Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 238/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3.tl. — 91. gr. — 96. gr. — 106. gr.
Sameignarfélag — Félagsaðilar í sameignarfélagi — Sjálfstæður skattaðili — Skattskylda sameignarfélags — Álagningarmeðferð skattstjóra — Skattframtal, höfnun — Skattskil — Áætlun — Álag — Firmaskráning — Tilkynning til firmaskrár — Firmatilkynning — Lögbirtingablað
Málavextir eru þeir, að hinn 2. apríl 1986 barst skattstjóra skattframtal kæranda árið 1986. Í bréfi, er fylgdi skattframtalinu, var þess getið, að kærandi hefði í byrjun árs stofnað sameignarfélagið „X.“ ásamt þremur öðrum. Hefði fljótlega tekið að brydda á ósamkomulagi eigenda, enda bullandi tap á rekstri. Þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni hefði ekki tekist að fá reikningsskil fyrir sameignarfélagið, en kærandi hefði gengið úr því í september 1985 og orðið fyrir stórfelldu fjárhagstjóni. Var vísað til framtals þessa sameignarfélags varðandi þessi atriði.
Næst gerðist það í málinu, að skattstjóri ritaði kæranda bréf hinn 9. júní 1986. Meginefni bréfs skattstjóra var að krefja kæranda um ársreikning X. s.f. fyrir árið 1985, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ásamt þeim lögboðnu fylgiskjölum, skýringum og gögnum, sem nauðsynleg kynnu að vera svo sem nánar var reifað í bréfinu. Tók skattstjóri fram, að fyrrnefnt sameignarfélag, sem kærandi væri aðili að, sbr. tilkynningu um atvinnurekstur vegna söluskatts og upplýsingar í framtalsgögnum hans, væri ekki sjálfstæður skattaðili. Bæri eigendum því að gera grein fyrir rekstri félagsins og leggja fram ársreikning með skattframtölum sínum. Skattstjóri veitti kæranda 10 daga svarfrest og gat þess, að skattframtalinu yrði án frekari fyrirvara vikið til hliðar og gjöld áætluð, ef fyrirspurnarbréfinu yrði ekki svarað, gögn og skýringar yrðu ekki í því formi, sem um væri beðið eða svar, gögn og skýringar ófullnægjandi.
Í svarbréfi kæranda, dags. 12. júní 1986, kom fram, að hann hefði gengið úr sameignarfélaginu þann 12. september 1985. Ekkert uppgjör og engir reikningar um rekstur félagsins hefðu þá legið fyrir og hefði hann engin tök á að afla þeirra nú, þar sem hann væri ekki félagsmaður lengur. Með bréfi, dags. 23. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði ákveðið að hafna skattframtali hans árið 1986 og áætla honum tekjuskattsstofn að fjárhæð 400.000 kr. og aðstöðugjaldsstofn að fjárhæð 600.000 kr. Við þessa skattstofna yrði bætt 25% álagi. Væri höfnun skattframtalsins byggð á því, að ekki hefðu verið lögð fram umbeðin gögn, sbr. bréf skattstjóra, dags. 9. júní 1986.
Kærandi kærði álagninguna með bréfi, dags. 28. ágúst 1986, og kvaðst færa fram rökstuðning síðar, þegar hann hefði aflað nauðsynlegra gagna. Með kæruúrskurði, dags. 28. október 1986, vísaði skattstjóri kærunni frá með því að rökstuðningur hefði ekki borist, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981.
Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. nóvember 1986. Í bréfi, dags. 3. desember 1986, gerir umboðsmaðurinn grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi. Því bréfi fylgdi yfirlýsing A., dags. 20. nóvember 1986, þess efnis, að skv. bókhaldsgögnum frá X. s.f., sem hjá honum væru, virtist peningaúttekt kæranda hjá félaginu á árinu 1985 hafa verið 135.579,45 kr. Umboðsmaður kæranda gat þess í bréfinu, að nefndur A. hefði ennfremur upplýst munnlega, að sameignarfélagið væri sjálfstæður skattaðili. Kvaðst umboðsmaðurinn upphaflega hafa haldið, að svo væri ekki. Var þess óskað, að opinber gjöld kæranda gjaldárið 1986 yrðu tekin til endurálagningar í ljósi þessara upplýsinga.
Með bréfi, dags. 24. febrúar 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Gerð er krafa um að hin kærða áætlun gjaldstofna standi óbreytt. Skv. framtalsgögnum er sameignarfélagið X. s.f. ekki sjálfstæður skatt aðili. Þau gögn og upplýsingar er skattstjóri krafði gjaldanda um hafa enn ekki verið lögð fram.“
Hin kærða álagning skattstjóra byggist á því, að hann hefur litið svo á, að X. s.f. væri eigi sjálfstæður skattaðili skv. 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Á þessum forsendum hefur hann vikið skattframtali kæranda árið 1986 til hliðar og áætlað honum skattstofna að viðbættu 25% álagi. Með bréfi, dags. 23. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda um áætlun skattstofna og fjárhæð þeirra, sbr. hér að framan, þar sem efni þessa bréfs er rakið. Þegar litið er til álagningarblaðs kæranda og vinnugagns skattstjóra varðandi áætlun þessa, sem er m.a. skattframtal það, sem kærandi skilaði, kemur í ljós, að tekjuskattsstofn að viðbættu álagi hefur verið ákvarðaður 1.400.000 kr., útsvarsstofn 500.000 kr., en aðstöðugjaldsstofn er í samræmi við þá fjárhæð sem í bréfinu greinir. Eigi fær þessi álagningarmeðferð staðist. Skattstjóri gerir eigi grein fyrir því á hverju hann byggir ályktun sína um skattalega stöðu X. s.f., en ríkisskattstjóri vísar til framtalsgagna um þetta atriði. Eigi er neitt í málsgögnum að finna um þetta. Í tilkynningu til Firmaskrár Reykjavíkur, dags. 1. febrúar 1985, um stofnun margnefnds sameignarfélags, er birtist í Lögbirtingablaði 56. tbl. 1985, útg. 3. apríl 1985, kemur hins vegar fram, að skráð hefur verið í firmaskrána, að sameignarfélagið skuli vera sjálfstæður skattaðili. Eigi eru nein efni til annars en að byggja á þessu í málinu. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er hin kærða álagning skattstjóra niður felld og tekjuframtal kæranda árið 1986 lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda hans gjaldárið 1986. Þá þykja eigi efni til að gera kæranda að greiða eignarskatt.