Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 277/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður l.tl. 2.mgr. — 59. gr. 1. mgr.  

Reiknað endurgjald — Bóndi — Landbúnaður — Búrekstur — Skattframtal, tortryggilegt — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur, tortryggilegt — Áætlun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi m.a. með tilliti til aldurs

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1986. Er kæruefnið sú ákvörðun skattstjóra að lækka tilfært reiknað endurgjald úr 750.000 kr. í 150.000 kr. Er þess krafist að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt með tilliti til frásagnar umboðsmanns kæranda af vinnuframlagi kæranda á árinu 1985 við búreksturinn.

Með bréfi dags. 24. febrúar 1987 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Ríkisskattstjóri gerir kröfu um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Deilt er um fjárhæð reiknaðs endurgjalds kæranda. Kærandi sem er fædd árið 1902 hefur á skattframtölum áranna 1984 og 1985 reiknað sér sem endurgjald kr. 40.000 hvort árið. Svo bregður við að á skattframtali 1986 er endurgjaldið reiknað kr. 750.000. Ástæðu þess segir umboðsmaður kæranda vera hina góðu afkomu búsins 1985. Umboðsmaður kæranda hefur ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að vinnuframlag kæranda hafi aukist svo gífurlega milli ára eins og hækkun reiknaðra launa sýnir, þrátt fyrir áskorun skattstjóra. Jafnframt er bent á að sonur kæranda, sem stendur að búi, ásamt henni, hefur reiknað sér sem endurgjald kr. 450.000.

Ríkisskattstjóri lítur svo á að þau reiknuðu laun, kr. 150.000, er skattstjóri ákvarðaði kæranda séu rífleg þegar litið er til aldurs kæranda og þess að kærandi hefur keypt að vinnukraft svo sem umboðsmaður hennar upplýsir.“

Ekki þykja efni til að hnekkja úrskurði skattstjóra og er hann því staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja