Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 177/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 106. gr. l. mgr. og 3. mgr.  

Álag — Síðbúin framtalsskil — Viðbótarframtalsfrestur — Framkvæmdarvenja skattstjóra — Óviðráðanleg atvik

Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að bæta 15% álagi á skattstofna skv. skattframtali kærenda árið 1986 vegna síðbúinna framtalsskila skv. heimildarákvæðum 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kærenda árið 1986 barst skattstjóra hinn 6. júní 1986 skv. áritun hans á framtalið um móttöku þess. Með bréfi, dags. 25. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kærendum, að ákveðið hefði verið að beita 15% álagi í þeirra tilviki. Þá kom fram í bréfinu, að skattstjóri byggði á því, að síðasti dagur framtalsfrests í tilviki kærenda hefði verið 20. maí 1986.

Í kæru, dags. 26. ágúst 1986, mótmælti umboðsmaður kærenda álagsbeitingunni. í kærunni segir svo m.a.: „Framtalsfrestur sem endurskoðendum var veittur nú í vor var til 20. maí s.l. fyrir einstaklinga með atvinnurekstur. Síðan var verið að framlengja hann munnlega þannig að við stóðum í þeirri trú að við hefðum frest og framtölin yrðu tekin án viðurlaga, enda sendum við þau jafnóðum og þau voru tilbúin, þannig að ekki yrði töf á vinnu starfsmanna skattstofunnar. — Nú bregður svo við að skattstjóri beitir viðurlögum án nokkurs fyrirvara. Þetta kemur sér að sjálfsögðu mjög illa fyrir okkur enda vorum við í góðri trú um að það yrði ekki gert.“ Ber umboðsmaðurinn fyrir sig, að kærendur eigi enga sök á þeim drætti, sem varð á framtalsskilunum. Annir á skrifstofu hans, umboðsmannsins, hefðu valdið honum.

Með kæruúrskurði, dags. 20. október 1986, hafnaði skattstjóri kröfu kærenda. Umboðsmaðurinn þætti hvorki hafa sannað né gert sennilegt með rökum, að annir hans nú hefðu valdið síðbúnum framtalsskilum né að ætíð bæri að fella niður álag vegna þeirra atvika einna sér. Þá vék skattstjóri að framtalsskilum kærenda árin 1984 og 1985, er hefðu verið síðbúin.

Umboðsmaður kærenda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. nóvember 1986, og krefst þess, að álagið verði niður fellt. Færir hann fram þau sömu rök og skýringar og fram komu í kærunni til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærandi getur ekki öðlast rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags þó hann fái aðstoð við framtalsgerðina. Með því að ekki hefur verið sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt eigi við er ítrekuð krafa um að hið kærða álag standi óhaggað.“

Óumdeilt er, að skattframtal kærenda árið 1986 hafi borist skattstjóra hinn 6. júní 1986. Þegar litið er til þess, hvernig ákvörðunum skattstjóra varðandi framtalsfresti hefur verið háttað og að nokkru er vikið að í kæru umboðsmanns kærenda til skattstjóra og endurtekið er í kærunni til ríkisskattanefndar, þykir álagsbeiting í tilviki kærenda árið 1986 eigi reist á nægilega traustum grunni. Er hið kærða álag því niður fellt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja