Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 109/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 48/1985   Lög nr. 75/1981 — 73. gr. — 74. gr. 5. tl. 2. mgr. — 78. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Eignarskattur — Eignarskattsauki — Eignarskattsstofn — Eignarskattsskylda — Eignarskattsundanþága — Útistandandi skuldir — Fasteignaviðskipti — Íbúðarhúsnæði — Vanreifun — Frávísun — Málsmeðferð — Málsmeðferð skattstjóra — Skuldabréfaeign.

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 mótmælt með kæru, dags. 20. ágúst 1985, og boðað, að gerð yrði grein fyrir kröfum og rökstuðningi fljótlega. Skattstjóri vísaði kæru þessari frá með úrskurði, dags. 21. október 1985, þar sem hann taldi, að boðaður rökstuðningur hefði ekki borist, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 25. október 1985. Kærunni fylgdi ljósrit greinargerðar, dags. 5. september 1985, til skattstjóra og staðhæft, að hún hafi verið afhent skattstjóra degi síðar. Frávísunarúrskurður skattstjóra sé því ekki á rökum reistur. Þær kröfur eru gerðar, sem fram koma í greinargerðinni. Þar er krafist lækkunar eignarskatts og eignarskattsauka þannig að hvort tveggja miðist við skattframtalið og eignarskattsstofn 2.008.863 kr. Er vísað til ákvæða skattalaga, m.a. 78. gr. þeirra og „samsvarandi varðandi tekjur af verðbréfum, umfram skuldir í 30. grein, eins og í greinargerðinni segir.

Með bréfi, dags. 20. janúar 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Gerð er krafa um að álagður eignarskattur og eignarskattsauki standi óbreyttur. Álagning eignarskatts og eignarskattsauka er í samræmi við innsent framtal.

Skuldabréf og ógreidd útborgun, hvort tveggja vegna fasteignasölu falla ekki undir 78. gr. laga nr. 75/1981.

Kærandi hefur litið svo á, að útistandandi skuldir vegna fasteignaviðskipta tilfærðar í E6 í skattframtali árið 1985 að fjárhæð 2.687.500 kr. nytu þess skattfrelsis frá eignarskatti, sem mælt er fyrir um í 78. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í skattframtali sínu árið 1985 leiðir kærandi fram eignarskattsstofn í samræmi við þessi sjónarmið sín. Nefnd lagagrein tekur eigi til þeirra útistandandi skulda, sem hér um ræðir. Með vísan til þessa og þar sem eignarskattur og eignarskattsauki kæranda gjaldárið 1985 eru að öðru leyti réttilega álagðir þykir bera að hafna kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja