Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 257/1987

Sölugjald 1983

Reglugerð nr. 486/1982 — 10. gr. 7. tl.   Lög nr. 10/1960  

Sölugjald — Fjármögnunarleiga — Endurákvörðun sölugjalds — Auglýsing fjármálaráðuneytis — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan

Með bréfi dags. 29. apríl 1985 tilkynnti skattstjóri kæranda að vanreiknað sölugjald fyrir árið 1983 hefði verið ákveðið 303.085 kr. og álag frá 15. júlí 1983 til og með 15. maí 1985 272.776 kr. Tók skattstjóri fram að sölugjaldið væri lagt á vegna tekna af leigu véla samkvæmt skattframtali kæranda árið 1984. Þá gat skattstjóri þess að kærufrestur til hans væri 10 dagar frá dagsetningu tilkynningarinnar. Af hálfu kæranda var álagningin kærð til skattstjóra með kæru dags. 7. maí 1985 og fylgdi henni frekari rökstuðningur í bréfi dags. 27. nóvember 1985. Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð þann 28. maí 1986 og hefur honum verið áfrýjað til ríkisskattanefndar með bréfi dags. 9. júní 1987. Vegna máls þessa liggur fyrir bréf kæranda til ríkisskattstjóra dags. 13. júní 1986.

Með bréfi dags. 6. febrúar 1987 hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Fallist er á þrautavarakröfu kæranda en að öðru leyti er gerð krafa um staðfestingu á niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Fyrir kröfu þessari skal gerð svofelld grein:

Um aðalkröfu:

a) Kærandi þykir eigi hafa fært fram nægilega gildar ástæður sér til afsökunar til að falla megi frá beitingu álags skv. 6. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960

b) Gera verður kröfu um að úrskurður skattstjóra varðandi þetta atriði verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Auglýsing fjármálaráðuneytisins um undanþágu frá greiðslu söluskatts af fjármögnunarleigu tók gildi 26. febrúar 1986. Tekjur af kaupleigusamningi á árinu 1983 voru því tvímælalaust söluskattsskyldar, sbr. 7. tl. 10. gr. reglugerðar nr. 486/1982, sem vitnað er til í 1. gr. framangreindrar auglýsingar.

Um varakröfu:

Ekki er fallist á þessa kröfu, sbr. a) lið aðalkröfu.

Um þrautavarakröfu:

Sem fyrr greinir er fallist á kröfuna.“

Kæranda var ekki gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og eftir atvikum að bera fram gögn áður en skattstjóri framkvæmdi hina kærðu álagningu. Verður þegar af þeirri ástæðu eigi hjá öðru komist en fella hana úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja