka eru áætluð kr. 57.650 eða samtals kr. 288.269.

III.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 3. febrúar 1986, gert svofelldar kröfur í málinu fyrir gjaldkrefjenda hönd: „2. tl. úrsk. skattstjóra:

Kærandi hefur ekki sýnt fram á að skuldirnar séu sannanlega tapaðar skv. 3. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Er því gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra. 4. tl. úrsk. skattstjóra:

Ríkisskattstjóri fellst á að reiknuð laun kæranda verði kr. 185.619. Að öðru leyti er ekki fallist á kröfu kæranda þar sem ekki hefur verið gerð fullnægjandi grein fyrir vinnuframlagi kærenda. Skv. úrskurði ríkisskattanefndar nr. 292 frá 1982 telst atvinnurekstri ekki lokið fyrr en allar kröfur og skuldir tengdar rekstrinum hafa verið greiddar.

Með vísan til ofanritaðs fellst ríkisskattstjóri ekki á að leggja innsendan ársreikning til grundvallar álagningu opinberra gjalda.

IV.

Um kröfulið a:

Kærendur þykja eigi hafa sýnt fram á að umræddar útistandandi skuldir 17.466 kr. séu tapaðar sbr. 1. málslið 3. töluliðar 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því ekki fallist á kröfu samkvæmt þessum kröfulið. Skattstjóra hefur láðst að hækka eignir samkvæmt efnahagsreikningi um fjárhæð þá er hér um ræðir og þykir bera að gera þá leiðréttingu með þessum úrskurði.

Um kröfulið b:

Eigi verður talið, að atvinnurekstri kærenda hafi verið lokið. Verður því eigi fallist á kröfur samkvæmt þessum lið.

Um kröfulið c:

Fallist er á hækkun reiknaðra launa kæranda, eiginmanns, úr 75.000 kr. í 230.619 kr. Hins vegar þykir krafa um hækkun launa kæranda, eiginkonu, ekki nægjanlega rökstudd og er henni því vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja