Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 345/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. og 4. tl. — 74. gr. 4. tl.  

Vörubirgðir — Vörunotkun — Niðurfærsla vörubirgða — Vörur í flutningi

Skattstjóri gerði þá breytingu á skattframtali kæranda árið 1985 að hann hækkaði eignfærðar vörubirgðir pr. 31. desember 1984 um 1.525.200 kr. Um hefði verið að ræða vörur í flutningi „enda venja að telja vörur til eigna eftir að þær eru komnar um borð í skip eða annað flutningatæki. Þá lækkaði skattstjóri niðurfærslu vörubirgða um 218.659 kr. með vísan til 4. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Breytingar þessar féllst kærandi á. Loks gerði skattstjóri þá breytingu að hann lækkaði vörunotkun um fyrrnefnda fjárhæð eða 1.525.200 kr. Þeirri breytingu mótmælir kærandi, þar sem umræddar vörur hafi aldrei verið gjaldfærðar á rekstrarreikningi undir vörunotkun né heldur færðar til skuldar hjá erlendum lánardrottnum. Því fer hann fram á „að vörubirgðir verði hækkaðar um 1.525.200 kr. og skammtímaskuldarliðnum „vörur í flutningi verði bætt við skuldir um sömu upphæð, en vörunotkunin standi óbreytt, þannig að tapið lækki aðeins um 218.659 kr."

Með bréfi dags. 28. apríl 1986 fellst ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda á kröfur kæranda.

Fallist er á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja