Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Veiðileiga
  • Málskostnaður

Úrskurður nr. 327/2015

Gjaldár 2011, 2012 og 2013

Lög nr. 90/2003, 7. gr. B-liður og C-liður 2. tölul.   Lög nr. 30/1992, 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr.)   Starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar.  

Í máli þessu var deilt um það hvort telja bæri veiðileigutekjur kæranda af jörð hans til tekna af atvinnurekstri, svo sem ríkisskattstjóri taldi, eða til fjármagnstekna (eignatekna) utan rekstrar, eins og kærandi hélt fram. Fyrir lá að kærandi stundaði ekki búrekstur á jörðinni og greindar veiðileigutekjur voru einu tekjur hans af jörðinni. Var því fallist á með kæranda að um væri að ræða fjármagnstekjur hans utan rekstrar og var ekki talið geta breytt þeirri niðurstöðu þótt annar aðili, þ.e. tilgreint einkahlutafélag, hefði með höndum búrekstur á jörðinni. Málskostnaðarkröfu kæranda var hafnað þar sem hann hafði ekki lagt fram nein gögn um útlagðan kostnað vegna meðferðar málsins.

I.

Með kæru, dags. 3. mars 2015, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. desember 2014, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2011, 2012 og 2013. Með úrskurði þessum færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna sem tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtölum hans umrædd ár leigutekjur frá Veiðifélagi G að fjárhæð 508.300 kr. gjaldárið 2011, 553.150 kr. gjaldárið 2012 og 514.313 kr. gjaldárið 2013, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá felldi ríkisskattstjóri niður tilfærðar leigutekjur af útleigu eigna í reit 511 í skattframtölum kæranda umrædd ár er námu fyrrgreindum fjárhæðum. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 4. desember 2014, var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum milli ríkisskattstjóra og kæranda, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 22. ágúst, 8. október og 2. desember 2013, og svarbréf kæranda, dags. 17. október 2003 og 20. janúar 2014, og boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 13. mars 2014, og svarbréf kæranda, dags. 25. sama mánaðar. Forsendur ríkisskattstjóra fyrir hinum umdeildu breytingum á skattframtölum kæranda árin 2011, 2012 og 2013 voru þær að leigugreiðslur frá Veiðifélagi G væru tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi í skilningi B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Benti ríkisskattstjóri á að greindar tekjur hefðu myndast vegna eignarhlutar kæranda í jörðinni X sem væri nýtt til atvinnurekstrar af F ehf. Meginregla fjármagnstekjuskatts væri sú að skatturinn væri eingöngu lagður á tekjur utan atvinnurekstrar. Yrði ekki talið að um fjármagnstekjur væri að ræða sem skattleggja bæri samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 heldur greiðslur sem féllu undir atvinnurekstur, sbr. B-lið 7. gr. laganna, og skattleggja bæri sem slíkar, sbr. 1. mgr. 66. gr. þeirra.

II.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi eigi helmingshlut í jörðinni X og hafi eitt sinn stundað búrekstur á jörðinni, en látið af rekstrinum fyrir áratug. F ehf. stundi nú búrekstur á jörðinni, en sá rekstur sé kæranda óviðkomandi. Hafi kærandi selt hlut sinn í einkahlutafélaginu þegar hann lét af búrekstri. Jörðinni fylgi veiðiréttur [...] og hafi þau eignarréttindi ekki verið framseld F ehf. og tengist ekki búrekstri félagsins. Hafi kærandi talið arðgreiðslur frá Veiðifélagi G fram til skatts sem tekjur utan rekstrar, þ.e. fjármagnstekjur.

Fram kemur í kærunni að aðalkrafa kæranda sé byggð á því að ríkisskattstjóri hafi enga afstöðu tekið til fram kominna andmæla kæranda í hinum kærða úrskurði sínum og þannig brotið gegn málsmeðferðarreglum, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé krafan byggð á efnislegum rökum þar sem kærandi stundi ekki neinn atvinnurekstur á jörðinni X. Yfirskattanefnd hafi í úrskurðum sínum allt frá árinu 1999 talið að skattleggja beri veiðileigutekjur af jörðum sem fjármagnstekjur utan rekstrar þegar um sé að ræða einstaklinga sem ekki stundi búrekstur á jörðinni, sbr. t.d. úrskurði nr. 566 og 568/1999. Engar lagabreytingar hafi orðið frá þeim tíma sem haft gætu áhrif á réttarstöðu að þessu leyti. Þvert á móti hafi á tímabili á árunum 2007-2009 verið kveðið á um slíka skattalega meðferð veiðileigutekna í 30. gr. laga nr. 90/2003, sbr. lög nr. 76/2007 sem breytt hafi 30. gr. og 3. mgr. 66. gr. hinna fyrrnefndu laga. Með lögum nr. 76/2007 hafi verið mælt fyrir um að skattleggja bæri arðgreiðslur úr veiðifélögum hjá einstaklingum, sem hefðu með höndum búrekstur eða annan rekstur á jörð sinni, sem fjármagnstekjur utan rekstrar. Tilgangur þessara breytinga hafi verið að koma í veg fyrir mismunun við skattlagningu slíkra tekna, m.a. vegna sérstöðu veiðifélaga. Með lögum nr. 128/2009 hafi þessi ákvæði verið felld úr gildi og verið bent á að skattlagning tekna úr veiðifélögum sem fjármagnstekna hafi reynst óhagfelld fyrir einhverja þá sem stunduðu atvinnurekstur. Með þeirri breytingu hafi þó engan veginn verið stefnt að almennri skattlagningu á tekjur af umræddum toga sem atvinnurekstrartekjum. Þá er vísað til úrskurða yfirskattanefndar nr. 4/2005, 546/2012 og 261/2014 í kærunni og tekið fram að samkvæmt öllu framangreindu verði að líta svo á að greiðslur kæranda frá Veiðifélagi G teljist til tekna samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 sem skattleggja skuli sem eignatekjur utan rekstrar, þ.e. fjármagnstekjur, sbr. 3. mgr. 66. gr. sömu laga.

III.

Með bréfi, dags. 13. apríl 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. apríl 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 5. maí 2015, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum og ítrekað áður fram komnar kröfur og röksemdir.

IV.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort telja beri tekjur kæranda af veiðirétti [...], sem fylgir eignarjörð hans til tekna af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi í merkingu B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða hvort um sé að ræða eignatekjur samkvæmt 2. tölul. C-liðar sömu lagagreinar sem skattleggja beri sem fjármagnstekjur utan rekstrar samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, svo sem kærandi byggði á í skattskilum sínum gjaldárin 2011, 2012 og 2013. Í 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að til skattskyldra tekna teljist arður, landskuld og leiga eftir hvers konar fasteignir og fasteignaréttindi, þar með talin námaréttindi, vatnsréttindi, jarðvarmaréttindi, veiðiréttur og hvers konar önnur fasteignatengd hlunnindi. Ríkisskattstjóri taldi að virða bæri veiðileigutekjurnar sem atvinnurekstrartekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, enda tengdust þær jörð sem nýtt hefði verið til atvinnurekstrar. Færði ríkisskattstjóri kæranda tekjur þessar að fjárhæð 508.300 kr. gjaldárið 2011, 553.150 kr. gjaldárið 2012 og 514.313 kr. gjaldárið 2013 til tekna sem hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtölum kæranda umrædd ár jafnframt því að fella þær niður úr reit 511 í skattframtölunum. Af hálfu kæranda er einkum byggt á því að hann stundi engan búskap á jörðinni og hafi engar nytjar af henni aðrar en umræddar tekjur af veiðiréttinum.

Samkvæmt gögnum málsins og skýringum kæranda stundar hann ekki búrekstur á eignarjörð sinni og fyrir liggur að umræddar veiðileigutekjur eru einu tekjur kæranda af jörðinni. Að því virtu verður ekki talið að tekjur þessar stafi af atvinnurekstri í merkingu B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, heldur sé um að ræða tekjur samkvæmt 2. tölul. C-liðar sömu lagagreinar, sbr. og úrskurðaframkvæmd er m.a. kemur fram í úrskurðum yfirskattanefndar nr. 438/1992, 496/1996, 566/1999 og 335/2000. Getur ekki leitt til annarrar niðurstöðu í því sambandi þótt annar aðili, þ.e. F ehf., hafi með höndum búrekstur á jörðinni. Samkvæmt þessu ber að ákvarða tekjuskatt kæranda af umræddum tekjum eftir 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003. Er því fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað hans vegna meðferðar málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. mars 2015, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.


Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinar kærðu breytingar ríkisskattstjóra á skattframtölum kæranda eru felldar úr gildi. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja