Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 48/1987

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. E-liður 1. mgr. 1. tl.   Lög nr. 51/1980 — Ákvæði til bráðabirgða  

Frádráttarbærni vaxtagjalda — Húsnæðisstofnun ríkisins — Skuldbreytingarlán — Gjaldfallnar verðbætur — Gjaldfallnir vextir — Kröfugerð — Frávísun

I.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri lækkaði tilfærð vaxtagjöld til frádráttar í reit 87 í skattframtali kæranda árið 1985 úr 154.240 kr. í 42.907 kr. og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1985 í samræmi við þá breytingu, sbr. bréf skattstjóra, dags. 17. janúar 1986, og skattbreytingaseðil, dags. sama dag. Kærandi hafði fengið breytingu á lánskjörum á skuld sinni við Byggingarsjóð ríkisins (skuldbreytingarlán) og var nýtt skuldabréf gefið út í því sambandi, sbr. 2. tl. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Kærandi taldi sig hafa greitt upp upphafleg lán og færði til frádráttar meðal vaxtagjalda verðbætur af þeim að fullu. Skattstjóri hefur hins vegar ekki viljað fallast á, að hinar áföllnu verðbætur teldust greiddar við útgáfu hins nýja skuldabréfs og litið svo á, að um hefði verið að ræða breytingu á greiðsluskilmálum á upphaflega láninu. í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 6. mars 1986, segir svo: „

Kærandi hóf byggingu íbúðar í ágúst 1977 og á þá íbúð enn. Hann gerði grein fyrir byggingarkostnaði árin 1977 — 1980. Á árunum 1978 — 1979 tók kærandi 3 lán hjá Veðdeild Landsbanka Íslands v/Húsnæðismálastjórnar merkt F-19, F-21, og F-23 alls að fjárhæð kr. 36.000.-. Lánum þessum var síðan skuldbreytt skv. heimild í 2. tl. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Telur kærandi sig þá hafa greitt umrædd lán upp ásamt áföllnum verðbótum alls að fjárhæð kr. 158.244.15, og síðan tekið nýtt lán hjá sama aðila fyrir nefndri fjárhæð til 22 ára, með 2.25% vöxtum og fullri vísitölu. Krefst kærandi þess að hinar áföllnu verðbætur kr. 124.361.37 verði taldar með vaxtagjöldum til frádráttar, þar sem þær hafi verið greiddar við útgáfu nýja bréfsins. Í bréfi skattstjóra frá 20. des. 1985, er því hafnað að hér sé um frádráttarbær vaxtagjöld að ræða samkv. ákvæðum 1. tl. 1. mgr. E-liðs 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Því telja verði að fyrri lán hafi ekki verið greidd upp, heldur sé um að ræða breytingu á greiðsluskilmálum á upphaflegum lánum. Er vísað til þess, að í nefndu ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 51/1980, sé mönnum gefin kostur á að fá nýtt skuldabréf fyrir uppfærðum eftirstöðvum eldra lánsins, og heimilt sé, ef henta þykir, að framkvæma þessar breytingar með sérstakri yfirlýsingu eða viðauka við eldra bréf. Af hálfu skattstjóra er því litið svo á, að kærandi hafi ekki greitt upp fyrri lán sín, heldur sé um að ræða breytingu á greiðsluskilmálum á upphaflegum lánum. Áfallnar verðbætur séu því ekki greiddar við útgáfu nýja bréfsins, og því ekki frádráttarbærar á þann hátt sem fram kemur m.a. í úrskurði ríkisskattanefndar nr. 799/1983, sem kærandi vísar til.

Samkvæmt hinu nýja veðskuldabréfi, sem gefið er út 7. febrúar 1984 verður því að telja, að kærandi sé annarsvegar að greiða afborgun af upphaflegri lánsfjárhæð, en hinsvegar afborgun af áföllnum verðbótum við útgáfu síðara veðskuldabréfsins.

Í fyrrgreindu bréfi skattstjóra frá 20. des. 1985, er sýndur útreikningur á frádráttarbærum vöxtum og verðbótum í samræmi við það, sem telst vera kr. 12.135.16, og vísast til nefnds bréfs varðandi útreikning þennan.

Ekki hafa verið lögð fram af kæranda ný gögn um vaxtagjöld af skuldabréfi við Landsbanka Íslands, en samkv. framlögðum kvittunum eru þau vaxtagjöld ofreiknuð um kr. 1.357 á skattframtali hans.

Samkvæmt því sem að framan greinir verður ekki talið að hinar umdeildu verðbætur séu í raun greiddar, þrátt fyrir framlagðar kvittanir, eins og kærandi telur í kærubréfi sínu, heldur séu þær fluttar á annað skuldabréf með breyttum greiðsluskilmálum. Kröfu kæranda er því hafnað.“

II.

Þessum kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. apríl 1986. Er þess krafist, að lækkun skattstjóra á tilfærðum vaxtagjöldum vegna umræddra þriggja lána frá Veðdeild Landsbanka Íslands úr 124.362 kr. í 12.135 kr. eða 112.227 kr. verði niður felld. Tekið er fram, að kærandi hafi nýtt sér heimild skv. lögum nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins, til þess að greiða þessi lán upp og taka eitt lán með breyttum lánskjörum. Hafi Veðdeild Landsbanka Íslands gefið stimplaðar kvittanir hinn 14. mars 1984 um að þessi þrjú lán væru uppgreidd og gefið hefði verið út skuldabréf fyrir hinu nýja láni. Ekki verði fallist á þá túlkun skattstjóra, að hér sé um sama lánið að ræða aðeins með breyttum greiðsluskilmálum með því að kvittanir hefðu verið gefnar fyrir því, að upphaflegu lánin væru að fullu greidd. Mætti þar benda á fordæmi með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 799/1983 varðandi hliðstætt efni. Ekki yrði heldur séð, hvenær þessar áföllnu verðbætur af umræddum lánum ættu að koma til frádráttar á skattframtali, þar sem nánast væri ógerlegt fyrir kæranda að reikna út hlutfallslega frádráttarbærar verðbætur ár hvert í þau 22 ár sem væri lánstími hins nýja láns.

III.

Með bréfi, dags. 18. desember 1986, krefst ríkisskattstjóri þess, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda sé hann í samræmi við verklagsreglu, sem ríkisskattstjóri hafi sett skattstjórum.

IV.

Eigi verður á það fallist með kæranda að skuldbreyting Húsnæðisstofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 51/1980 á uppfærðum eftirstöðvum, teljist jafngilda greiðslu á gjaldföllnum verðbótum og vöxtum. Með því að kærandi hefur einvörðungu reist kröfu sína í máli þessu á þessari málsástæðu þykir verða að vísa kærunni frá að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja