Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 273/1987
Gjaldár 1986
Lög nr. 100/1985 — 8. gr. Lög nr. 75/1981 — 76. gr. 1. mgr.
Sérstakur eignarskattur, óálagður — Frádráttarbærni við ákvörðun eignarskatts — Frádráttarheimild — Lögskýring
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1986. Er kæruefnið sú afstaða skattstjóra að heimila ekki til frádráttar eignum við ákvörðun eignarskattsstofns pr. 31. desember 1985 reiknaðan óálagðan sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði gjaldársins 1986. Til stuðnings kröfu sinni vitnar kærandi til 1. mgr. 76. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og tekur fram að nefndur skattur legðist ekki á hreina eign.
Með bréfi dags. 6. mars 1987 krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Í 2. ml. 8. gr. laga nr. 100/1985 um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er tekið fram að skatturinn sé „til frádráttar eignum við ákvörðun eignarskatts samkvæmt lögum nr. 75/1981 eftir reglum lokaákvæðis 1. mgr. 76. gr. þeirra laga“. Með vísan til þessa ákvæðis er eigi fallist á kröfu kæranda.