Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 548/1986
Gjaldár 1985
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. A-liður 5. tl. og E-liður 2. tl. — 100. gr. 2. og 5. mgr.
Alþjóðastofnun — Styrkur — Skattfrelsi — Gjafir til menningarmála o.fl. — Alþjóðleg samtök — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Hlunnindi — Kæranleg skattákvörðun — Kæruheimild ríkisskattstjóra — Frávísun
Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir kærandi þá grein fyrir málsatvikum að hann hafi skólaárið 1984—1985 kennt við framhaldsskóla í Ghana í Vestur-Afríku. Þangað hefði hann farið á vegum samtakanna AFS á íslandi, alþjóðleg fræðsla og samskipti. Þau samtök hafi greitt honum laun sem samsvöruðu 60% af grunnlaunum framhaldsskólakennara á þeim tíma, en samtökin hafi sjálf tekið 40% af umræddum launum til að standa straum af kostnaði við verkefnið. Menntamálaráðuneytið hafi veitt samtökunum styrk til verkefnisins. Vegna misskilnings eða mistaka hafi styrkurinn allur verið greiddur á reikning kæranda, þrátt fyrir að hann hafi reynt að sjá til þess að svo væri ekki gert. Frásögn sína styður kærandi ítarlegum gögnum. Telur hann fráleitt að honum beri að greiða skatta af þeim hluta styrksins sem runnið hafi til samtakanna. Þá telur kærandi að laun sín vegna nefndrar kennslu sinnar séu frádráttarbær skv. 5. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því til stuðnings gerð grein fyrir eðli og starfsemi samtakanna, studd gögnum. Með hinum kærða úrskurði hafði skattstjóri hafnað kröfum kæranda en heimilað honum til frádráttar 33.860 kr. eftir ákvæðum 2. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. nefndra laga.
Með bréfi dags. 24. febrúar 1986 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Með hliðsjón af framlögðum gögnum er fallist á kröfu kæranda. Skv. bréfi kæranda, dags. 10. maf 1984, er fylgir gögnum málsins kemur fram að hann njóti húsnæðis og fæðis í skólanum endurgjaldslaust. í ljósi þess að um skattskyld hlunnindi er að ræða skv. A-lið 7. gr. laga nr. 75/1981 er gerð krafa um að þau verði skattlögð ásamt öðrum tekjum kæranda og þykja þau hæfilega áætluð kr. 15.000.“
Þá tekur ríkisskattstjóri fram í bréfi dags. 28. apríl 1986 að skilyrðum 5. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. nefndra laga sé ekki fullnægt.
Skilyrðum þeim fyrir frádrætti launatekna frá alþjóðastofnunum sem um ræðir í 5. tl. A- liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 er eigi fullnægt. Verður því að hafna kröfu kæranda um það atriði. Svo sem atvikum málsins er háttað og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er á það fallist með kæranda að eigi beri að telja honum til skattskyldra launatekna umræddar 40.754 kr. Er því úrskurði skattstjóra um það atriði hnekkt.
Kröfu ríkisskattstjóra um skattlagningu hlunninda er hann gerir í kröfugerð sinni dags. 24. febrúar 1986, er vísað frá, þar sem engin kæranlegur úrskurður til ríkisskattanefndar liggur fyrir um það atriði.