Úrskurður yfirskattanefndar

  • Launauppgjöf
  • Skilyrði frádráttar greiðslna fyrir vinnu

Úrskurður nr. 350/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 2. mgr. (brl. nr. 147/1994, 3. gr. a-liður), 92. gr.  

Í kæru til yfirskattanefndar var krafist gjaldfærslu fæðiskostnaðar starfsmanna. Ríkisskattstjóri krafðist þess að synjað yrði um gjaldfærsluna þar sem ekki hefði verið fullnægt skyldu til að afhenda skattstjóra upplýsingar um viðkomandi greiðslur eða hlunnindi. Yfirskattanefnd vísaði kröfu kæranda um gjaldfærslu fæðiskostnaðar frá að svo stöddu þar sem hann hafði ekki staðið skil á launauppgjöf varðandi umrædd hlunnindi þrátt fyrir tilefni og ábendingu yfirskattanefndar.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts gjaldárið 1995 og sætti því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtalið, dags. 31. ágúst 1995, barst skattstjóra sem rökstuðningur við skattkæru, dags. 28. ágúst 1995. Áður en skattstjóri tók kæruna til afgreiðslu reit hann kæranda bréf, dags. 9. október 1995, þar sem hann lagði fyrir kæranda að sundurliða gjaldaliðinn kostnað vegna starfsfólks, 398.905 kr., og gera nákvæma grein fyrir hverjum lið hans og á hvaða forsendum hann teldi að um væri að ræða frádráttarbæran kostnað samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Engin svör bárust skattstjóra frá kæranda.

Með kæruúrskurði, dags. 30. nóvember 1995, féllst skattstjóri á að leggja innsent framtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda að gerðum þeim breytingum að hann hafnaði frádrætti vegna gjaldaliðarins kostnaðar vegna starfsfólks og lagði vegna síðbúinna framtalsskila 15% álag á gjaldstofna, sbr. heimild í 106. gr. laga nr. 75/1981.

Kærandi hefur með kæru, dags. 27. desember 1995, skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og gert grein fyrir að umræddur kostnaður vegna starfsmanna hafi verið fæðiskostnaður vegna starfsmanna sinna og undirverktaka vegna tilboðsverks … í sveitarfélaginu X. Kærunni fylgir ljósrit af fæðisreikningum að fjárhæð 384.968 kr. frá veitingastað í X. Eftirstöðvar, 13.937 kr., hafi verið greiddar ýmsum vegna kaffikostnaðar og matar.

Með bréfi, dags. 25. október 1996, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda gert svofellda kröfu í málinu:

„Í kærunni er upplýst að á árinu 1994 hafi félagið fengið verk … í sveitarfélaginu X. Kostnaður vegna starfsfólks sem gjaldfærður var á rekstrarreikningi er til kominn vegna þess að félagið þurfti að sjá starfsmönnum og undirverktökum sínum fyrir fæði meðan á verkinu stóð.

Samkvæmt 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast fæðishlunnindi til skattskyldra tekna. Skilyrði fyrir frádráttarbærni umræddra hlunninda hjá launagreiðanda, er að þau séu talin fram á launamiðum, sbr. ákvæði 5. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994. um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Af fyrirliggjandi gögnum, þ.e. launamiðum og launaframtali, verður eigi séð að umrædd hlunnindi séu gefin upp sem tekjur.

Með vísan til framanritaðs gerir ríkisskattstjóri þær kröfur í málinu að kröfum kæranda verði hafnað."

II.

Með bréfi, dags. 3. febrúar 1997, sendi yfirskattanefnd kæranda ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og gaf honum kost á að tjá sig um þau atriði hennar sem hann teldi ástæðu til. Engar athugasemdir hafa borist af hálfu kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. a-lið 3. gr. laga nr. 147/1994, er skattstjóra heimilt, að gættum ákvæðum 96. gr. laganna, að synja um frádrátt vegna greiðslna og hlunninda ef eigi hefur verið fullnægt skyldu til að afhenda honum upplýsingar um viðkomandi greiðslur eða hlunnindi, sbr. 92. gr. laganna. Ekki er um það deilt í málinu að umræddur kostnaður sé vegna skattskyldra fæðishlunninda starfsfólks. Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist að lagaheimild sem að framan getur verði beitt í málinu og hefur kærandi átt þess kost að tjá sig um þá kröfu og leggja fram tilskildar upplýsingar. Þrátt fyrir þetta hefur kærandi eigi staðið skil á launauppgjöf varðandi hlunnindi þau er ágreiningur er um í máli þessu. Kröfum kæranda er því að svo stöddu vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja