Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 164/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 2. tl. — 30. gr. 3. mgr. — 96. gr. 1. mgr. og 3. mgr.  

Styrkur — Starfsmenntunarsjóður — Skattskyldar tekjur — Námsferð — Frádráttarbærni — Námskeið — Námskostnaður — Leiðrétting skattframtals — Málsmeðferð áfátt — Meðferð skattstjóra á leiðréttingu — Ríkisstarfsmaður

Málavextir eru þeir, að kærandi hlaut á árinu 1984 styrk að fjárhæð 10.000 kr. úr starfsmenntunarsjóði starfsmanna ríkisins innan B.S.R.B. vegna námsferðar til Danmerkur á vegum Sambands sérskóla. Var greiðsla þessi tilgreind á launamiða af hálfu styrkveitanda. Samkvæmt málsatvikalýsingu kæranda láðist honum að geta um styrkveitinguna í skattframtali sínu árið 1985, þar sem honum sást yfir launamiðann. Skömmu eftir að skattframtalinu hafi verið skilað, hafi launamiðinn komið í leitirnar og kærandi þá farið með hann á skattstofu og beðið starfsmann í afgreiðslu leyfis til að færa fjárhæðina á framtalið til tekna og frádráttar. Hafi starfsmaðurinn talið öll tormerki á því að finna skattframtalið, enda framtalsskýrslur óraðaðar. Hafi hann hins vegar skráð upplýsingarnar á miða.

Næst gerðist það í málinu, að skattstjóri tók launamiða þennan, sem kærandi afhenti, sem kæru og felldi kæruúrskurð hinn 5. nóvember 1985, þar sem hann færði styrkinn kæranda til tekna í reit T6 í skattframtalinu með skírskotun til 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. nóvember 1985. Er þess krafist, að skattlagning á greiðslu þessa verði niður felld. Kærandi getur þess, að styrkfjárhæðin hafi verið upp í kostnað vegna námskeiðs í Danmörku. Hafi hún ekki nægt fyrir flugfargjaldi og enga dagpeninga hafi hann fengið. Kærunni fylgdu upplýsingar um nefnt námskeið á vegum „Statens Erhvervspædagogiske Lærerud-dannelse dagana 17. — 21. október 1983 í „Handværkerskolen í Sönderborg, Danmörku. Þá fylgdu ljósrit farseðils, farpöntunar og bréfs um styrkveitinguna, dags. 17. desember 1983.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 1986, fellst ríkisskattstjóri á „að ekki sé um skattskyldar tekjur að ræða í tilviki kæranda.

Svo sem atvikum er lýst af hálfu kæranda hefur hann komið á framfæri við skattstjóra upplýsingum um umrædda styrkveitingu til leiðréttingar á skattframtalinu, en gengið út frá því, að eigi kæmi til skattlagningar vegna hennar. Þessa leiðréttingu kæranda á framtalinu hefur skattstjóri hins vegar tekið sem kæru, en hækkað tekjur kæranda um hina umdeildu fjárhæð með hinum kærða úrskurði. Svo sem mál þetta hefur legið fyrir fær þessi málsmeðferð eigi staðist. Bar skattstjóra að fara með kæruefnið eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Styrkur sá, sem í málinu greinir, telst til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, en nægilega þykir liggja fyrir, að kærandi hafi haft þann kostnað á móti styrk þessum, að eigi komi til skattlagningar, sbr. 3. mgr. 30. gr. nefndra laga. Með skírskotun til alls framanritaðs er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja