Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 12/1987

Gjaldár 1983,1984 og 1985

Lög nr. 75/1981 — 53 gr. 4. mgr.  

Sameignarfélag — Sjálfstæður skattaðili — Rekstraraðild, breyting — Eignaraðili að sameignarfélagi — Ófullkomin framtalsgögn — Verðbreytingarfærsla — Inneign eignaraðila í sameignarfélagi

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1983 og ákvörðun yfirfæranlegs rekstrartaps gjaldárin 1984 og 1985.

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 27. nóvember 1985 að undangengnum bréfaskiptum, tók skattstjóri fyrir að endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1983 og rekstrartöp gjaldárin 1984 og 1985 vegna hækkunar á tekjufærslu vegna verðbreytinga. Tók skattstjóri fram, að við ákvörðun stofns til verðbreytingarfærslu, sbr. fylgiskjöl með skattframtölum umrædd ár, hefði kærandi ekki tekið með skuld við A. Benti skattstjóri og á, að með því að reikna til gjalda vexti af skuld þessari og draga hana einnig frá skuldum við ákvörðun verðbreytingarfærslu, væri reiknaður tvöfaldur frádráttur vegna skuldarinnar. Um breytingar skattstofna sökum þessa segir svo í nefndri endurákvörðun skattstjóra:

„Á framtali 1983 hækkar tekjufærsla um kr. 967.311 x 53.78% = kr. 520.220, á framtali 1984 um kr. 1.056.689 x 71.67% = kr. 757.329, á framtali 1985 um kr. 1.094.421 x 26.72% = kr. 292.429. Gjaldbreyting er aðeins á árinu 1983, en á árunum 1984 og 1985 er lækkun á rekstrartöpum. Á framtali 1985 verður yfirfæranlegt tap til næsta árs kr. 1.688.359.

Þessum breytingum skattstjóra var mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda með kæru, dags. 3. desember 1985. Þess var krafist aðallega, að breytingamar yrðu með öllu felldar niður. Var vísað til 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem fram kæmi, að inneignir félagsaðila sameignarfélaga teldust ekki til skulda við útreikning verðbreytingarfærslu. í kærunni segir svo: „Umboðsmanni kæranda virðist sem skattyfirvöld hafi ekki ætíð haft það að leiðarljósi að miða gerðir sínar við hugsanlega tilætlan skattalaga, heldur öllu fremur unnið eftir beinum lagabókstöfum. — í 53. gr. skattalaga eru ekki nein frávik frá því að inneignir eignaraðila sameignarfélaga teljist ekki til skulda, og mætti ætla að lagahöfundar hefðu átt að gera sér grein fyrir jafn þýðingarmiklu fráviki og því er varðar vaxtareikning frá eignaraðilum. — Auk þess koma upp spurningar um við hvaða vexti á að miða, hluti inneignar getur verið vaxtalaus og annar hluti með hávöxtum og framv. Til vara var þess krafist, að verðbreytingarfærsla yrði ekki reiknuð á inneignir eignaraðila á framtölum 1983 og 1984, enda hefðu vextir ekki verið reiknaðir á inneign A. hjá kæranda árin 1981 og 1982.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 29. janúar 1986, og hafnaði kröfum kæranda, bæði aðalkröfu og varakröfu. Vísaði skattstjóri til verklagsreglna ríkisskattstjóra, dags. 16. desember 1985, varðandi túlkun á 2. og 4. málslið 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. í 2. tl. þessara verklagsreglna segði m.a. svo: „Þegar viðskipti eiga sér stað á milli sameignarfélaga og eignaraðila þess skal þó taka með í útreikningi á stofni til verðbreytingarfærslu og eignarskatts inneign og skuld, sem rekja má til slíkra viðskipta, s.s. á þjónustu eða framleiðslu félagsins eða á eignum sem nota á eða hafa verið notaðar hjá sameignarfélaginu. Kæmi fram í skattframtali kæranda árið 1982, að umrædd skuld hefði myndast við yfirtöku kæranda á eignum A. og því væri talið augljóst, að ofanrituð tilvitnun ætti við um nefnda skuld. Skattstjóri tók fram varðandi varakröfu kæranda, að skv. þessari túlkun ríkisskattstjóra á meðferð viðskiptaskulda væri ekki talið skipta máli, hvort gjaldfærðir væru vextir af skuldinni eða ekki.

Með kæru, dags. 20. febrúar 1986, hefur umboðsmaður kæranda skotið fyrrnefndum kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er þess krafist aðallega, að breytingar skattstjóra á verðbreytingarskýrslum gjaldárin 1983 — 1985 verði felldar niður. Til vara er þess krafist, að kæranda verði heimilað að nýta sér fyrningu skv. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Tekið er fram, að skattstjóri hafi bætt skuldum eignaraðila við aðrar skuldir til stofns til verðbreytingarfærslu. í 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 komi greinilega fram, að inneignir eignaraðila teljist ekki til skulda við útreikning verðbreytingarfærslu, og engin frávik séu leyfð frá þessu í lagagreininni. Gangi gildandi lög fyrir verklagsreglum ríkisskattstjóra. Ákvæði laganna séu skýr og ótvíræð og þeim hafi ekki verið breytt. Þá er af hálfu umboðsmanns kæranda bent á, að upphafleg rök skattstjóra fyrir breytingunni séu ekki talin skipta máli í verklagsreglum ríkisskattstjóra. Ekki sé því hægt að segja, að fyrrnefnd vinnuregla sé staðfesting á vissri hefð eða uppgjörsaðferð.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur að því er niðurstöðu varðar. Ekki er fallist á að skuld S. sf. (kæranda) við A. geti talist „inneign eignaraðila í skilningi 2. ml. 4. mgr. 53. gr. skattalaganna. Um er að ræða skuld til langs tíma sem myndast við það að S. sf. kaupa eignir til notkunar við atvinnurekstur af nefndum A. á árinu 1981. Verður ekki annað séð en að skuld þessi sé óháð eignaraðild A. að S. s.f., sem reyndar er engin í lok árs 1981, sbr. skattframtal S. s.f. 1982 og óútskýrt er hvernig eignaraðild A. sem skattframtal S. sf. 1984 sýnir er til komin.

Kærandi, sem er sameignarfélag og sjálfstæður skattaðili, var stofnaður í árslok 1980, sbr. tilkynningu til firmaskrár Akureyrar, dags. 31. desember 1980, er birtist í Lögbirtingablaði útgefnu 13. febrúar 1981, 15. tbl. 1981. Meðal félagsmanna í sameignarfélagi þessu er A. Svo sem fram kemur í skattframtali kæranda árið 1982, sbr. og kæruúrskurð skattstjóra og kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu, yfirtók kærandi tilgreindan rekstur A. hinn 1. janúar 1981, og hefur skuld kæranda við A. sprottið af þessari ráðstöfun. Eftir öllum atvikum þykir verða að byggja á því, að nefndur A. hafi verið eignaraðili að kæranda þegar frá stofnun hans þrátt fyrir þann óskýrleika framtalsgagna um þetta atriði, sem minnst er á í kröfugerð ríkisskattstjóra. Með skírskotun til ótvíræðs ákvæðis 2. ml. 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að taka aðalkröfu kæranda í máli þessu til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja