Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 554/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 40. gr. — 41. gr. — 100. gr. 2. mgr.  

Rekstrarkostnaður — Fyrning — Fyrnanleg eign — Endingartími — Fyrningarhlutfall — Álag á vantalda skattstofna — Lausafé — Gjaldfærsla kostnaðarverðs lausafjár

Að undangengnum bréfaskiptum tók skattstjóri fyrir hinn 10. janúar 1986 að endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1985. Ágreiningur er um eftirgreind atriði:

  1. Kærandi gjaldfærði í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1984 kaupverð ratsjár 46.841 kr. og netaafdragara 67.300 kr. Skattstjóri felldi þessa gjaldfærslu niður og færði eignir þessar sem fyrnanlegar eignir og reiknaði 10% fyrningu af þeim. Skattstjóri tók fram, að skv. 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þyrfti kostnaðarverð einstakra eigna eða eignasamstæðna að vera undir 45.000 kr. til þess að heimilt væri að færa þær að fullu til gjalda á kaupári. Af hálfu umboðsmanns kæranda er þess krafist, að breytingu skattstjóra verði hrundið, og gjaldfærsla þessara eigna leyfð. Samkvæmt hefðbundnum vinnuaðferðum hans, umboðsmannsins, væru öll smá tæki og áhöld útgerðar færð beint til gjalda og væri í þeim efnum stuðst við ákvæði 40. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. í kæru til skattstjóra, dags. 25. janúar 1986, greinir umboðsmaðurinn nánar frá vinnubrögðum og vinnuaðferðum sínum hvað þetta áhrærir, m.a. því sjónarmiði, að endingartími sé mjög óviss.

  2. Kærandi gjaldfærði myndbandstæki að fjárhæð 42.755 kr. í rekstrarreikningi sínum árið 1984. Skattstjóri felldi gjaldfærslu þessa liðs niður, þar sem hann taldi tæki þetta óviðkomandi rekstri kæranda. Af hálfu kæranda er þess krafist, að gjaldaliður þessi verði látinn óhreyfður standa. Myndbandstækið sé eign útgerðarinnar til afnota fyrir sjómenn. Þeir geti í mörgum tilfellum ekki fylgst með sjónvarpi á útsendingartíma og séu myndbönd því mikið notuð til upptöku einstakra þátta, sem síðan séu sýndir, þegar tækifæri gefst til þess. Nú á dögum séu myndbandstæki í flest öllum íslenskum fiskibátum.

  3. Skattstjóri felldi niður kostnaðarliði samtals að fjárhæð 11.216 kr. vegna fatnaðar, vinnuvettlinga, gosdrykkja, sælgætis o.fl. með því að hér virtist um útgjöld að ræða, sem ekki féllu undir rekstrarkostnað útgerðar. Af hálfu kæranda er þess krafist, að gjaldaliður þessi verði tekinn til greina, enda sé um hreinan rekstrarkostnað að ræða.

  4. Skattstjóri bætti 25% álagi við þá hækkun skattstofna, sem af breytingum hans í heild sinni leiddi. Af hálfu kæranda er þess krafist, að álagsbeitingu skattstjóra verði hnekkt, enda geti ágreiningsefni málsins ekki réttlætt beitingu álagsins.

Með bréfi, dags. 7. júlí 1986, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Um 1. tl. Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans um þetta kæruatriði.

Um 2. og 3. tl. Kærandi þykir eigi hafa sýnt nægilega fram á, að umræddir gjaldaliðir séu frádráttarbærir frá tekjum sem rekstrarkostnaður, sbr. 1. mgr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er þessum kæruatriðum vísað frá.

Um 4. tl. Eftir atvikum þykja eigi hafa verið efni til álagsbeitingar. Er krafa kæranda því tekin til greina að því er þetta varðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja