Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 111/1986
Gjaldár 1985
Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3. tl. — 31. gr. 7. tl. — 57. gr.
Sjálfstæður skattaðili — Sameignarfélag — Lögaðili — Slit á sameignarfélagi — Yfirfæranleiki rekstrartaps milli skattaðila — Rekstrartap — Rekstrartap, yfirfæranleiki — Sameining — Yfirfærsla skattaréttarlegra skyldna og réttinda — Skattaréttarleg réttindi og skyldur, yfirfærsla
Málavextir eru þeir, að kærandi hafði með höndum rekstur heildverslunar og útleigu fasteignar. Á samræmingarblaði, sem fylgdi skattframtali hans árið 1985, dró hann rekstrartap frá fyrri árum, sem nam framreiknað 675.197 kr., frá hagnaði af fyrrgreindri starfsemi, sem nam samtals 564.197 kr. Yfirfæranlegar eftirstöðvar rekstrartaps námu samkvæmt þessu 110.854 kr.
Með bréfi, dags. 19. júlí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri ekki heimilt að yfirfæra rekstrartap félags til frádráttar hjá einstaklingi. Tilfært rekstrartap 675.197 kr. leyfðist því ekki til frádráttar tekjum. Af heildarrekstrartekjum 564.343 kr. væru 344.000 kr. færðar til tekna í reit 24 í skattframtali og 220.343 kr. í reit nr. 62. Fjárhæð yfirfæranlegs taps yrði 0 kr. í stað 110.854 kr., sem færðar hefðu verið. Með þessum breytingum var skattframtal kæranda lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1985 við frumálagningu það ár.
Af hálfu kæranda var ekki unað við þessar breytingar og kærði umboðsmaður hans þær til skattstjóra með bréfi, dags. 31. júlí 1985. Var þess krafist, að skattframtalið yrði tekið til greina án breytinga og álagningin leiðrétt í samræmi við það. Gerð var grein fyrir því, að hinn 1. janúar 1984 hefði sameignarfélaginu A. s.f. verið slitið, en það félag hefði verið sjálfstæður skattaðili. Hefði kærandi átt helmingshlut í félaginu og fært í skattframtal sitt árið 1985 helming af yfirfæranlegu tapi sameignarfélagsins á móti tekjum af sjálfstæðum atvinnurekstri árið 1984. Samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væru eftirstöðvar rekstrartapa frádráttarbærar hvort heldur væri hjá lögaðilum eða mönnum. Sameignarfélag væri lögaðili, en ekki sjálfstæður skattaðili nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. í 2. mgr. nefndrar lagagreinar væri svo kveðið á um, að tekjum og eignum skyldi skipt til skattlagningar milli félagsaðila, ef skilyrði fyrir sjálfstæðri skattaðild sameignarfélagsins teldust ekki vera fyrir hendi. Við slíkar aðstæður virtist ljóst, að tap sameignarfélagsins kæmi til frádráttar öðrum rekstrartekjum hlutaðeigandi einstaklinga, sbr. og samræmingarblað R4.05. Hafi eigendur sameignarfélags gert slíkt félag að aðila án sjálfstæðrar skattskyldu, virtist ljóst, að yfirfæranlegt tap kæmi til með að fylgja hverjum eiganda, þótt til félagsslita kæmi. Ástæða væri því til þess að ætla, að löggjafinn hafi ætlast til hins sama við slit félags, þótt það hafi verið sjálfstæður skattaðili. Sá galli sé á núgildandi skattalögum, að ekki séu skýr ákvæði um þetta. Verði að lesa þetta að nokkru leyti út úr lögunum.
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með úrskurði, dags. 16. október 1985, og hafnaði kærunni. Skattstjóri færði svofelld rök fyrir synjun sinni:
„Skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 er eigendum sameignarfélags við skráningu þess gefinn kostur á að velja milli þess hvort félagið verði, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, skattlagt sem lögaðili, sjálfstæður skattaðili, eða að tekjum þess og eignum sé skipt milli félagsaðila og þær skattlagðar með öðrum eignum og tekjum félagsaðilanna.
Ofangreind ákvæði eiga, að mati skattstjóra, eingöngu við um ákveðinn tímapunkt í starfsemi sameignarfélaga þ.e. stofnun þess og skráningu. Af greindu ákvæði verði ekki neitt ráðið um slit sameignarfélags eða hvernig fara skuli með skattaréttarlegar skyldur og réttindi (þ.m.t. yfirfæranlegt tap) sameignarfélagsins.
Við slit sameignarfélags sem er sjálfstæður skattaðili hættir starfsemi í nafni skattaðilans og eignir og skuldir eru yfirteknar af eigendum. Eignir eru t.d. teknar út á bókfærðu verði, sem þá myndar nýjan fyrningargrunn hjá viðkomandi eigendum, en fengnar fyrningar flytjast ekki til eiganda, sbr. fyrningarskýrslu 1984 með skattframtali kæranda. Sama á við um verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981 gjald- eða tekjufærsla vegna eigna og skulda sameignarfélagsins færast ekki hjá eigendum eftir slit fé-lagsins, sbr. skattframtal kæranda.
Um yfirtöku á skattaréttarlegum réttindum og skyldum þykir bera að hafa hliðsjón af ákvæðum 56. og 57. gr. laga nr. 75/1981. Nefnd ákvæði skal, að mati skattstjóra, túlka þannig að þau feli í sér endanlega upptalningu á þeim tilvikum, þar sem slík yfirtaka á öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum eigi sér stað milli skattaðila. Meginreglan sé sú, að margnefndar skyldur og réttindi flytjist ekki milli skattaðila, en að 56. og 57. gr. greindra laga feli í sér undantekningu frá meginreglu.
Málsatvik kæranda verða ekki felld undir ákvæði 56. og 57. gr. laga nr. 75/1981 og er kæru því hafnað.“
Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. október 1985. Um ágreiningsefnið er vísað til kæru til skattstjóra, dags. 31. júlí 1985, og kæruúrskurðar skattstjóra, dags. 16. október 1985.
Ríkisskattstjóri krefst þess í málinu með bréfi, dags. 27. janúar 1986, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rekstrartap lögaðila þess, sem í málinu greinir, er kæranda óheimilt að draga frá atvinnurekstrartekjum sínum. Er kröfu hans því hafnað, en kærandi hefur út af fyrir sig eigi gert neina athugasemd við skiptingu þeirrar tekjufærslu, sem skattstjóri ákvað í bréfi sínu, dags. 19. júlí 1985.