Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 765/1986

Gjaldár 1985

Skattmat ríkisskattstjóra framtalsárið 1985 liður 3.2.2.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 2. tl. — 96. gr. — 99. gr. — 100. gr. 1. mgr.  

Dagpeningar — Námsferð — Þjálfunar og eftirlitsstörf — Námsfrádráttur — Frádráttur á móti dagpeningum — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Leiðbeiningar ríkisskattstjóra — Ferðalög erlendis — Munnlegar upplýsingar — Málsmeðferð áfátt — Kæranleg skattákvörðun — Frávísun

Málavextir eru þeir, að skv. launauppgjöf launagreiðanda fékk kærandi dagpeninga að fjárhæð 107.934 kr., er hann færði sér til tekna í reit 23 í skattframtali árið 1985. Jafnháa fjárhæð færði hann til frádráttar í reit 33. Eftir gögnum málsins hefur skattstjóri aflað sér upplýsinga um þetta m.a. hjá kæranda. Kom fram, að dagpeningar þessir voru greiddir af vinnuveitanda vegna tveggja námsferða til Danmerkur árið 1984, 2 vikur í hvort skipti og að auki ferðalög fyrir og eftir. Næmi greiðslutímabil 32 dögum alls og fjárhæð dagpeninga verið miðuð við HOSDR pr. dag.

Í bréfi skattstjóra, dags. 22. janúar 1986, til kæranda var boðað, að frádráttur á móti dagpeningum yrði lækkaður úr 107.934 kr. í 66.057 kr. í samræmi við leiðbeiningar og verklagsreglur ríkisskattstjóra væri við það miðað, að frádráttur samsvaraði 67 SDR á dag vegna þjálfunar- og eftirlitsstarfa. Bæri að miða frádrátt við 32 daga og reiknað með gengi á SDR 30,81 kr. Með bréfi, dags. 21. febrúar 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinnar boðuðu breytingar, sbr. og skattbreytingaseðil, dags. sama dag.

Í kæru til skattstjóra, dags. 21. mars 1986, mótmælti kærandi þessari breytingu og taldi sig sæta annarri meðferð varðandi skattlagningu dagpeninga en aðrir, sem hliðstæðar greiðslur hefðu fengið hjá sama vinnuveitanda.

Skattstjóri úrskurðaði um kæruna hinn 18. apríl 1986 og hafnaði kröfu kæranda. Tók skattstjóri fram, að hér virtist um skattskyldar tekjur að ræða skv. ákvæðum 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, miðað við framkomnar upplýsingar. Hins vegar virtist ljóst, að kærandi hefði sjálfur borið kostnað af uppihaldi erlendis vegna starfsþjálfunar þessarar. Þætti því rétt að miða frádrátt við mat ríkisskattstjóra á frádrætti vegna þjálfunar og eftirlitsstarfa, sbr. bls. 20—21 í leiðbeiningum vegna útfyllingar skattframtals árið 1985, fremur en kennslustundafjölda í hlutfalli af 624 kennslustundum, sem fullur námsfrádráttur miðaðist við, ef um óreglulegt nám væri að ræða, sbr. bls. 14 í leiðbeiningunum. Virtist í tilviki kæranda einkum vera um námskeið í starfsþjálfun að ræða. Í kæru kæmu ekki fram nein rök fyrir því, að frádráttur á móti dagpeningum væri rangt ákvarðaður eða umræddar tekjur ekki skattskyldar. Útreikningur frádráttar virtist réttur.

Með kæru, dags. 16. maí 1986, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Kemur fram af hálfu kæranda, að dagpeningar hans hafi ekki verið ofreiknaðir af hálfu vinnuveitanda. Hann hafi verið sendur af vinnuveitanda til Danmerkur til náms og verklegrar þjálfunar. Ferðir til og frá skóla og annan kostnað hafi hann borið sjálfur. Þá er svofelld athugasemd í kærunni: „Söluhagnað af K. [íbúð] vil ég láta kanna hvort hann sé lagður á mig allur eingöngu eða skipt á milli mín og fyrrverandi konu. Ef hann er réttur hef ég ekkert við hann að athuga.

Með bréfi, dags. 4. desember 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Skattstjóri hefur ákvarðað frádrátt kæranda á móti dagpeningum eftir matsreglum ríkisskattstjóra, sbr. b.lið 3.2.2. í skattmati ríkisskattstjóra framtalsárið 1985, útg. 8. janúar 1985, en í þessum staflið er metinn frádráttur vegna þjálfunar og eftirlitsstarfa. Dagpeningar kæranda virðast hins vegar hafa verið miðaðir við fjárhæð í a.lið nefnds töluliðs skattmatsins, þ.e. vegna ferðalaga erlendis. Skv. gögnum málsins tók kærandi þátt í námskeiðum í „ströggamspinding í Vejle í Danmörku á vegum vinnuveitanda síns á tímabilinu 16/1 1984 til 9/3 1984 og voru honum greiddir dagpeningar af þessu tilefni. Þegar litið er til þess, sem upplýst er í málinu þ.á m. nokkurra skýringa kæranda sjálfs, verður eigi annað séð en skattstjóri hafi með ákvörðun sinni á fjárhæð frádráttar, er hann byggði á matsreglum ríkisskattstjóra, tekið tillit til þess kostnaðar, sem ætla má að fallið hafi á kæranda. Það er við meðferð skattstjóra að athuga, að hann hefur byggt á munnlegum skýringum kæranda, sem eigi var rétt, sbr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi verður annað ráðið af málsgögnum en meðferð söluhagnaðar þess, sem kærandi reifar í kæru til ríkisskattanefndar, sé enn á skattstjórastigi, sbr. bréf skattstjóra, dags. 13. desember 1985 og 22. janúar 1986, og svarbréf kæranda til skattstjóra, dags. 3. febrúar 1986. Er þessu kæruatriði því vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja