Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 57/1986
Gjaldár 1984
Lög nr.75/1981 — 15. gr. 1. og 2. mgr. — 19. gr. — 20. gr. — 30. gr. 1. mgr. D-liður 1. tl. og E-liður 1. tl. — 31. gr. 1. tl. — 63. gr. 1. mgr. 3. tl. 3. mgr. — 100. gr. 2. mgr.
Vaxtagjöld — Vaxtagjöld, frádráttarbærni — Íbúðarlán — Íbúðarhúsnæði — Lífeyrisiðgjald — Frádráttarheimild — Rekstrarkostnaður — Dráttarvextir — Eigin atvinnurekstur — Lífeyrissjóður — Söluhagnaður — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Bifreiðaviðskipti — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Söluverð — Sölulaun — Umskráningarkostnaður — Ákvörðun söluhagnaðar lausafjár — Söluhagnaður, útreikningur — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kæruheimild ríkisskattstjóra — Frávísun kröfu ríkisskattstjóra — Hjón — Sköttun hjóna — Rekstrartap, frádráttarbærni — Rekstraraðili — Rekstrartap, meðferð hjá hjónum
I.
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1984. Eru eftirtaldar breytingar á skattframtali kæranda árið 1984 kærðar til ríkisskattanefndar:
1. Lækkun skattstjóra á vaxtagjöldum færðum til frádráttar launatekjum. Rök skattstjóra voru svohljóðandi:
„Við samanburð á framtöldum vaxtagjöldum og sendum gögnum kemur í ljós að samkvæmt greiðslukvittunum eru dráttarvextir vegna F-lána Veðdeildar Landsbanka Íslands oftalin um kr. 2.167 og lækka vaxtagjöld um þá fjárhæð. Með tilvísun til úrskurða skattstjóra dags. 18.02.1983, framtal 1982 og dags. 13.12.1983, framtal 1983, sem ekki hafa verið kærðir, strikast út vaxtagjöld kr. 163.087 af láni A, sem úrskurðað hefur verið að tengdist öðrum atvikum en íbúðarhúsi til eigin nota. Vaxtagjöld af láni B kr. 6.712 strikast út, þar sem sendar greiðslukvittanir varða árið 1982, framtal 1983. Vaxtagjöld af láni í Samvinnubankanum kr. 2.100 strikast út þar sem þau virðast tengjast öðrum atvikum en íbúðarhúsi. Frádráttarbær vaxtagjöld í reit 87 verða kr. 76.158 en vaxtagjöld í reit 88 verða kr. 251.935, sem ekki koma til frádráttar.“
Að því er varðar kæruatriði þetta er kröfugerð umboðsmanns kæranda svohljóðandi:
„1. Dráttarvextir F-lána kr. 2.167,-. Má vera rétt.
2. Lán A. Vextir kr. 163.087,-. Þér strikið þessa vexti út, að því er virðist vegna þess að skattstofan taldi þetta lán ekki tengjast húsbyggingu, og að úrskurður um það árið 1983 hefði ekki verið kærður. Úrskurður skattstofu þarf ekki að vera algildur sannleikur þótt ekki sé kærður. Þetta lán tengist byggingu íbúðarhúsnæði. Því til sönnunar sendi ég aftur hjálögð gögn, afrit af skuldabréfum Búnaðarbanka sem sýnir glögglega, að 10. des. 1981 var lán A tekið til að greiða afborganir og vexti af láni C, samtals kr. 175.346,30.
3. Vaxtagjöld af láni B kr. 6.712, eru strikuð út á þeim forsendum að greiðslukvittanir varði árið 1982. Rétt mun það vera að þetta eru vextir, sem áttu að greiðast 1982, en voru ekki greiddir fyrr en 1983. Ekki hefði E. fengið þessa vexti til frádráttar á skattframtali 1983, þar sem hann hafði ekki kvittanir?? Annars væri athugandi að leiðrétta skattframtal 1983 hvað þetta varðar.
4. Vaxtagjöld af láni Samvinnubanka kr. 2.100,-, eru strikaðir út þar sem þau virðist tengjast öðrum atvikum en íbúðarhúsi. Alveg er eins með þetta lán og lán Búnaðarbankans skv. lið 2, þá eru þessi lán tekin til að greiða vexti og afborganir af öðrum lánum vegna húsbyggingarinnar. Vextir af íbúðarlánum voru 1983 kr. 456.400,-. Hvernig er hægt að álíta að hægt sé að greiða vexti og afborganir af íbúðarhúsabyggingum án þess að taka lán til að greiða önnur lán. Þetta er því miður staðreynd, að svona ganga hlutirnir fyrir sig. Það er því krafa mín, að vaxtagjöld E. verði heimiluð til frádráttar í reit 87 kr. 250.224,- að frádregnum kr. 2.167,- og vextir í reit 88 óbreytt kr. 87.952,-. Til vara krefst ég þess að þessir vextir verði færðir til gjalda á rekstrarreikningi, ef skattstofan telur þessi lán tilheyra einhverju öðru en húsbyggingu. Ég vil benda á að lán að fjárhæð kr. 321.570,- og vextir af þeim kr. 87.945,- eru settar á skýrslu og ekki krafizt frádráttar á þeim vöxtum.“
2. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að færa gjaldfært framlag í lífeyrissjóð vörubifreiða-
stjóra af rekstrarreikningi í persónuhlið framtalsins reit 55. Er kröfugerð umboðsmanns kæranda svohljóðandi:
„Framlag í lífeyrissjóð kr. 6.120,- mótmæli ég að sé strikað út af rekstrarreikningi. Framlag í lífeyrissjóð skiptist í tvennt. Annars vegar framlag launþega og hinsvegar framlag atvinnurekenda. Á þeim forsendum er lífeyrissjóðsgreiðslu skipt, og krefst ég þess að engin breyting verði gerð þar á.
3. Kærð er leiðrétting skattstjóra á samlagningu gjaldahliðar rekstrarreikningsins um 4.501 kr. Um það farast umboðsmanni kæranda svofelld orð: „Það er óþarfi að leiðrétta samlagninguna. Það virðist glöggt að félagsgjald kr. 5.000,- er illa vélritað og virðist kr. 500,-. Þar munar kr. 4.500,-. Krónan kemur fram ef aurar eru lagðir saman.“
4. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna söluhagnað vegna kaupa á 4 bifreiðum og sölu á 6 á árinu 1983. Er rökstuðningur skattstjóra svohljóðandi:
„Söluhagnaður bifreiða kr. 125.000 færist í reit 76 í framtali með tilvísun til ákvæða 20. gr. laga nr. 75/1981. Í bréfi yðar dags. 17.12. s.l. staðfestir eftirfarandi málsliður að umrædd bifreiðaviðskipti eru fyrirhuguð með hagnað í huga: „Ég var að reyna að komast yfir kaup á vörubifreið og reyndi að kaupa bifreiðar, til þess að geta greitt með þeim upp í vörubifreið“. Hagnaður af kaupum og sölum bifreiða er því ótvírætt skattskyldur.“
Af hálfu kæranda er því mótmælt „að hagnaður af kaupum og sölum bifreiða sé ótvírætt skattskyldur....“. Eru svofelld rök færð fram því til stuðnings:
„Orðalag í svarbréfi til skattstofunnar virðist misskiljast. Það er átt við, að algengt sé að bifreið sé keypt með gjaldfresti og hún síðan notuð til greiðslu upp í aðra bifreið. Þ.e. kærandi kaupir bifreið f. kr. 100.000,-, á víxlum, en greiðir síðan með þeirri bifreið upp í aðra bifreið, en skuldar áfram kr. 100.000,- vegna bifreiðarinnar sem hann lét af hendi. Þannig skapast lán. Rétt er að rekja aðeins sölur á bifreiðum.
Hinn 1. des. 1982 var Volvo bifreið keypt fyrir kr. 240.000,-Þessi bifreið seld 9. mars 1983, f. kr. 250.000,-. Varla er þarna um kaup á bifreið til að selja með hagnaði. Bifreiðin A vörubifreið keypt 31.03.83 f. kr. 115.000,-, og seld aftur 16.06.83 f. kr. 210.000,-. Bifreiðin B vörubifreið tekin upp í sölu á A f. kr. 50.000,- og seld aftur 29.06.83 f. kr. 70.000,-. Þannig kemur þessi „hugsanlegi“ söluhagnaður út. Nú er þess að geta að ef kærandi hefði keypt eina bifreið f. kr. 165.000,- og selt hana aftur f. kr. 280.000,-. Þá hefði sennilega ekki verið gerð athugasemd. En þarna liggur við að sé um sömu sölu að ræða. Verði ekki fallist á mótmæli kæranda, að um að þetta sé skattskyldur söluhagnaður, leyfi ég mér að fara þess á leit að frá þessum „ímyndaða“ söluhagnaði kr. 125.000,- verði dregið frá:
-
Varahlutir skv. meðf. reikningum Kr. 97.787,45
-
Sölulaun 2% af kr. 660.000,- “ 13.200,00
-
Kostnað við umskráningar “ 5.150,00
-
Andvirði ónýtrar bifreiðar R. “ 3.700,00.“
II.
Með bréfi dags. 28. október 1985 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Þær upplýsingar og gögn sem koma fram í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 8. mars 1985, gefa ekki tilefni til breytinga á hinni kærðu ákvörðun og er því krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans. Þó er gerð sú krafa að gjaldfærð félagsgjöld verði flutt í reit 56 á framtali þar eð ekki er um frádráttarbær gjöld, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981 að ræða.
Varðandi varakröfu umboðsmanns kæranda á bls. 3 í kæru er bent á að ekki liggur fyrir sundurliðun á því hvað gert var við hverja bifreið og hvernig þær kvittanir, sem lagðar hafa verið fram, tengjast þeim bifreiðum sem seldar hafa verið og sala þeirra myndar hinn skattskylda söluhagnað. Jafnframt hafa ekki verið lagðar fram kvittanir fyrir öllum þeim kostnaðarliðum sem farið er fram á að komi til frádráttar söluhagnaðinum. Varakrafa umboðsmanns kæranda er því vanreifuð og ber að vísa henni frá.“
III.
III a.
Um 1. Skattstjóri hefur gert þrjár breytingar á vaxtaframtali kæranda og ekki viðurkennt til frádráttar ofreiknaða dráttarvexti að fjárhæð 2.167 kr., sem kærandi fellst á; vaxtagjöld af láni við Búnaðarbanka Íslands 6.712 kr., sem kærandi mótmælir og vaxtagjöld af lánum við sama banka að fjárhæð 163.087 kr., sem kærandi mótmælir einnig. Varðandi nefnda vaxtafjárhæð 163.087 kr. þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á að honum beri hún til frádráttar í skattframtali 1984, svo sem hann krefst. Er þeirri kröfu hans vísað frá að svo stöddu vegna vanreifunar. Fallist er á að heimila til frádráttar vaxtagjöld að fjárhæð 6.712 kr., en 2.167 kr. færast af tilfærðum vaxtagjöldum til frádráttar. Eigi er fallist á varakröfu kæranda svo sem hún er fram sett.
Um 2. Kærandi innti umræddar iðgjaldagreiðslur af höndum að öllu leyti vegna sjálfs sín. Með vísan til þess er ákvörðun skattstjóra staðfest.
Um 3. Fallist er á kröfur kæranda undir þessum kærulið.
Um 4. Með hliðsjón af bifreiðaviðskiptum kæranda og svo sem mál þetta liggur fyrir þykir eiga við ákvörðun á söluhagnaði kæranda af sölu bifreiða á árinu 1983 að fara eftir ákvæðum 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fallist er á að til frádráttar komi sölulaun 13.200 kr. og kostnaður við umskráningu 5.150 kr. Öðrum þeim kostnaðarliðum sem kærandi getur um koma ekki til frádráttar að svo stöddu þar sem eigi þykir hafa verið gerð viðhlítandi grein fyrir þeim. Samkvæmt þessu verður eigi um skattskyldan söluhagnað að ræða af umræddum viðskiptum.
III b.
Kröfu ríkisskattstjóra um að gjaldfærð félagsgjöld í rekstrarreikningi verði flutt í reit 56 á skattframtali kæranda árið 1984 er vísað frá sem of seint framkominni, sbr. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981.
Tap af atvinnurekstri eiginkonu heimilast ekki til frádráttar rekstrarhagnaði eiginmanns skv. 3. mgr. 3. tl. 1. mgr. 63. gr. nefndra laga. Er framtali kæranda og ákvörðun skattstjóra þar að lútandi hnekkt, sbr. og úrskurð ríkisskattanefndar nr. 56/1986 í máli eiginkonu kæranda.