Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 558/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 54. gr. — 55. gr. A  

Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðsreikningur — Bundinn reikningur — Binditími — Innborgunarmánuður — Innborgun á fjárfestingarsjóðsreikning — Fjárfestingarsjóðstillag — Fyrning sérstök — Sérstök fyrning — Fyrning á móti tekjufærðu fjárfestingarsjóðstillagi — Álag á tekjufært fjárfestingarsjóðstillag — Innlánsstofnun — Viðskiptabanki — Sparisjóður

I.

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 2. desember 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda að samkvæmt reikningsyfirliti frá sparisjóði K., dags. 19. febrúar 1985, hefði kærandi tekið út innlegg í fjárfestingarsjóð fyrir tilskilinn tíma á árinu 1984. Því væri fyrirhugað með heimild í 96. gr. laga nr. 75/1981 að endurákvarða opinber gjöld kæranda gjaldárið 1985 með eftirfarandi breytingar í huga samkvæmt 55. gr. A sömu laga, sbr. a-lið 12. gr. laga nr. 8/1984:

  1. Lagt yrði 10% álag á framreiknaðan fjárfestingarsjóð kæranda, samtals 31.635 kr. og sú fjárhæð færð honum til tekna.

  2. Fyrning vegna fjárfestingarsjóðs samtals 316.354 kr. yrði felld niður.

Kærandi ritaði skattstjóra bréf, dags. 13. desember 1985. Þar segir hann, að sér hafi verið tjáð af starfsmanni sparisjóðs K., þegar hann tók peninga út af bundnum reikningi þann 6. desember 1984, að binditími hefði verið styttur. Hefði sá starfsmaður sparisjóðsins talið sig hafa þær upplýsingar frá ríkisskattstjóra og samkvæmt því væri sér heimilt að taka féð út eftir 1. desember 1984. Síðar hefði komið í ljós að þetta hefði ekki verið rétt og hefði sparisjóður K. staðfest þann misskilning með bréfi til skattstjóra, dags. 12. desember 1985. Óskaði kærandi eftir því í bréfi sínu til skattstjóra að skattframtal sitt 1985 yrði látið standa óbreytt með hliðsjón af því, að bæði hann sjálfur og sparisjóðurinn hafi talið að eftir lögum væri farið og jafnframt, að einungis 20 daga hafi vantað uppá til að sex mánaða binditíma væri náð.

Skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi dags. 23. janúar 1985 að opinber gjöld hans gjaldárið 1985 hefðu verið endurákvörðuð með heimild í 96. gr. laga nr. 75/1981. Þar sem skilyrðum um binditíma innleggs á fjárfestingarsjóðsreikning hefði eigi verið fullnægt, hefðu boðaðar breytingar á skattframtali kæranda 1985 með bréfi skattstjóra frá 2. desember 1985 verið gerðar. Vísað var til 55. gr. A og 54. gr. laga 75/1981, sbr. a-lið 12. gr. laga nr. 8/1984 og 10. gr. sömu laga. Varðandi misskilning þann, er kærandi hefði getið um í bréfi sínu frá 13. desember 1985, tók skattstjóri fram, að lagaheimild skorti til að taka tillit til slíks misskilnings og þar með falla frá áður boðuðum breytingum á nefndu skattframtali kæranda af þeim ástæðum.

Endurákvörðunin var kærð af hálfu kæranda með bréfi, dags. 21. febrúar 1986. Í því voru ítrekaðar fyrri óskir um, að skattframtal kæranda áríð 1985 yrði látið standa óbreytt og var vísað til áður sendra gagna.

Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð í málinu þann 25. febrúar 1986. Segir þar m.a. að í kærunni hafi ekkert komið fram sem eigi hafi legið fyrir við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar og engin ný gögn hafi verið lögð fram í málinu. Því sé hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi dags. 24. mars 1986.1 kærunni ber kærandi fyrir sig fyrrnefndan misskilning. Bendir hann á, að árið 1984 sé fyrsta árið sem „Lög um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri" hafi gilt og háttvirt Alþingi verið að gera breytingar á skattalögum fram á vor. Því sé ekki óeðlilegt að einhver misskilningur hafi komið upp. Þá bendir kærandi m.a. ennfremur á það, að sparisjóðurinn K. telji sig hafa fengið munnlegar upplýsingar um að binditími innstæðna á fjárfestingarsjóðsreikningum hefði verið verið styttur um einn mánuð hjá þeim, er lagt höfðu inn eftir 1. júní 1984. í lok kæru sinnar til ríkisskattanefndar segir kærandi:

„Ég vænti þess að ríkisskattanefnd taki á þessu máli með skilningi og veiti því mannlega úrlausn, enda var ekki vísvitandi tekið út á röngum tíma og ekki trúi ég því að skattalögin séu svo stíf og afturhaldssöm að þriðja aðila sé hegnt fyrir það, að hafa fengið rangar upplýsingar hjá viðskiptabanka sínum.

III.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi dags. 21. júlí 1986 gert svofellda kröfu í málinu fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 10. gr. laga nr. 8/1984, um binditíma innborgunar á bundinn reikning í sparisjóði K. Bar því með vísan til 1. mgr. 55. gr. A sömu laga að tekjufæra tillag kæranda í fjárfestingarsjóð skv. ársreikningi hans með skattframtali 1984 framreiknað eftir ákvæðum 26. gr. laga nr. 75/1981 og að viðbættu 10% álagi. Þá var kæranda, sbr. 2. mgr. 55. gr. A nefndra laga, eigi heldur heimilt að nota hina skattskyldu fjárhæð til sérstakra fyrninga samkvæmt ákvæðum 1. og 2. tl. 55. gr. laganna. Með þessum afhugasemdum þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra um kæruefnið, enda þykja framkomnar skýringar kæranda á tildrögum umræddra ráðstafana hans eigi fá breytt þessari niðurstöðu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja