Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 547/1986
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. A-liður 5. tl. — 70. gr. 1. mgr. Lög nr. 35/1960 —10. gr. 2. mgr. Lög nr. 13/1948
Alþjóðastofnun — Skattfrelsi — Tvísköttunarsamningur — Alþjóðasamningur — Milliríkjasamningur — Lögheimili — Ótakmörkuð skattskylda — Skattþrep — Útreikningsaðferð tekjuskatts.
Málavextir eru þeir, að fyrri hluta árs 1983 starfaði kærandi hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO) í París og gat þess í athugasemdadálki skattframtals síns árið 1984. Með bréfi, dags. 1. apríl 1985, krafði skattstjóri kæranda um gögn, er sýndu tekjur hans erlendis árið 1983 og skattgreiðslu af þeim tekjum svo og fengnar barnabætur erlendis eða ígildi slíkra bóta. Af hálfu kæranda var bréfi þessu svarað með bréfi, dags. 12. apríl 1985, og var þar m.a. minnt á skattfrelsi launa frá nefndri stofnun bæði á Íslandi og í Frakklandi. Með bréfi, dags. 23. apríl 1985, boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að áætla tekjur hans erlendis og reikna opinber gjöld hans gjaldárið 1984 að nýju skv. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar eð fullnægjandi svar við bréfi skattstjóra, dags. 1. apríl 1985, hefði ekki borist. í bréfi kæranda, dags. 28. júní 1985, kom fram, að hann taldi verða að áætla tekjur hans erlendis árið 1983, þar sem gögn fyndust ekki. Kvaðst hann hafa starfað hjá UNESCO frá 1. júní 1980 til 24. maí 1983. Launatímabil hjá stofnuninni árið 1983 hefði því verið 1. janúar til 24. maí eða um 40% af heilu starfsári. Hann hefði engar tekjur haft frá 25. maí 1983 til 30. júní 1983, en frá og með 1. júlí 1983 hefði hann verið á launaskrá íslenska ríkisins.
Með bréfi, dags. 22. október 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1984 hefðu verið endurákvörðuð. Hefðu tekjur hans erlendis árið 1983 verið áætlaðar 1.000.000 kr. að viðbættu 25% álagi, þar sem bréfi skattstjóra, dags. 1. apríl 1985, hefði ekki verið svarað á fullnægjandi hátt. í kæru til skattstjóra, dags. 19. nóvember 1985, mótmælti kærandi endurákvörðuninni. Tekist hefði að afla gagna frá UNESCO um launatekjur hans fyrir störf við stofnunina á tímabilinu 1. janúar 1983 til 24. maí 1983. Fylgdu ljósrit þeirra gagna kærunni. Hefðu tekjumar reynst vera alls 20.126,35 bandaríkjadalir. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 9. janúar 1986. Ákvarðaði hann opinber gjöld kæranda gjaldárið 1984 í ljósi framlagðra gagna. í úrskurðinum sagði m.a. svo: „Samkvæmt ákvæðum (sic) Íslands og nefnds lands um að komast hjá tvísköttun eigna og tekna eru þær tekjur yðar eigi skattskyldar hérlendis, en hafa áhrif á útreikning gjalda yðar af skattskyldum tekjum hér á landi.“
Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. febrúar 1986. Tekur kærandi fram, að skattstjóri hafi að vísu fallist á kröfu hans um að skattfrjálsar launatekjur hans frá UNESCO samsvarandi 412.383 ísl. kr. verði lagðar til grundvallar álagningu gjaldárið 1984. Hins vegar sé gjaldahækkunin mun hærri en efni standi til.
Með bréfi, dags. 28. apríl 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Fallist er á að opinber gjöld kæranda séu of há miðað við tekjur hans. Með vísan til C-liðar 10. kafla verklagsreglna ríkisskattstjóra er gerð krafa um að tekjuskattur verði 20.420 kr., útsvar 20.040 kr., sjúkratryggingagjald 2.582 kr. og kirkjugarðsgjald 460 kr.“
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði skattstjóra byggði hann afgreiðslu máls þessa á því, að fyrir hendi væri tvísköttunarsamningur milli Íslands og Frakklands, sem tæki til tilviks kæranda. Eigi fær það staðist. Kærandi var starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og naut skattfrelsis af nefndum launatekjum skv. ákvæðum alþjóðasamnings um réttindi Sameinuðu þjóðanna, er veitt var lagagildi hér á landi með lögum nr. 13/1948, en samningurinn er birtur sem fylgiskjal með þeim lögum. Tekur 5. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til tekna þessara, er mælir fyrir um frádrátt þeirra. Þá ber við álagningu opinberra gjalda á kæranda að gæta ákvæða 1. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, er mæla svo fyrir, að hjá manni, sem hefur tekjur, sem um ræðir í 5. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laganna, skuli við álagningu tekjuskatts á aðrar tekjur hans nota það skattþrep, sem beita skyldi, ef hann hefði ekki notið þar umrædds frádráttar. Eftir þeim ákvæðum, sem hér hafa verið rakin, ber að fara við álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1984, en kærandi átti heimilisfesti hér á landi allt árið 1983, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/1960, um lögheimili, með síðari breytingum, og er enginn ágreiningur um það atriði. Breytast álögð opinber gjöld kæranda í samræmi við þetta.