Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 249/1987

Gjaldár 1985 og 1986

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður l.tl. — 30. gr. l.mgr. A-liður 9.tl. — 96. gr. — 106. gr. 2.mgr.  

Frádráttarheimild — Starfslokafrádráttur — Starfslok — Tekjutímabil — Álag — Álagsbeiting — RIS. nr. 736 ár 1986

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í reiti 36 í skattframtölum sínum árin 1985 og 1986 frádrátt skv. 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, um breyting á þeim lögum. í skattframtali árið 1985 nam frádráttarfjárhæð 400.000 kr. og árið 1986 544.000 kr. Skattframtölunum fylgdu sérstök yfirlýsing og greinargerðir vegna frádráttar þessa, sbr. eyðublað R3.08. í yfirlýsingu kæranda vegna skattframtals 1985, dags. 22. febrúar 1985, kom fram, að hann léti af störfum þann 1. júlí 1985.

Skattstjóri felldi þessa frádráttarliði niður, sbr. endurákvörðun hans, dags. 1. ágúst 1986, á áður álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1985 og tilkynningu, dags. 25. júlí 1986, til kæranda um niðurfellingu frádráttarins gjaldárið 1986. Skattstjóri beitti 25% álagi á vantalinn skattstofn gjaldárið 1985 skv. heimildarákvæðum 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. fyrrnefnda endurákvörðun. Forsendur skattstjóra fyrir þessum breytingum voru þær, að kærandi hefði ekki látið af störfum svo sem áskilið væri í fyrrnefndum lagaákvæðum um frádrátt þennan.

Af hálfu kæranda kom fram, sbr. bréf umboðsmanns hans, dags. 5. og 30. maí 1986 og kærur, dags. 20. og 28. ágúst 1986, að á þeim tíma, þegar gengið var frá skattframtali árið 1985, hefði hann haft í hyggju að láta af störfum hinn 1. júlí 1985 og farið fram á frádrátt í samræmi við það. Aðstæður hefðu hins vegar breyst þannig að ekki hefði orðið úr því, að hann léti af störfum. Kvaðst kærandi ekki hafa talið sér skylt að tilkynna skattyfirvöldum þessa breyttu ákvörðun sína „með hliðsjón af því að hver einstaklingur ætti rétt á slíkum frádrætti einu sinni á ævinni". Mætti benda á, að ekkert kæmi fram um slíka tilkynningarskyldu í lögum eða eyðublaði varðandi frádráttinn R3.08. Var því mótmælt, að frádrátturinn yrði felldur niður jafnframt því sem álagsbeitingu var mótmælt.

Með kæruúrskurðum, dags. 10. október 1986, hafnaði skattstjóri öllum kröfum kæranda. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi:

„Hinn tilfærði frádráttur er samkvæmt 9. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 119/1984, og er eitt meginskilyrði hans að menn láti af störfum vegna aldurs.

Fyrir liggur að kærandi lét eigi af störfum á þeim tíma sem hér skiptir máli. Á hann því eigi rétt á hinum umkrafða frádrætti. Engu breytir í þessu efni þó að lögin tiltaki að téður frádráttur sé einungis heimill einu sinni enda upphefur það augljóslega eigi meginskilyrði frádráttarins. Enga þýðingu hefur heldur við úrlausn málsins að eigi sé orðað í lögum né á eyðublaði R3.08 að menn þurfi að tilkynna skattyfirvöldum um breytta ákvörðun varðandi starfslok.

Svo skýrt og augljóst er skilyrði lagagreinarinnar um það að menn þurfi að láta af störfum til að öðlast þennan frádrátt að kæranda mátti ljóst vera að hann ætti eigi rétt á honum er hann hætti við áformuð starfslok hinn 1. júlí 1985. Hann hélt hins vegar að sér höndum og nýtti sér þann fjárhagslega ávinning sem í því fólst. Kærandi hefur nú í á annað ár haldið fjármunum sem með réttu áttu að greiðast í opinber gjöld og er um verulega fjárhæð að tefla. Af þessum sökum hefur hann og greitt til muna of lága fyrirframgreiðslu opinberra gjalda 1986. Með vísan til ofanritaðs kemur því eigi annað til álita en beita álagsheimild 106. gr. laga nr. 75/1981.“

Með kæru, dags. 3. nóvember 1986, hefur kæruúrskurðum skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar af hálfu umboðsmanns kæranda. Vísað er til framkominna krafna og rökstuðnings í málinu. Sérstaklega er beitingu álags mótmælt og því haldið fram, að rökstuðningur skattstjóra fyrir því sé ekki í samræmi við þau tilvik, sem greind séu í 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 18. febrúar 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurðir skattstjóra verði staðfestir með vísan til forsendna þeirra. Einnig er vísað til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 736, uppkveðins 31. desember 1986, og sjónarmiða ríkisskattstjóra, sem þar koma fram.“

Kærandi dró frá tekjum sínum á skattframtölum árin 1985 og 1986 tekjur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er hann hafði aflað á tímabilinu 1. júlí 1984 til 30. júní 1985, og byggði frádrátt þennan á 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, um breyting á þeim lögum. Voru frádráttarfjárhæðir í því hámarki, sem mælt er fyrir um í nefndu lagaákvæði. Samkvæmt gögnum málsins var hér eigi um að ræða tekjur, er kærandi aflaði á síðustu tólf starfsmánuðum sínum, áður en hann lét af störfum vegna aldurs og er það raunar viðurkennt af hálfu kæranda í málinu. Hann hefur því eigi uppfyllt lagaskilyrði fyrir frádrætti þessum. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta kæruúrskurði skattstjóra þó þannig, að eftir atvikum þykir mega fella álag niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja