Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 736/1986

Gjaldár 1985—1986

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. A-liður 9. tl. —106. gr. 2. mgr.  

Starfslok — Starfslokafrádráttur — Álag vegna vantalins skattstofns

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í reiti 36 í skattframtölum sínum árin 1985 og 1986 frádrátt skv. 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, 292.216 kr. á framtali árið 1985 og 387.100 kr. á framtali árið 1986. Skattframtölunum fylgdi sérstök yfirlýsing og greinargerð vegna frádráttar þessa R3.08.

Skattstjóri felldi þessa frádráttarliði niður. Forsendur skattstjóra voru þær, að kærandi hefði ekki látið af störfum á þeim tíma, er skipti máli í þessu sambandi. Væri því meginskilyrði fyrir frádráttarheimild þessari því eigi uppfyllt. Í þessum efnum breytti engu ákvæði 2. mgr. 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 þess efnis, að réttur til þessa frádráttar kæmi ekki til greina nema einu sinni fyrir hvern mann. Þá bætti skattstjóri 25% álagi á vantalinn skattstofn vegna þessa gjaldárið 1985 skv. heimildarákvæðum 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Kæruúrskurðir skattstjóra vegna ágreiningsefnisins eru dagsettir 12. nóvember 1986.

Þessum kæruúrskurðum hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. nóvember 1986. Því er borið við, „að frádráttarheimildin væri gild fyrir starfslok, án þess að til þurfi að koma skuldbinding um að hætta störfum, breyta um störf, taka upp hlutastarf eða þiggja aðrar greiðslur. Því væri hér um að ræða notkun heimildar, sem ella félli undir 66. gr. laganna, enda væri það ákvæði allmikið notað af framteljendum athugasemdalaust. Er þess því krafist, að fyrrnefndur frádráttur verði tekinn til greina. Þá hefur af hálfu kæranda verið gerð frekari grein fyrir kröfum hans með bréfi, dags. 15. desember 1986. Þar kemur m.a. fram sú þrautavarakrafa, að álag verði niður fellt.

Með bréfi, dags. 9. desember 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Málsmeðferð og úrskurður skattstjóra er í samræmi við verklagsreglur er ríkisskattstjóri hefur sett skattstjórum varðandi frádrátt vegna starfsloka. Hljóðar sá kafli þeirra er hér skiptir máli þannig:

„Komi síðar í ljós að framteljandi, sem notað hefur frádráttarheimild þessa að eigin ósk, lætur ekki í reynd af aðalstarfi sínu eða stöðu á viðkomandi ári skal taka framtal (framtöl) hans til endurskoðunar og krefja hann skýringa í samræmi við 96. gr. skattalaganna. Þyki skriflegar skýringar hans við fyrirspurn skattstjóra ekki fullnægjandi skal fella frádrátt þennan niður og jafnframt beita álagi skv. ákvæðum 106. gr. skattalaganna á fjárhæð þá er veitt hafði verið til frádráttar.

Fram skal tekið að í kæru til ríkisskattanefndar koma engar nýjar upplýsingar fram.

Kærandi dró frá tekjum sínum á skattframtölum árin 1985 og 1986 tekjur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er hann hafði aflað á tímabilinu 1. júlí 1984 til 30. júní 1985, og byggði frádrátt þennan á 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. nefndra laga. Skv. gögnum málsins var hér eigi um að ræða tekjur er kærandi aflaði á síðustu tólf starfsmánuðum sínum, áður en hann lét af störfum vegna aldurs og er það raunar viðurkennt af kæranda hálfu í málinu. Hann hefur því eigi uppfyllt lagaskilyrði fyrir frádrætti þessum. Þykir því bera að staðfesta kæruúrskurði skattstjóra þó þannig, að eftir atvikum þykir mega fella álag niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja