Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 630/1986
Gjaldár 1984-1985
Lög nr. 41/1983 — 10. gr. Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 66. gr. 1. mgr. 2. tl. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. Lög nr. 47/1979 — 15. gr.
Bifreiðahlunnindi — Eigin notkun — Akstur — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Bifreiðahlunnindamat — Kærufrestur — Kæra síðbúin — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Örorka — Barnaörorka — Tryggingastofnun ríkisins — Framfærandi — Fatlaðir, umönnun í heimahúsum — Málefni fatlaðra — Fatlaðir, greiðsla vegna umönnunar — Ívilnun — Valdsvið ríkisskattanefndar — Leiðrétting ríkisskattanefndar
Málavextir eru þeir, að skattstjóri endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1984 og 1985 með bréfi sínu, dags. 16. maí 1986, sbr. skattbreytingaseðla, dags. sama dag. Taldi skattstjóri, að kærandi nyti hlunninda vegna afnota af bifreið í eigu vinnuveitanda, R. h.f., sem meta bæri honum til skattskyldra tekna. Hlunnindi þessi miðaði skattstjóri við 5.000 km akstur í eigin þágu hvort ár og færði kæranda til tekna sem skattskyld bifreiðahlunnindi 33.000 kr. í skattframtali árið 1984 og 44.850 kr. í skattframtali árið 1985. Taldi skattstjóri bera að byggja á því skv. upplýsingum frá R. h.f., að kæranda væru ekki settar neinar sérstakar takmarkanir um eigin notkun á bifreið fyrirtækisins og hefði bifreiðin verið geymd við heimili hans utan vinnutíma árin 1983 og 1984.
Af hálfu kæranda var því haldið fram, að eingöngu bæri að telja akstur milli heimilis og vinnustaðar til skattskyldra hlunninda, þ.e.a.s. 500 km (2x1 í 250 daga = 500 km). Kærandi ætti sjálfur bifreið, sem notuð væri í einkaþarfir. Kom fram af hálfu kæranda, að R. h.f. hefði ekki sett honum nein frekari takmörk af notkun téðrar bifreiðar en þau, að um væri að ræða eðlilega notkun í þágu fyrirtækisins. Af hálfu kæranda var endurákvörðun skattstjóra kærð með kæru, dags. 16. júní 1986, og ítrekuð sjónarmið og kröfur varðandi mat á skattskyldum bifreiðahlunnindum. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með úrskurði, dags. 23. júní 1986, og vísaði henni frá sem of seint fram kominni. Hin kærða endurákvörðun væri dagsett 16. maí 1986. Skv. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hefði kærufrestur runnið út hinn 14. júní 1986.
Með kæru, dags. 15. júlí 1986, hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar af hálfu umboðsmanns kæranda. Er haldið fram sömu kröfum og áður um mat hinna skattskyldu bifreiðahlunninda.
Með bréfi, dags. 16. október 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kæra til skattstjóra var of seint fram komin og sætti frávísun.
Telji ríkisskattanefnd rétt að taka kæruna til efnislegrar meðferðar er gerð krafa um að úrskurður skattstjóra frá 16. maí 1986 verði staðfestur þar eð mat hans á hlunnindum kæranda vegna afnota af bifreið vinnuveitanda hans virðist hóflegt.“
Rétt þykir að taka kæruna til efnismeðferðar. Eigi er um það ágreiningur, að kærandi hafi afnot af bifreið vinnuveitanda, sem meta beri honum til skattskyldra tekna skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar er deilt um teknamat þessara hlunninda. Að virtum gögnum málsins og svo sem það liggur fyrir þykir ekkert benda til þess, að skattstjóri hafi ofmetið hlunnindi þessi til tekna. Þykja fyrirliggjandi skýringar kæranda eigi geta leitt til lækkunar á því mati, sbr. og í þessum efnum sjónarmið umboðsmanns kæranda í bréfi til skattstjóra, dags. 10. mars 1984, vegna ágreinings um bifreiðahlunnindi og kostnað á móti ökutækjastyrk gjaldárið 1983. Með vísan til framanritaðs er kröfum kæranda hafnað.
Eftirfarandi leiðréttingu þykir rétt að gera á skattframtölum kærenda: Á framfæri kæranda og eiginkonu hans eru tvö fötluð börn í heimahúsum. Móttóku framfærendur greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna barnaörorku, sbr. 10. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, sbr. áður m.a. 15. gr. laga nr. 47/1979. Framfærendur færðu greiðslur þessar sér ranglega til skattskyldra tekna, en eigi verður talið, að þeim beri að greiða opinber gjöld vegna þessara greiðslna, sbr. t.d. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 178/1983. Beiðni um ívilnun skv. 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fylgdi skattframtölunum, byggð á 2. tl. 1. mgr. lagagreinar þessarar. Skattstjóri afgreiddi beiðni þessa við frumálagningu með því að heimila til lækkunar á skattstofnum fjárhæðir sem jafnháar eru nefndum greiðslum. Eigi verður talið að með þessum hætti hafi skattstjóri fellt nefndar greiðslur undan skattlagningu. Þykir því bera að leiðrétta skattframtöl kærenda gjaldárin 1984 og 1985 með tilliti til þessa, en meðferð beiðna um ívilnanir skv. 66. gr. laga nr. 75/1981 er utan valdsviðs ríkisskattanefndar.