Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 211/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 106. gr. 1. mgr. 3. mgr.  

Álag — Síðbúin framtalsskil — Álagsbeiting — Ítrekun — Óviðráðanleg atvik

Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að bæta 15% álagi víð skattstofna kærenda gjaldárið 1986 vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kærenda árið 1986, sem dagsett er hinn 11. júní 1986, barst skattstjóra 13. s.m. samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess. Skattstjóri tilkynnti kærendum með bréfi, að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 að viðbættu 15% álagi.

Með kæru, dags. 26. ágúst 1986, mótmælti umboðsmaður kærenda álagsbeitingunni og kvað miklar og óvæntar annir á skrifstofu sinni hafa valdið þeim drætti, sem varð á framtalsskilunum. Með kæruúrskurði, dags. 13. nóvember 1986, hafnaði skattstjóri kærunni. Þætti umboðsmaðurinn hvorki hafa sannað né gert sennilegt með rökum, að annir hans nú hefðu valdið síðbúnum framtalsskilum eða að ætíð bæri að fella niður álag vegna þeirra atvika einna sér. Tók skattstjóri fram, að umboðsmaðurinn hefði haft frest til þess að skila skattframtali kærenda til 3. mars 1986 en framtalið hefði borist skattstjóra 13. júní 1986 eða 102 dögum of seint. Þá hefði skattframtal kærenda árið 1983 borist 2 mánuðum of seint og skattframtal árið 1985 tveimur og hálfum mánuði of seint. Væra síðbúin framtalsskil nú því ekki einstakt tilfelli.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. desember 1986. Er þess farið á leit, að fyrrgreint álag verði fellt niður með vísan til þeirra skýringa, er fram koma í kæru til skattstjóra, þ.e.a.s. anna á skrifstofu hans.

Með bréfi, dags. 17. febrúar 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þegar fram bornar ástæður í máli þessu fyrir síðbúnum framtalsskilum eru virtar svo og það sem upplýst er um fyrri framtalsskil kærenda, sem eigi hefur verið andmælt, þykja eigi næg efni til þess að falla frá beitingu heimildarákvæða 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í tilviki kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja