Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 33/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 90. gr. 1. mgr.   Lög nr. 73/1980 — 22. gr. 2. mgr.  

Lögheimili — Skattlagningarstaður — Valdþurrð skattstjóra — Niðurfelling álagningar — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra

I.

Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 sættu kærendur áætlun skattstjóra Reykjanesumdæmis á skattstofnum að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Taldi þessi skattstjóri, að kærendur hefðu ekki skilað skattframtali innan tilskilins framtalsfrests þetta ár.

II.

Skattframtal kæranda, árið 1986, sem dagsett er hinn 8. mars 1986, barst skattstjóra Reykjanesumdæmis 3. júlí 1986 frá skattstjóranum í Reykjavík eftir því sem gögn málsins bera með sér. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð þann 7. nóvember 1986. Féllst hann á að byggja álagninguna á hinu innsenda skattframtali án álags en með nokkrum breytingum, sem eru kæruefnið í máli þessu. Skv. launauppgjöf, hafði kærandi, eiginmaður, fengið styrk frá X. 80.000 kr. Þessa styrkfjárhæð færði skattstjóri kæranda til tekna í reit T-6 í skattframtali hans.

Skattframtali kæranda hafði fylgt rekstrar- og efnahagsreikningur vegna sjálfstæðrar ráðgjafarstarfsemi að því er kom fram í framtalsgögnum. Tekjuhlið rekstrarreiknings nam samtals 288.917 kr. þar af námu stjórnarlaun í ýmsum félögum og stofnunum 213.675 kr. Gjaldahlið rekstrarreiknings nam alls 290.051 kr. þar af reiknað endurgjald kæranda sjálfs 45.000 kr. í hinum kærða úrskurði gerði skattstjóri þá breytingu, að hann færði umrædd stjórnarlaun 213.675 kr. í reit 21 á skattframtali með því að þau teldust ekki rekstrartekjur. Þá færði hann laun að fjárhæð 8.975 kr. frá Iðnþróunarsjóði af tekjuhlið rekstrarreiknings í reit 21 á skattframtali. Tekjur skv. rekstrarreikningi yrðu því 66.377 kr. Frádráttarbær rekstrargjöld á rekstrarreikningi væru áætluð 30.000 kr. og reiknað endurgjald 36.377 kr., þar sem ljóst væri, að mestur hluti rekstrarútgjalda væri færður á móti launatekjum.

III.

Með kæru, dags. 18. nóvember 1986, hefur kærandi, eiginmaður, skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Mótmælir hann ákvörðunum skattstjóra að því er varðar meðferð styrks frá X. 80.000 kr., færslu stjórnarlauna 213.675 kr. og launa 8.975 kr. frá Iðnþróunarsjóði af tekjuhlið rekstrarreiknings í reit 21 á framtali og lækkun rekstrarútgjalda á rekstrarreikningi um 215.051 kr. Kærandi kveður styrk frá X ekki hafa verið til frjálsrar ráðstöfunar. Hann hafi verið veittur til þess að standa straum af ferðakostnaði við tiltekna ferð á vísindalega ráðstefnu erlendis, þ.e.a.s. í Seattle í Bandaríkjunum um líffræði þorskfiskstofna í Norður-Kyrrahafi og Atlantshafi og mat á stofnstærð þeirra og aðferðir við stjórnun veiða. Styrkur þessi sé sambærilegur við ferðakostnað, sem fjölmörg fyrirtæki og stofnanir greiði fyrir starfsmenn sína við hliðstæð tækifæri. Gæti styrkveiting þessi með engu móti talist launatekjur. Þá sé ekki vitað til þess, að hliðstæðir styrkir X. hafi fyrr verið skattlagðir. Hluti styrksins 45.000 kr., sem samsvaraði um 9 daga dagpeningum, hafi verið færður í skattframtal í reit 23 til viðbótar við aðra dagpeninga, sem kærandi hafi fengið á árinu. Greiðslur fyrir farmiða 35.000 kr. hafi hins vegar ekki verið færðar á framtal vegna þess misskilnings kæranda, að slíkar greiðslur væru ekki framtalsskyldar. Þess er farið á leit, að þessari fjárhæð verði bætt við fjárhæð í reit 23 eða færa hana í reit 30, og til frádráttar í reit 33. Ýmis gögn leggur kærandi fram til stuðnings kröfu sinni um þennan þátt málsins. Þá gerir kærandi grein fyrir stjórnarlaunum. Af stjórnarlaunum frá A. 87.112 kr. hafi 55.503 kr. verið í raun greiðslur vegna sérfræðiaðstoðar við tölvuvæðingu stofnunarinnar svo sem yfirlýsing hennar, dags. 13. nóvember 1986, votti, en gagn þetta fylgdi kærunni. Stjórnarlaun alls séu því 158.172 kr. en ekki 213.675 kr. Þessi stjórnarlaun séu heildargreiðslur, sem m.a. sé ætlað að mæta útlögðum kostnaði kæranda vegna stjórnarstarfa. Sé það staðfest í yfirlýsingum greiðenda, en þau gögn fylgdu kærunni. Gerir kærandi nokkra grein fyrir útgjöldum í þessu sambandi, en það eru gjaldaliðir umrædds rekstrarreiknings. Rökstyður hann sérstaklega gjaldfærðan bifreiðakostnað með vísan til fyrirliggjandi rekstraryfirlits fólksbifreiðar R4.03., ferðakostnað, er sé aðallega vegna tveggja utanlandsferða, er sérstaklega eru útskýrðar og lögð fram kostnaðargögn, og fagbækur og tímarit. Þá er því haldið fram, að greiðsla frá Iðnþróunarsjóði 8.975 kr. sé verktakagreiðsla, en ekki laun, og því til stuðnings er lögð fram yfirlýsing sjóðsins, dags. 21. nóvember 1986.

Í kæru sinni ýja kærendur að því, að þeim hafi ekki gefist kostur á því að gæta réttar síns, áður en skattframtali þeirra var breytt þeim í óhag. Í bréfi, dags. 2. desember 1986, reifar umboðsmaður kærenda þetta atriði sérstaklega. Kemur þar fram, að kærendur hafi flutt lögheimili sitt úr Reykjavík og í B. í desemberbyrjun árið 1985. Þeir hefðu fengið skattframtal

1986 áritað í Reykjavík, en þeim hefði borið að skila framtali þar skv. upplýsingum starfsmanns skattstofunnar í Reykjavík. Það hafi þeir gert, en þegar álagning gjaldárið 1986 hefði legið fyrir, þá hafi komið í ljós, að kærendum hefðu verið áætluð opinber gjöld í Reykjanesumdæmi með því að skattframtal hefði ekki borist þangað í tæka tíð. Nú liggi fyrir kæruúrskurður skattstjórans þar, þar sem framtalið sé tekið sem kæra, en veigamiklar breytingar á því gerðar. Þessar breytingar hafi skattstjóri gert án þess að gefa kæranda kost á því að skýra nánar eða færa rök fyrir framtalsgerð sinni. Vegna dráttar á framtalsskilum skattstofu Reykjavíkur hafi kærandi orðið af kærustigi. Þá er vísað til rökstuðnings kæranda um efnisþátt málsins.

IV.

Með bréfi, dags. 14. janúar 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Svo sem mál þetta er vaxið verður að líta svo á að skattstjóra hefði verið rétt að gefa kæranda kost á að tjá sig um málið áður en það var tekið til úrskurðar. Virðist á þeirri forsendu mega fallast á kröfur umboðsmanns kæranda.“

V.

Kærendur áttu samkvæmt gögnum málsins lögheimili í Reykjavík hinn 1. desember 1985 og er eigi ágreiningur um það í máli þessu. Kærendur skyldu því telja fram og skattleggjast í Reykjavík, sbr. 1. ml. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Kveðast kærendur hafa skilað skattframtali sínu árið 1986, sem dagsett er 8. mars 1986, til skattstofu Reykjavíkur og er það í samræmi við nefnd lagaákvæði. Er þetta reifað í bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 2. desember 1986, til ríkisskattanefndar og er út af fyrir sig ómótmælt. Á árituðu framtali kærenda er tilgreint lögheimili þeirra hinn 1. desember 1985, sem er í Reykjavík. Þá er svofelld áritun á framtalinu af hendi starfsmanns skattstjóra í Reykjanesumdæmi: „Mótt. frá skattstofu R.víkur 3/7 86“. Jafnframt hefur eftirfarandi verið ritað á framtalið af hálfu skattyfirvalda: „Br.H. 23-4-86 Lögh. B.“. Svo sem fram hefur komið áætlaði skattstjórinn í Reykjanesumdæmi kærendum skattstofna til álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1986. Liggur vinnugagn hans varðandi áætlun þessa fyrir í málinu. Við lögheimili kærenda 1. desember 1985 er skráð B. Þá er svofelld áritun: „Br. skrá H.í. 23/4 86“. Á álagningarseðlum er þetta heimilisfang skráð sem lögheimili kærenda 1. des. 1985. Eigi liggja fyrir í málinu gögn um framsendingu skattstjórans í Reykjavík á skattframtali kærenda til skattstjóra Reykjanesumdæmis, en skattframtalið tók hinn síðarnefndi skattstjórinn sem kæru og felldi kæruúrskurð hinn 7. nóvember 1986, þar sem skattframtalið er lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 með fyrrgreindum breytingum. Með þeim hætti, sem að framan er lýst, hafa kærendur verið skattlögð í Reykjanesumdæmi og útsvör og aðstöðugjald lagt til bæjarsjóðs B. Með skírskotun til alls framanritaðs verður eigi hjá því komist að hnekkja álagningu skattstjórans í Reykjanesumdæmi á kærendur gjaldárið 1986 með öllu og fella 611 álögð opinber gjöld þeirra þar gjaldárið 1986 niður. Er skattstjóranum í Reykjavík rétt að taka skattframtal kærenda árið 1986, sem fyrir liggur í málinu, til meðferðar og álagningar að lögum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja