Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 292/1987
Gjaldár 1986
Álag — Síðbúin framtalsskil — Framtalsfrestur — Viðbótarframtalsfrestur — Frestveiting skattstjóra — Framkvæmdarvenja skattstjóra — Óviðráðanleg atvik
Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að bæta 15% álagi við skattstofna samkvæmt skattframtali kærenda árið 1986 vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kærenda árið 1986 barst skattstjóra hinn 18. júní 1986 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttökudag. Með bréfi, dags. 25. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kærendum, að 15% álagi yrði bætt við skattstofna samkvæmt framtalinu, sem hann framkvæmdi svo við frumálagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1986.
Af hálfu umboðsmanns kærenda var álagsbeitingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 28. ágúst 1986. Færði umboðsmaðurinn þau rök fram, að kærendum yrði ekki kennt um þann drátt, sem varð á framtalsskilunum. Þá var vikið að samkomulagi við skattyfirvöld viðvíkjandi framtalsfrestum.
Með kæruúrskurði, dags. 20. október 1986, hafnaði skattstjóri kröfu kærenda. Tók hann fram, að ekki hefði verið til staðar neitt formlegt samkomulag varðandi móttöku skattframtala til álagningar án álags utan þeirrar formlegu heimildar, sem veitt var með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 4. mars 1986, en skattframtöl skyldu skv. þeim heimild hafa borist fyrir hádegi hinn 20. maí 1986. Þá segir svo í kæruúrskurðinum: „Í framhaldi af viðræðum við forsvarsmenn Félags löggiltra endurskoðenda ákvað skattstjóri að virtum málavöxtum að álagi yrði ekki beitt á þau framtöl sem álagningarhæf teldust og vitað yrði að síðbúin yrðu skv. fyrirliggjandi frestlistum þann 20. maí fyrr en eftir 5. júní 1986“. Vék skattstjóri að heimildarákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981 um beitingu álags, tilgangi með þeim ákvæðum og varnaðarsjónarmiðum í því sambandi. Hefðu verið gildar forsendur til álagsbeitingar þegar frá og með 20. maí 1986, þar eð um formlegan lokafrest hefði verið að ræða, sbr. 118. gr. laga nr. 75/1981, til að ljúka þeim framtölum, sem skv. 93. gr. laganna áttu að hafa borist skattstjóra fyrir 15. mars 1986. Ekki væri um það að ræða, að ætíð skyldi fella niður álag vegna síðbúinna framtalsskila, þegar annir umboðsmanns hefðu valdið töfum á framtalsskilum.
Með kæru, dags. 18. nóvember 1986, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kröfu um, að fyrrgreint álag (15%) verði fellt niður. Er vísað til þess, að fyrir hafi legið óformlegt samkomulag við skattstjóra varðandi skil skattframtala. Hefði umboðsmaðurinn því verið í góðri trú varðandi skil framtalsins og álagningu skv. því án álags. Þessu til stuðnings bendir umboðsmaðurinn á, að álagi hafi verið bætt við skattstofna skv. sumum þeim skattframtölum, sem send hafi verið skattstofu eftir 5. júní 1986, meðan skattframtöl annarra skjólstæðinga hans, sem borist hafi um svipað leyti, hafi verið tekin til álagningar án álags. Telur umboðsmaðurinn sig hafa fært fyrir því rök, að í gildi hafi verið samkomulag um, að skattframtal kærenda árið 1986 yrði tekið til álagningar án álags og þar með að þeim yrði ekki kennt um síðbúin skil þess, sbr. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.
Með bréfi, dags. 13. febrúar 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra.
Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að ákvæði 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 geti átt við.“
Óumdeilt er, að skattframtal kærenda árið 1986 hafi borist skattstjóra hinn 18. júní 1986. Þegar litið er til þess hvernig ákvörðunum skattstjóra varðandi framtalsfresti hefur verið háttað og vikið er að í kærum kærenda til skattstjóra og ríkisskattanefndar og hinum kærða úrskurði, þykir álagsbeiting í tilviki kærenda árið 1986 eigi reist á nægilega traustum grunni. Að því athuguðu og málavöxtum að öðru leyti er hið kærða álag niður fellt.