Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 678/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 32. gr. — 54. gr. — 55. gr. A  

Fyrnanleg eign — Fyrning — Bifreið — Bifreiðakostnaður — Löggiltur endurskoðandi — Almenn fyrning — Fyrning lausafjár — Afskrift, föst — Einkanot — Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Fjárfestingarsjóðsreikningur — Innborgun á fjárfestingarsjóðsreikning — Bundinn reikningur — Binditími — Innborgunarfrestur

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1985. Kæruatriði eru sem hér greinir:

1. Kærandi, sem rekur endurskoðunarskrifstofu, tilfærði 3 bifreiðar í efnahagsreikningi vegna þeirrar starfsemi fyrir árið 1984. Skv. fyrningarskýrslu árið 1984, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1985, námu almennar fyrningar bifreiðanna rekstrarárið 1984 117.756 kr. Gjaldfærður rekstrarkostnaður bifreiðanna annar en fyrningar nam samtals 36.640,05 kr. Bókfært verð bifreiðanna í ársreikningnum nam 384.068 kr. Skattstjóri gerði þær breytingar á skattframtali kæranda árið 1985, sbr. endurákvörðun skattstjóra, dags. 13. mars 1986, að hann felldi niður gjaldfærða fyrningu bifreiðanna 117.756 kr., en gjaldfærði fasta fyrningu bifreiðar í hlutfalli við notkun í þágu rekstrar eða 22.187 kr. Bifreiðarnar 384.068 kr. við bókfærðu verði pr. 31.12.1984 felldi skattstjóri niður af efnahagsreikningi og færði þær til eignar í reit E-2 í skattframtali á kaupverði samtals 471.531 kr. Tók skattstjóri fram, að bifreiðar, sem bæði væru notaðar til einkaþarfa og í þágu atvinnurekstrar, teldust ekki vera varanlegir rekstrarfjármunir, sem fyrnanlegir væru eftir ákvæðum 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vísaði skattstjóri til túlkunar ríkisskattstjóra í þessum efnum.

Af hálfu kæranda er breytingum skattstjóra mótmælt með skírskotun til 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Upplýsingar á eyðublaði ríkisskattstjóra breyttu engu um þetta.

2. Skattstjóri lækkaði frádrátt vegna fjárfestingarsjóðstillags um 67.262 kr. eða úr 311.000 í 243.738 kr. með því að kærandi hefði ekki gætt þess skilyrðis fyrir frádráttarbærni í þessum efnum að hafa lagt 50% tillagsins inn á bundinn reikning eigi síðar en 5 mánuðum eftir lok reikningsárs, sbr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og þeirri grein var breytt með 10. gr. laga nr. 8/1984. Af hálfu kæranda er þessari breytingu skattstjóra mótmælt. Hefur kærandi gefið þær skýringar, að vegna mistaka hafi hinn 31. maí 1985, þegar lagt hafi verið inn á bundinn reikning, einungis 40% af tillagi ársins verið lögð inn. Úr þessu hafi verið bætt með innleggi þess, sem á vantar.

Með bréfi, dags. 7. júlí 1986, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Um 1. tl. Þegar litið er til starfsemi þeirrar, sem kærandi hefur með höndum, bifreiða þeirra, sem í málinu greinir, einkanota af þeim og annarra atvika málsins verður eigi á það fallist með kæranda, að hér sé um fyrnanlegar eignir að ræða skv. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur um þetta kæruatriði.

Um 2. tl. Eigi er um það deilt, að kærandi hafi eigi gætt þeirra tímamarka, sem um getur í 3. ml. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á þeim lögum. Þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra um þetta kæruatriði, enda þykja fram komnar skýringar kæranda eigi frá breytt þessari niðurstöðu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja