Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 763/1986

Gjaldár 1985

Reglugerð nr. 81/1962 — 8. gr. 1. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. og B-liður — 53. gr. — 74. gr. 4. tl. — 100. gr. 5. mgr.   Lög nr. 73/1980 — 36. gr. — 37. gr. — 40. gr.  

Bifreiðaviðskipti — Atvinnurekstur — Reiknað endurgjald — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Vörunotkun — Endurmat — Vörubirgðir — Verðbreytingarfærsla — Lögheimilissveitarfélag — Skattlagningarstaður — Aðstöðugjaldsskylda — Heimilisföst atvinnustofnun — Kæruheimild sveitarfélags — Kæruheimild ríkisskattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kærufrestur — Skattumdæmi

Kærandi stundaði viðskipti með notaðar bifreiðar. Skattframtali hans árið 1985 fylgdi ársreikningur vegna þessarar starfsemi ásamt yfirliti yfir keyptar og seldar bifreiðar árið 1984. Reiknaði kærandi sér endurgjald vegna vinnu við þessa starfsemi, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skv. framtalsgögnum hafði kærandi gert ráð fyrir því, að aðstöðugjaldsstofn myndaðist af sölukostnaði og reiknuðum launaskatti en ekki virðist hafa fylgt framtalinu sú sérstaka greinargerð um aðstöðugjaldsstofn, sem um ræðir í 4. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Við frumálagningu gjaldárið 1985 var aðstöðugjald álagt samkvæmt þessu og nam það 2.520 kr. í rekstrarreikningi þeim, sem fylgdi skattframtalinu var bifreiðavelta kæranda ekki færð heldur tekjufærður nettósöluhagnaður vegna sölu bifreiða samkvæmt því yfirliti, sem fylgdi yfir keyptar og seldar bifreiðar árið 1984.

Með bréfi, dags. 12. mars 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að taka skattframtal hans árið 1985 til endurálagningar. Taldi skattstjóri rekstrarreikning kæranda rangt gerðan með tilliti til fyrirliggjandi gagna og eðlis starfsemi hans. Í bréfinu sýndi skattstjóri þann frágang rekstrarreiknings, sem hann taldi bera að byggja á, þar sem m.a. kom fram vörunotkun, þ.e.a.s. bifreiðavelta kæranda í þessari starfsemi hans, auk frekari leiðréttinga. Skv. þessu boðaði skattstjóri kæranda, að hreinar tekjur hans í reit 62 í skattframtali yrðu hækkaðar úr 13.490 kr. í 21.794 kr. og aðstöðugjaldsstofn úr 194.206 kr. í 4.065.156 kr. Gefinn var 21 dags frestur til athugasemda og andsvara. Í svarbréfi kæranda, dags. 29. mars 1986, mótmælti hann því, að litið yrði á keyptar bifreiðar sem vörukaup, þar eð ekki væri um eiginlegan atvinnurekstur að tefla. Þá var m.a. mótmælt niðurfellingu endurmatshækkunar keyptra bifreiða á árinu 1983 58.784 kr. Skattstjóri tilkynnti kæranda hinn 8. apríl 1986, að skattframtal hans árið 1985 hefði verið tekið til endurákvörðunar og gjöld hækkuð frá því sem ákveðið hefði verið við frumálagningu. Ekki væri fallist á sjónarmið kæranda varðandi ákvörðun aðstöðugjaldsstofns, enda hefði komið fram, að starfsemi kæranda væri fólgin í því að kaupa og selja bifreiðar fyrir eigin reikning og ekki um umboðssölu að ræða. Væri aðstöðugjaldsstofn því ákveðinn samkvæmt 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Þá væri ekki fallist á kröfu kæranda um endurmatshækkun bifreiðaeignar, enda væri litið á slíka eign sem vörubirgðir, er telja bæri til eignar á kostnaðarverði í lok reikningsárs skv. 4. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar taldi skattstjóri efni til þess að reikna kæranda verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981. Skv. þeim útreikningi færði skattstjóri kæranda til gjalda 25.653 kr., þ.e.a.s. gjaldfærslu vegna verðbreytinga. Við þetta varð tap á rekstri 3.859 kr. í stað hreinna tekna 21.794 kr.

Í kæru, dags. 2. maí 1986, bar kærandi nú fyrir sig, að hann hefði ekki haft neina starfsemi í heimilissveit sinni, Blönduósi, á árinu 1984, og ætti Blönduóshreppur því enga aðstöðugjaldskröfu á hendur honum heldur Reykjavík. Að öðru leyti vísaði kærandi til bréfs síns, dags. 29. mars 1986, og tók jafnframt fram, að í söluverði notaðra bifreiða væri ekki gert ráð fyrir að greiða þyrfti aðstöðugjald af kaupverði þeirra. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með úrskurði, dags. 8. maí 1986. Ekki féllst skattstjóri á sjónarmið kæranda varðandi ákvörðun aðstöðugjaldsstofns, enda hefði hann verið ákveðinn með tilliti til málsgagna og samkvæmt 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Þá benti skattstjóri m.a. á umfang starfsemi kæranda. Hann hefði á árinu 1984 keypt og selt á þriðja tug bifreiða og hefði kaupverð alls numið 4.277.000 kr. en söluverð 4.655.000 kr. Skattstjóri taldi hins vegar þá kröfu kæranda á rökum reista, að hann væri ekki aðstöðugjaldsskyldur í Blönduóshreppi heldur í Reykjavík og tók fram, að skattstjóranum í því skattumdæmi hefði verið send tilkynning hér að lútandi, sbr. niðurlagsákvæði 40. gr. laga nr. 73/1980. í málinu liggur fyrir afrit þessarar tilkynningar skattstjóra, dags. 8. maí 1986.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. júní 1986. Fer kærandi þess á leit, að kæran fái efnismeðferð, þótt hún kunni að berast að liðnum kærufresti, en sitthvað valdi því, svo sem fjarvera og nýtt heimilisfang. Efniskrafa kæranda er sú, að bifreiðakaup verði ekki látin mynda aðstöðugjaldsstofn með skírskotun til röksemda og skýringa kæranda, sem fram hafi komið við meðferð málsins á skattstjórastigi.

Með bréfi, dags. 4. desember 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún virðist of seint fram komin.

Telji ríkisskattanefnd að taka eigi kæruna til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir ofangreindan meintan formgalla, er óskað eftir að málið verði sent ríkisskattstjóra til endurumsagnar.

Kæruna þykir bera að taka til efnismeðferðar. Er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið, en telja verður, að af hans hálfu liggi fyrir kröfugerð skv. 5. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lokamálsgrein þessarar lagagreinar. Skattstjóri hefur talið, að ákvæði 40. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, tækju til þeirrar starfsemi kæranda, sem í málinu greinir, og aðstöðugjald kæranda ætti að leggjast til Reykjavíkur, en lögheimilissveit kæranda tekjuárið 1984 var Blönduóshreppur. Í samræmi við þessa niðurstöðu sína hefur skattstjóri sent skattstjóranum í Reykjavík upplýsingar um aðstöðugjaldsstofn kæranda skv. lokamálslið 2. mgr. 40. gr. laga nr. 73/1980. Af hendi kæranda lágu eigi fyrir slíkar greinargerðir um þetta, sem kveðið er á um í 2. mgr. 40. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 81/1962, um aðstöðugjald. Hefur skattstjórinn í Reykjavík ákvarðað kæranda aðstöðugjald þar gjaldárið 1985. Eins og mál þetta liggur fyrir þykja eigi efni til þess að taka afstöðu til þessa þáttar, enda hafa hvorki Blönduóshreppur né ríkisskattstjóri neytt þeirra kæruheimilda, sem þessir aðilar hafa samkvæmt lögum. Að því er varðar þá ákvörðun á aðstöðugjaldsstofni, sem í málinu greinir, og kærandi sættir sig eigi við, þá þykir að virtum öllum málavöxtum bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans um þetta atriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja