Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 29/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 7 gr. A-liður 1. tl. — 30 gr. 1. mgr. A-liður 3. tl.  

Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Lögskýring — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Matsreglur ríkisskattstjóra — Sönnun — Vanreifun — Frávísun

Málavextir eru þeir, að samkvæmt launauppgjöf frá vinnuveitanda, X. h.f., fékk kærandi greiðslu fyrir bifreiðaafnot á árinu 1985 75.554 kr. Kærandi færði sér greiðslu þessa til tekna í reit 22 í skattframtali sínu árið 1986. Ekki færði kærandi til frádráttar neinn kostnað á móti ökutækjastyrk í reit 32 í skattframtalinu. Næst virðist það hafa gerst í málinu, að skattstjóri hefur hinn 8. ágúst 1986 móttekið yfirlýsingu X. h.f., dags. 20. janúar 1986, varðandi bifreiðastyrk félagsins til handa kæranda. Þar er staðfest, að kærandi þurfi á bifreið að halda í starfi sínu hjá félaginu og hefði það veitt honum bifreiðastyrk á árinu 1985 til þess að standa straum af þeim kostnaði. Þá hefur skattstjóri sama dag móttekið skýrslu kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1985. Engin grein var þar gerð fyrir ökutækjakostnaði. Gögn þessi hefur skattstjóri tekið sem kæru og kveðið upp kæruúrskurð hinn 7. nóvember 1986. í forsendum skattstjóra segir, að á framlagðri ökutækjaskýrslu sé engin grein gerð fyrir hlutaðeigandi ökutæki, akstri þess og rekstrarkostnaði. Með því að engin frekari rök hafi verið lögð fram skoðist krafa kæranda órökstudd og sæti því frávísun.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. nóvember 1986. Er þess krafist að til frádráttar á móti fengnum ökutækjastyrk komi samsvarandi fjárhæð sem kostnaður. Í kærunni segir svo:

„Ég rita yður f.h. og í umboði dóttur minnar til heimilis í Reykjavík. Efni kæru þessarar er eftirfarandi: Dóttir mín hefur starfað sem flugfreyja hjá X. h.f. nokkur undanfarin ár. Við gerð skattframtals 1986 varð henni á sú skyssa að telja ökutækjastyrk frá X. einungis teknamegin, en láðist að færa þar kostnað á móti. Jafnframt heldur hún því fram að skattframtali hennar hafi fylgt yfirlýsing frá launadeild X. h.f. um að hún þurfi á bifreið að halda í starfi sínu, og að félagið hafi greitt henni á árinu 1985 kr. 75.554 til að standa straum af þeim kostnaði. Starfsmenn Skattstofunnar í Reykjavík finna ekki slíkt plagg í fórum sínum og getur það hafa týnst eða hún gleymt að leggja það með framtali, hvorugt verður sannað.

Hitt stendur uppúr, að eftir kæru og útskýringar á málsatvikum fyrir skattstjóra liggur fyrir úrskurður hans, sem fylgir í ljósriti. Efni þessa úrskurðar er hér með áfrýjað til yðar.

Það skal tekið fram að dóttir mín á engan bíl og því felst kostnaður hennar í því að koma sér í og úr vinnu í akstri með leigubifreiðum.

Nótum fyrir akstur hefur hún ekki haldið saman, enda hefur skattstjóri á undanförnum árum látið duga yfirlýsingu vinnuveitandans, X., um greiddan ökutækjastyrk sem sönnun fyrir kostnaði. Svo mun einnig vera á þessu ári gagnvart öðrum starfsmönnum jafnsettum, einungis í þessu tilfelli er neitað um leiðréttingu á augljósum mistökum. Það er leitt að þurfa að leita til yðar út af svo einföldu og sjálfsögðu máli, en virðist því miður vera nauðsynlegt.

Með bréfi, dags. 19. janúar 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur að niðurstöðu til. Fyrir liggur að kærandinn átti ekki bifreið á árinu 1985. Tilgreindar greiðslur frá vinnuveitanda vegna afnota bifreiðar ber því að færa til tekna að því marki sem ekki hafa verið lagðar fram kvittanir vegna greiðslu bifreiðakostnaðar (leigubifr.) sem tengjast kostnaði á móti þessum greiðslum. Engar slíkar kvittanir hafa verið lagðar fram. Að svo stöddu máli verður því að gera kröfu um að kærunni sé synjað.

Fram skal tekið að við ákvörðun á tekjustofnum skv. skattframtali gjaldandans 1985 hefur greiðsla fyrir afnot bifreiðar, kr. 34.229, verið talin til tekna að fullu.

Kærandi þykir eigi geta stutt kröfu sína við 3. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Á hitt verður að líta, þegar atvik eru virt og aðstæður kæranda, að greiðsla vinnuveitanda kæranda verður eigi talin vera fyrir afnot af bifreið, þ.e.a.s. ökutækjastyrkur, og er launauppgjöf og greinargerð vinnuveitanda því áfátt að þessu leyti. Svo sem öllum atvikum er háttað þykir bera að virða greiðsluna til kæranda svo, að um sé að ræða endurgreiddan útlagðan kostnað vegna ferða kæranda í þágu vinnuveitanda. Eigi sýnist ágreiningur um, að starfi kærandi fylgi einhver slíkur kostnaður. Kærandi þykir hins vegar eigi hafa gert þá grein fyrir þessum kostnaði, að unnt sé að taka kröfu hans til greina að svo vöxnu. Þykir því verða að vísa kröfu hans frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja