Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 730/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 55. gr. — 55. gr. A  

Fyrning — Fyrnanleg eign — Bifreið — Bifreiðakostnaður — Rekstrarkostnaður — Fasteignasali — Almenn fyrning — Fyrning lausafjár — Einkanot — Fyrning sérstök — Fyrning á móti tekjufærslu fjárfestingarsjóðstillags — Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Stofnverð — Afskrift, föst

Kærandi, sem rekur fasteignasölu, lét fylgja skattframtali sínu árið 1985 ársreikning vegna þeirrar starfsemi. í skýringum með ársreikningnum kom fram, að undir gjaldaliðnum „annar rekstrarkostnaður var færður bifreiðakostnaður að fjárhæð 67.410 kr., sbr. rekstraryfirlit fólksbifreiðar R4.03, er skattframtalinu fylgdi, og bifreiðakostnaður að fjárhæð 150.308 kr. Með bréfi, dags. 8. janúar 1986, krafði skattstjóri kæranda m.a. um sundurliðun á síðastnefndri fjárhæð bifreiðakostnaðar og um greinargerð fyrir einkanotum. Með bréfi, dags. 26. janúar 1986, var af hálfu kæranda gefin sundurliðun á þessum bifreiðakostnaði samtals að fjárhæð 150.309 kr. Var kostnaður þessi vegna „Range Rover bifreiðar, sem keypt var á árinu 1984 og talin fyrnanleg eign af hálfu kæranda. Skv. fyrningarskýrslu árið 1984, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1985, nam almenn fyrning vegna bifreiðarinnar 235.000 kr. Í svarbréfi sínu gat kærandi og um gjaldfærslu þessarar fyrningar. Þá gerði kærandi í bréfinu svofellda grein fyrir akstri bifreiðarinnar: „Á tímabilinu voru eknir 12.500 km og verður kostnaður á hvern ekinn km 30,82 krónur. Áætluð einkaafnot eru áætluð 2.000 km að meðtöldum akstri til og frá vinnu. Þess er því óskað að skattframtali 1985 verði breytt þannig að einkaafnot af bifreiðinni 61.640 kr. (30,82 kr. x 2.000 km) verði færð til lækkunar á kostnaði.

Með bréfi, dags. 14. febrúar 1986, boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að taka skattframtal hans til endurálagningar. Fyrirhugað væri að færa fyrrnefnda „Range Rover" bifreið af efnahagsreikningi fasteignasölu kæranda „X“ yfir á persónuframtal með því að bifreiðin teldist ekki til þeirra eigna, sem tilgreindar væru í 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. einnig leiðbeiningar ríkisskattstjóra á eyðublaðinu „rekstraryfirlit fólksbifreiðar R4.03. Þá yrðu fyrningar leiðréttar með tilliti til þessa, þ.e.a.s. almenn fyrning yrði felld niður svo og fyrning á móti tekjufærslu fjárfestingarsjóðstillags, sbr. 55. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og þeirri grein var breytt með 11. gr. laga nr. 8/1984. Ennfremur væri fyrirhugað að lækka gjaldfærðan bifreiðakostnað um 38.771 kr. sem næmi ryðvörn, skráningu o.fl. svo og vegna vaxta og stimpilgjalds. Stofnverð bifreiðarinnar yrði hækkað um 25.989 kr., er næmi kostnaði við ryðvörn, skráningu o.fl. Þá væri ráðgert að lækka gjaldfærðan bifreiðakostnað um áætluð einkanot að meðtöldum akstri til og frá vinnu. Kærandi áætlaði þennan akstur aðeins 2.000 km í svarbréfi sínu. Að teknu tilliti til fjarlægðar milli heimilis og vinnustaðar virtist um vanmat að ræða á einkanotum. Bærist ekki viðhlítandi skýring yrðu einkanot áætluð.

Í svarbréfi kæranda, dags. 26. febrúar 1986, var farið fram á, að skattstjóri félli frá fyrirhuguðum breytingum, en leiðrétti skattframtalið vegna vanfærðrar einkanotkunar um 61.640 kr. Var tekið fram, að nefnd bifreið væri ómissandi við atvinnurekstur kæranda og í því sambandi minnt á, að það væri ómissandi þáttur í rekstri fasteignasölu að skoða og meta fasteignir svo og að sýna væntanlegum kaupendum þær. Væri notkun bifreiðarinnar eingöngu bundin við atvinnurekstur kæranda auk aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Þættu því einkanot hæfilega áætluð 2.000 km með tilliti til þess, að önnur bifreið væri til einkanota. Vegna tilvísunar skattstjóra til 32. gr. laga nr. 75/1981 og leiðbeininga ríkisskattstjóra á eyðublaðinu R4.03 kvaðst umboðsmaður kæranda vilja benda á, að í þeim tilfellum, þar sem bifreið væri eingöngu notuð til atvinnurekstrar og aksturs milli heimilis og vinnustaðar væri heimilt að fyrna hana.

Ekki féllst skattstjóri á sjónarmið kæranda og með bréfi, dags. 11. apríl 1986, tilkynnti hann kæranda, að skattframtal hans árið 1985 hefði verið tekið til endurálagningar vegna þeirra breytinga, sem boðaðar voru í bréfi skattstjóra, dags. 14. febrúar 1986. Taldi skattstjóri bifreiðina ekki geta skoðast sem fyrnanleg eign skv. 32. gr. laga nr. 75/1981. Færði hann bifreiðina af efnahagsreikningi í E2 í skattframtali. Þá felldi skattstjóri niður almenna fyrningu bifreiðarinnar svo og fyrningu hennar á móti tekjufærðu fjárfestingarsjóðstillagi. Tekjufærslu viðkomandi hluta fjárfestingarsjóðs hagaði skattstjóri eftir ákvæðum 55. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. a-lið 12. gr. laga nr. 8/1984. Einkanot bifreiðarinnar áætlaði skattstjóri 3.500 km. Þá reiknaði hann „fasta fyrningu 23.845 kr., þar sem bifreiðin hefði verið notuð í rekstri frá 15/6 1984, sbr. afskrift bifreiðar í rekstaryfirliti fólksbifreiðar R4.03. Bifreiðakostnaður var lækkaður um 38.771 kr., þ.e.a.s. ryðvarnar, skráningar-, vaxtagjalda- og stimpilgjaldakostnaður væri felldur niður. Heildarkostnaður bifreiðar yrði 135.383 kr. eða 10,83 kr. pr. ekinn kílómetra. Kostnaður færður til gjalda í rekstrarreikningi yrði 80.730 kr. eða 9.000 x 8,97 sem væri hámark. Hrein eign í reit 01 El á skattframtali yrði 6.251.482 kr. og bifreið til eignar í E2 1.200.989 kr. Hagnaður af rekstri fasteignasölu eftir upplausn fjárfestingarsjóðs yrði 1.383.431 kr. og hagnaður í reit 62 í skattframtali 1.706.297 kr. Með skattbreytingaseðlum, dags. sama dag, tilkynnti skattstjóri kærendum þær hækkanir áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1985, sem leiddu af þessum breytingum.

Af hálfu kæranda var endurákvörðun skattstjóra kærð til hans með bréfi, dags. 30. apríl 1986. Var í kærunni fallist á þá breytingu skattstjóra að lækka bifreiðakostnað um 38.771 kr. Myndi fyrningarstofn því hækka um sömu fjárhæð og almenn fyrning til gjalda hækka um 7.754 kr. Þá var þess krafist, að áætluð einkanot vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar yrðu lækkuð til samræmis við þá viðmiðun ríkisskattstjóra, að 30% af slíkum akstri teldist í eigin þágu. Gerð er grein fyrir notkun bifreiðarinnar í þágu atvinnurekstrar kæranda og ítrekuð áður fram komin sjónarmið hans, að bifreiðin væri fyrnanleg eign.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 22. maí 1986, og hafnaði henni. Ekkert nýtt hefði komið fram af hálfu kæranda og gæfi kæran því ekki tilefni til þess að falla frá gerðum breytingum.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. júní 1986. Þess er krafist, að almennar fyrningar „Range Rover bifreiðar kæranda svo og fyrning á móti fjárfestingarsjóði verði látnar óbreyttar standa. Um rökstuðning er vísað til bréfa kæranda til skattstjóra, dags. 26. febrúar 1986 og 30. apríl 1986.

Með bréfi, dags. 30. júní 1986, gerir ríkisskattstjóri þær kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Skattstjóri hefur með breytingum sínum lækkað gjaldfærðan bifreiðakostnað vegna bifreiðar þeirrar, sem í málinu greinir úr 150.308 kr. í 80.730 kr. Af kærunni til ríkisskattanefndar verður eigi ráðið, að ágreiningur sé lengur um þetta. Þar er einungis þeim breytingum skattstjóra mótmælt, sem leiddu af því, að hann taldi margnefnda bifreið kæranda eigi fyrnanlega eign skv. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þegar litið er til þeirrar starfsemi, sem kærandi hefur með höndum, og þarfar slíks rekstrar almennt fyrir slíka bifreið, sem hér um ræðir, verður að ætla, að bifreiðin sé að verulegu leyti notuð til einkaþarfa kæranda. Er því á það fallist með skattstjóra, að eigi geti hér verið um fyrnanlega eign að ræða eftir 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra því staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja