Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 764/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 91. gr. — 93. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml.  

Skattframtal ófullnægjandi — Framtalsfrestur — Áætlun — Fylgigögn skattframtals — Skattumdæmi — Skattlagningarstaður — Frávísun — Vanreifun — Undirritun skattframtals — Undirritun ársreiknings — Skattframtal, síðbúið — Framtal í stað áætlunar — HRD. ár 1966 bls. 907

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum. Þann 25. júní 1985 móttók skattstjórinn í Reykjavík skattframtal kærenda árið 1985 og er það dagsett 21. maí 1984 (sic). Það framtal var sent skattstjóra Reykjanesumdæmis, þ.e. í skattumdæmi kæranda. Var framtalið tekið sem skattkæra. Þá barst skattstjóra kæra frá kærendum dags. 21. ágúst 1985 þar sem fram var tekið að „Fullkomið framtal í stað áður innsends bráðabirgðaframtals mun verða sent innan tíðar. Áður en skattstjóri úrskurðaði kæru kærenda reit hann þeim bréf dags. 10. október 1985 og skoraði á þá að láta í té tiltekin gögn og upplýsingar varðandi framtal þeirra árið 1985. Bréfinu var svarað með bréfi dags. 25. október 1985 og óskað eftir frekari fresti til að koma að gögnum og skýringum. Ekkert svar barst frá kærendum og þann 21. nóvember 1985 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í málinu. Vísaði hann kærunni frá vegna vanreifunar að því er eiginmann varðaði en féllst á að leggja framtal eiginkonu til grundvallar nýrri álagningu gjalda á hana nefnt gjaldár.

Kærandi, eiginmaður, skaut úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. desember 1985. Krefst hann þess að álögðum gjöldum gjaldárið 1985 verði breytt „í samræmi við skattframtal mitt og fylgigögn, en þau munu vera hjá skattstjóra Reykjanesumdæmis.

Með bréfi dags. 1. ágúst 1986 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Ríkisskattstjóri gerir kröfu um að álagning opinberra gjalda standi óbreytt.

Í kæru, dags. 19. des. 1985, er talið að skattframtal kæranda ásamt fylgigögnum séu hjá skattstjóra Reykjanesumdæmis. Svo er þó ekki skv. þeim upplýsingum er ríkisskattstjóri hefur aflað. Hinn 18. júní 1986 barst ríkisskattstjóra í pósti skattframtal kæranda ásamt fylgiskjölum. Ekkert bréf fylgdi gögnunum. Undirritun skattframtalsins er eftirfarandi: „F.H.A. Guðm. Bj. S..." Ekki er ársreikningurinn undirritaður né nein þau fylgigögn er fylgja framtalinu. Með vísan til 2. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981 svo og hrd. 1966:907 gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að álagning opinberra gjalda á kæranda standi óbreytt.

Með bréfi dags. 11. september 1986 veitti ríkisskattanefnd kæranda færi á að gera athugasemdir við þau atriði í kröfugerð ríkisskattstjóra sem hann teldi ástæðu til. Ekkert svar hefur borist frá kæranda.

Svo sem kærumál þetta liggur fyrir þykir verða að vísa því frá ríkisskattanefnd að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja