Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 212/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 48/1985 — 2. gr. l. mgr. A-liður
Öryrki — Eignarskattsauki — Ellilífeyrisþegi — Lögskýring — Undanþága frá skattskyldu
Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 var lagður eignarskattsauki á kæranda að fjárhæð 7.708 kr. Þessari álagningu var mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda í kæru til skattstjóra, dags. 26. ágúst 1986, með þeim rökum, að kærandi væri 75% öryrki og nyti því örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, sömu upphæðar og ellilífeyrisþegar, en þeim væri ekki gert að greiða eignarskattsauka. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 18. nóvember 1986. Hafnaði hann kröfu kæranda með því að ekki væri fyrir hendi lagaheimild til niðurfellingar eignarskattsauka í tilviki kæranda, þar sem hann væri yngri en 67 ára og því ekki undanþeginn álagningu skatts þessa.
Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. desember 1986. Er þess krafist, að fyrrnefndur eignarskattsauki 7.708 kr. verði felldur niður með sömu rökum og fram koma í kærunni til skattstjóra. Sé vandséð, hvaða ástæður löggjafinn hafi haft til þess að gera mun á öryrkjum og ellilífeyrisþegum í lögum um eignarskattsauka, þar sem þessir aðilar hafi hingað til haft sömu skattalegu réttindin.
Með bréfi, dags. 6. febrúar 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málínu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
Hinn umdeildi skattur var álagður samkvæmt 2. gr. laga nr. 48/1985, um sérstaka fjáröflun vegna húsnæðismála á árunum 1985 og 1986. Í niðurlagsákvæði a. liðs 1. mgr. nefndrar lagagreinar, en í staflið þessum er fjallað um álagningu eignarskattsauka á eignarskattsstofn manna samkvæmt nánar tilgreindum reglum, er sú undantekning ein gerð frá álagningu skatts þessa, að hann skal ekki lagður á eignir manna, sem eru 67 ára eða eldri. Undanþága þessi tekur samkvæmt berum orðum sínum eigi til tilviks kæranda og eigi verður talið, að aðrar lögskýringar geti leitt til þess, að kærandi leysist undan skattskyldu í þessum efnum. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra.