Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 47/1986
Sölugjald 1984
Reglugerð nr. 486/1982 — 28. gr. 1. mgr. B-liður 4. tl. Lög nr. 10/1960 — 21. gr. 2. og 6. mgr.
Söluskattur — Söluskattsskil — Söluskattsskyld velta, vanframtalin — Álag — Söluskattsálag — Afsakanlegar ástæður — Niðurfelling álagsbeitingar — Málsmeðferð áfátt
Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að beita álagi á vangoldið sölugjald fyrir nóvember 1984. Er kröfugerð í kæru til ríkisskattanefndar svohljóðandi:
„Málsatvik eru þau að T. hf. vangreiddi sölugjald fyrir nóvember mánuð 1984. Skattstofa Reykjavíkur leiðrétti sölugjaldið og lagði álag á mismuninn um miðjan janúar 1985. T. hf. greiddi hið vangoldna sölugjald í byrjun febrúar og kærði álagið til niðurfellingar með bréfi dags. 4/2 1985. Skattstofan synjar kæru félagsins með svofelldum úrskurðarorðum. „Eins og málum er háttað þykir ekki ástæða til að fella álagið niður.“
Eins og fram kemur í bréfi til skattstjóra ber útfylling viðkomandi sölugjaldsskýrslu það glögglega með sér, að um slysavillu var að ræða sem uppgötvaðist við fyrsta yfirreikning á skattstofu, enda engin tilraun gerð til að leyna honum á neinn hátt af hálfu félagsins. Að sjálfsögðu var engin athugasemd gerð við leiðréttingu skattstofu og mismunurinn greiddur svo fljótt sem við varð komið. Erfitt er að fullyrða nokkuð um ástæður fyrrgreindrar slysavillu, en á það bent að mikill annatími er í viðkomandi atvinnugrein milli jóla og nýárs.
Jafnframt viljum við benda á að félagið hefur ávallt kappkostað að greiða sölugjald á réttum tíma, þannig að umrætt atvik er eina undantekningin þar á. Þykir okkur harkalega við brugðist af hálfu skattyfirvalda þegar málsatvik eru höfð til hliðsjónar. Með tilliti til þess sem að framan greinir leyfum við okkur að kæra úrskurð skattstjóra og förum fram á að álagið verði fellt niður.“
Með bréfi dags. 16. desember 1985 krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Kærandi taldi fram og skilaði þann 23. desember 1984 undirritaðri og staðfestri söluskattsskýrslu vegna sölu í nóvember 1984. Þar var heildarsala tilgreind 3.443.371 kr., en til frádráttar sala á skattfrjálsri vöru og þjónustu 561.455 kr. og tóbaksvörur keyptar með sölugjaldi 193.924 kr. eða samtals til frádráttar 755.378 kr. Sölugjaldsskyld velta var tilgreind með 1.932.613 kr. og sölugjald greitt af þeirri fjárhæð 367.737 kr. Er augljóst að frádráttarfjárhæðin 755.378 kr. hefur verið tvídregin til frádráttar heildarveltu við ákvörðun hinnar söluskattsskyldu veltu. Skattstjóri leiðrétti þá skekkju en gerði jafnframt þá breytingu að lækka álagningu á tóbaksvörur úr 15%, sem kærandi tilgreinir á söluskattsskýrslu, í 12,96% í samræmi við auglýsingu fjármálaráðuneytisins dags. 13. desember 1983, sbr. 4. tl. B-liðs 1. mgr. 28. gr. reglugerðar nr. 486/1982 um söluskatt. Lækkaði frádráttarliðurinn keypt með sölugjaldi við það úr 193.924 kr. í 190.484 kr. eða um 3.440 kr. í tilkynningu sinni dags. 16. janúar 1985 gat skattstjóri þess eigi sérstaklega í hverju breytingar hans á nefndri söluskattsskýrslu hefðu verið fólgnar.
Að virtum öllum atvikum er fallist á kröfu kæranda.